Miguel Díaz-Canel

Miguel Díaz-Canel
Miguel Díaz-Canel árið 2022.
Forseti Kúbu[a]
Núverandi
Tók við embætti
19. apríl 2018
ForsætisráðherraManuel Marrero Cruz
VaraforsetiSalvador Valdés Mesa
ForveriRaúl Castro
Aðalritari kúbverska kommúnistaflokksins
Núverandi
Tók við embætti
19. apríl 2021
ForveriRaúl Castro
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. apríl 1960 (1960-04-03) (64 ára)
Placetas, Villa Clara, Kúbu
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kúbu
MakiMartha (skilin)
Lis Cuesta
Börn2
HáskóliHáskóli Mörtu Abreu í Las Villas
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Miguel Mario Díaz-Canel Bermúdez (f. 20. apríl 1960) er kúbverskur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Kúbu frá 19. apríl 2018. Titill hans var forseti ríkisráðsins til 10. október 2019. Hann var varaforseti Kúbu frá 2013 til 2018, meðlimur í stjórnmálanefnd kúbverska kommúnistaflokksins frá árinu 2003 og ráðherra æðri menntamála frá 2009 til 2012. Hann varð varaforseti ráðherraráðsins árið 2012 og fyrsti varaforseti ríkisráðsins þann 24. febrúar árið 2013.[1]

Þann 19. apríl 2018 var Díaz-Canel valinn til að taka við af Raúl Castro sem forseti Kúbu. Hann var svarinn í embætti daginn eftir. Díaz-Canel er fyrsti forseti Kúbu frá árinu 1976 og fyrsti ríkisstjórnarleiðtoginn frá 1959 sem ekki er úr Castro-fjölskyldunni. Díaz-Canel tók jafnframt við af Castro sem aðalritari kommúnistaflokksins árið 2021.[2][3]

Bakgrunnur

Díaz-Canel fæddist þann 20. apríl árið 1960 í Placetas í sýslunni Villa Clara. Foreldrar hans voru kennarinn Aída Bermúdez og Miguel Díaz-Canel, iðnverkamaður í Santa Clara.[4][5] Díaz-Canel er ættaður frá Spáni í föðurætt. Langafi hans, Ramón Díaz-Canel, flutti frá Castropol í Astúríu til Havana síðla á 19. öld.[6][7]

Díaz-Canel útskrifaðist með gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Mörtu Abreu í Las Villas árið 1982. Hann gekk í kjölfarið í kúbverska herinn.[8] Frá apríl 1985 kenndi hann við háskólann sinn. Árið 1987 vann hann í ræðismannsskrifstofu Kúbu í Níkaragva sem aðalritari ungliðahreyfingar Kommúnistaflokksins í Villa Clara.

Stjórnmálaferill

Árið 1993 hóf Díaz-Canel störf fyrir kúbverska kommúnistaflokkinn og var næsta ár kjörinn aðalritari héraðsnefndar kommúnistaflokksins í Villa Clara.[8][9] Hann varð þekktur fyrir skilvirkni í embættinu[9] og varð jafnframt kunnur fyrir að styðja réttindi hinsegin fólks þrátt fyrir að fordómar gegn samkynhneigðum væru þá útbreiddir í héraðinu.[10] Árið 2003 var Díaz-Canel kjörinn í sama embætti í Holguín-sýslu.[8][11] Sama ár tók hann sæti í stjórnmálanefnd kúbverska kommúnistaflokksins.[12]

Díaz-Canel var útnefndur ráðherra æðri menntamála í maí árið 2009. Hann hélt því embætti til 22. mars árið 2012 en þá varð hann varaforseti ráðherraráðsins.[8][13] Árið 2013 varð hann jafnframt fyrsti varaforseti ríkisráðsins.[8]

