Íbúar Venesúela eru um 29 milljónir og búa langflestir í borgum í norðurhluta landsins, þar af um þrjár milljónir í höfuðborginni, Caracas, sem er jafnframt stærsta borg landsins. Eftir að jarðolía fannst í landinu á fyrri hluta 20. aldar hefur Venesúela verið eitt mesta olíuútflutningsríki heims, en áður byggðist efnahagslíf landsins á kaffi- og kakóræktun. Lækkun olíuverðs á 9. áratugnum leiddi til skuldakreppu og langvinnrar efnahagskreppu þar sem hlutfall íbúa undir fátæktarmörkum náði 66% árið 1995 og verðbólga náði 100% árið 1996. Hækkun olíuverðs frá 2001 bætti um skeið hag landsins verulega og dró úr ójöfnuði og fátækt. Vöruskortur árið 2013 leiddi hins vegar til gengisfellingar og aukinnar verðbólgu. Frá árinu 2015 hafa um 4 milljónir flúið land vegna kreppunnar [1]
Heiti
Algengasta skýringin á heiti landsins er sú að Amerigo Vespucci, sem var siglingafræðingur í leiðangri Alonso de Ojeda 1499, hafi gefið landinu nafnið Veneziola eða „litlu Feneyjar“ út af stultuhúsum innfæddra við ströndina sem minntu hann á hús í Feneyjum. Nafnið hafi síðan orðið Venezuela á spænsku.
Einn áhafnarmeðlima leiðangursins, Martín Fernández de Enciso, gaf hins vegar þá skýringu á nafninu að innfæddir íbúar svæðisins hafi kallað sig Veneciuela. Það er því hugsanlegt að heiti landsins komi úr máli innfæddra.
Opinberlega hét ríkið Estado de Venezuela frá 1830 til 1856, República de Venezuela frá 1856 til 1864, Estados Unidos de Venezuela frá 1864 til 1953 og aftur República de Venezuela frá 1953 til 1999.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Venesúela skiptist í 23 fylki (estados) og eitt höfuðborgarumdæmi (distrito capital) sem nær yfir Caracas, auk alríkishéraða (dependencias federales). Sveitarfélög í Venesúela eru 335 talsins og skiptast í yfir 1000 sóknir. Árið 1969 var gefin út tilskipun um flokkun fylkjanna í níu héruð (regiones administrativas).
1Alríkisumdæmin eru ekki fylki heldur sérstakar stjórnsýslueiningar.
Umhverfi
Það eru um 105 verndarsvæði í Venesúela, sem þekja um 26% af yfirborði meginlands og sjávar.
Venesúelar á Íslandi
Útlendingastofnun veitti á sínum tíma Venesúelum alþjóðlega vernd á Íslandi og sóttu þá á um fjórða þúsund um slíka vernd. Sú ákvörðun var síðar afturkölluð.[heimild vantar]