6. janúar - Olíuflutningaskipið Sanchi lenti í árekstri við flutningaskip með þeim afleiðingum að það kviknaði í því. Skipið rak logandi um Austur-Kínahaf í 8 daga og olli gríðarlegri mengun.
13. janúar - Naqeebullah Mehsud var myrtur af lögreglumönnum í Karachi í Pakistan. Morðið leiddi til víðtækra mótmæla gegn því að lögregla dræpi fólk án dóms og laga.
27. janúar - Talíbanar stóðu fyrir sprengjuárás í Kabúl með bílsprengju í sjúkrabíl. Yfir 100 létust í sprengingunni.
28. janúar - Forsetakosningar voru haldnar í Finnlandi. Sauli Niinistö, sitjandi forseti, vann endurkjör í fyrstu umferð með rúm sextíu prósent atkvæða.
26. febrúar - Jarðskjálfti sem mældist 7,5 reið yfir Papúu Nýju-Gíneu með þeim afleiðingum að yfir 160 létu lífið.
Mars
4. mars - Rússneski fyrrum leyniþjónustumaðurinn Sergej Skripal varð ásamt dóttur sinni fyrir eitrun vegna taugaeitursins Novitsjok á heimili sínu í Salisbury á Englandi.
9. mars - Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, þáði boð leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, um leiðtogafund til að ræða kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu.
11. mars - Ríkisstjórn Kína samþykkti stjórnarskrárbreytingu sem afnam hámarkstíma leiðtoga í embætti og gerði Xi Jinping að „æviráðnum forseta“.
26. mars - Yfir 100 rússneskir ríkiserindrekar í 20 löndum voru reknir vegna eitrunar Sergej og Juliu Skripal.
28. mars - Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, fór í opinbera heimsókn til Kína til fundar við Xi Jinping. Þetta var í fyrsta sinn sem hann fór úr landi eftir að hann tók við embætti árið 2011.
19. apríl - Raúl Castro lét af embætti sem forseti Kúbu. Miguel Díaz-Canel tók við og varð þar með fyrsti forseti Kúbu í rúm fjörutíu ár sem ekki er af Castro-ætt.
23. apríl - Trukkaárásin í Torontó: 10 létust og 16 særðust þegar 25 ára gamall maður ók trukk á hóp fólks í Torontó í Kanada.
27. apríl - Kim Jong-un fór yfir hlutlausa beltið og til Suður-Kóreu til fundar við Moon Jae-in. Þetta var í fyrsta sinn sem norðurkóreskur leiðtogi fór yfir beltið.
6. júlí - Bandarískir tollar á kínverskar innflutningsvörur að andvirði 34 milljarða dala tóku gildi. Kínverjar ásökuðu Bandaríkjamenn um að hrinda af stað stærsta viðskiptastríði sögunnar.
28. nóvember - Kínverski vísindamaðurinn He Jiankui lýsti því yfir á ráðstefnu í Hong Kong að hann hefði breytt erfðamengi tvíbura sem fæddust fyrr í sama mánuði.