Forseti Kúbu

Sem fyrsti varaforseti ríkisráðsins var Díaz-Canel fulltrúi forseta Kúbu, Raúls Castro. Árið 2018 steig Raúl Castro til hliðar úr forsetaembættinu en hélt valdameira embætti aðalritara kommúnistaflokksins og hæstráðanda kúbverska byltingarhersins.[14][15] Þann 18. apríl 2018 var Díaz-Canel valinn eftirmaður Castro sem forseti.[9] Þingið staðfesti útnefningu þann 10. apríl[9] og Díaz-Canel sór embættiseið sama dag.[16] Díaz-Canel er atvinnuembættismaður sem var lítt kunnur meðal kúbverskrar alþýðu áður en hann varð forseti. Eftirlitsmenn bjuggust við því að hann myndi reka varfærna umbótastefnu á kommúniskum efnahagsmálum forvera síns en viðhalda samfélagsskipan landsins.[15] Hann er fyrsti forseti landsins sem fæddur er eftir byltinguna 1959 og sá fyrsti frá 1976 sem ekki er úr Castro-fjölskyldunni.[10]

Aðeins tveimur dögum eftir embættistöku sína tók Díaz-Canel á móti Nicolás Maduro, forseta Venesúela, í heimsókn til Kúbu. Hann hitti Maduro aftur í maí 2018 í Karakas í fyrstu opinberu heimsókn sinni sem þjóðhöfðingi. Í nóvember árið 2018 fór Díaz-Canel í heimsóknir til allra bandamanna Kúbu í Evrópu og Asíu, þar á meðal Rússlandi, Norður-Kóreu, Kína, Víetnam og Laos. Hann kom jafnframt við í Bretlandi og Frakklandi og hitti breska og franska þingmenn. Í mars árið 2019 tók Díaz-Canel á móti Karli Bretaprinsi og Kamillu hertogaynju í Havana. Þau voru fyrsta breska kóngafólkið sem heimsótti Kúbu.[17]

Í október árið 2019 varð Díaz-Canel formlega „forseti Lýðveldisins Kúbu“. Embættið var endurstofnað í febrúar eftir stjórnarskrárbreytingar sem voru staðfestar í þjóðaratkvæðagreiðslu.[18] Þjóðhöfðingjaembættið hafði áður heitið forseti ríkisráðsins. Embætti forseta ríkisráðsins varð valdaminna og Esteban Lazo Hernández tók við því sem forseti þingsins. Umbætur Díaz-Canel hafa meðal annars takmarkað setu í forsetaembættinu við tvö fimm ára kjörtímabil í röð og bannað mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, kyngervis og fötlunar.[19][20][21]

Díaz-Canel tók við af Raúl Castro sem aðalritari kúbverska kommúnistaflokksins þann 19. apríl 2021. Það embætti er talið enn valdameira en forsetaembættið og því lauk valdfærslu frá Castro til Díaz-Canel að fullu með embættistökunni.[3]

Í júlí árið 2021 hófust fjöldamótmæli gegn stjórn Díaz-Canel sem eru talin þau fjölmennustu á Kúbu í marga áratugi. Kúbverjar hafa meðal annars mótmælt ólýðræðislegum stjórnarháttum, efnahagsóstjórn, rafmagnsleysi, vöru- og matarskorti og lélegum viðbrögðum stjórnvalda við Covid-19-faraldrinum.[22] Díaz-Canel hvatti lögreglumenn til að bregðast við mótmælunum af fullri hörku og sakaði Bandaríkin um að hrinda mótmælunum af stað.[23]

Neðanmálsgreinar

  1. Díaz-Canel var titlaður „forseti ríkisráðsins“ til 11. október 2019 en hefur verið titlaður „Forseti Lýðveldisins Kúbu“ eftir stjórnarskrárbreytingar sem tóku gildi þann dag.

Tilvísanir

  1. „Ratificado Raúl como presidente del Consejo de Estado y del Consejo de Ministros (+ Fotos)“. Cubadebate.
  2. „Miguel Diaz-Canel named Cuba's new president“. CNN. 20 apríl 2018. „Still, Castro made clear Díaz-Canel will ultimately succeed him as head of the Communist Party when he steps down from that post in 2021.“
  3. 3,0 3,1 Kjartan Kjartansson (19. apríl 2021). „Fyrsti leiðtogi kúbverska Kommúnistaflokksins utan Castro-ættarinnar“. Vísir. Sótt 19. apríl 2021.
  4. „Díaz-Canel no es un relevo histórico“. Martinoticias. 25 febrúar 2013. Sótt 10 janúar 2016.
  5. Ahmed, Azam; Robles, Frances (19 apríl 2018). „Who Is Miguel Díaz-Canel, Cuba's New President?“. The New York Times. Sótt 20 apríl 2018.
  6. Cuba ya tiene un nuevo presidente, de ascendencia asturiana - ileon
  7. De ruta por las raíces asturianas de Miguel Díaz-Canel - El Comercio
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 Damien Cave, Raúl Castro Says His Current Term as President of Cuba Will Be His Last, The New York Times, 24. febrúar 2013
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 Press, Associated (19 apríl 2018). „Miguel Díaz-Canel: Cuba selects first non-Castro president since Fidel“. The Guardian (enska). Sótt 19 apríl 2018.
  10. 10,0 10,1 Augustin, Ed (18 apríl 2018). „After six decades of Castro rule, Cubans greet end of era with a shrug“. The Guardian (enska). Sótt 19 apríl 2018.
  11. „En sustitución de Juan Vela es designado Miguel Díaz Canel ministro de Educación Superior“. cubaheadlines.com.
  12. Ryan Villarreal (26 febrúar 2013). „Sustaining The System: Cuba's New VP Diaz-Canel Marks Ascent Of Younger Generation“. International Business Times.
  13. „Nota oficial“. Diario Granma. 22. mars 2012. Sótt 31. mars 2019.
  14. „Raul Castro to lead Cuba's Communist Party until 2021“. FRANCE 24. 19 apríl 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 18 júlí 2018. Sótt 24. september 2020. „'I confirm to this assembly that Raul Castro, as first secretary of the Communist Party, will lead the decisions about the future of the country,' Diaz-Canel said.“
  15. 15,0 15,1 Andrés Oppenheimer (20 apríl 2018). „Cuba's new 'babysaur' to replace a dinosaur is no cause of celebration—it's shameful!“. Miami Herald. Sótt 23 apríl 2018.
  16. „Cuba's Raúl Castro hands over power to Miguel Díaz-Canel“. BBC News. 19 apríl 2018. Sótt 19 apríl 2018.
  17. „Charles and Camilla make history in Cuba“. 25. mars 2019 – gegnum www.bbc.com.
  18. Cuba’s Reformed Constitution, a Democratic and Participatory Process Havana Times, 23. júlí 2018
  19. Marc Frank (21 febrúar 2019). „Explainer: What is old and new in Cuba's proposed constitution“. Reuters. Sótt 24 febrúar 2019.
  20. „Cuba expands rights but rejects radical change in updated constitution“. UPI (enska). Sótt 2. mars 2019.
  21. Mega, Emiliano Rodríguez (8. mars 2019). „Cuba acknowledges climate change threats in its constitution“. Nature (enska). 567 (7747): 155. doi:10.1038/d41586-019-00760-3. PMID 30862928.
  22. „Kúbverjar mótmæla kommúnistastjórninni“. mbl.is. 12. júlí 2021. Sótt 14. júlí 2021.
  23. Sunna Ósk Logadóttir (13. júlí 2021). „„Frelsi!" – Fyrstu fjöldamótmælin á Kúbu í áratugi“. Kjarninn. Sótt 14. júlí 2021.


Fyrirrennari:
Raúl Castro
Forseti Kúbu
(19. apríl 2018 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti