Venesúela

Bólivarska lýð­veldið Ven­esúela
República Bolivariana de Venezuela
Fáni Venesúela Skjaldarmerki Venesúela
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Dios y Federación
(„Guð og bandalag“)
Þjóðsöngur:
Gloria al Bravo Pueblo
Staðsetning Venesúela
Höfuðborg Karakas
Opinbert tungumál spænska
Stjórnarfar Sambandslýðveldi

Forseti Nicolás Maduro
Sjálfstæði
 • frá Spáni 5. júlí 1811 
 • frá Stór-Kólumbíu 13. janúar 1830 
 • Viðurkennt 29. mars 1845 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
32. sæti
916.445 km²
3,2
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
44. sæti
28.887.118
34/km²
VLF (KMJ) áætl. 2017
 • Samtals 409.389 millj. dala (45. sæti)
 • Á mann 12.400 dalir (99. sæti)
VÞL (2018) 0.726 (96. sæti)
Gjaldmiðill bólívari (VES)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .ve
Landsnúmer +58

Venesúela (spænska: República Bolivariana de Venezuela) er land í norðurhluta Suður-Ameríku með strönd að Karíbahafi og Atlantshafi í norðri og landamæri að Gvæjana í austri, Brasilíu í suðri og Kólumbíu í vestri. Úti fyrir strönd Venesúela eru eyríkin Arúba, Hollensku Antillaeyjar og Trínidad og Tóbagó. Englafossar, hæsti foss heims, 979 metar að hæð, eru í Canaimaþjóðgarðinum í suðausturhluta Venesúela. Venesúela er eitt af þeim löndum heims þar sem líffræðileg fjölbreytni er talin mest. Landið nær frá Andesfjöllum í vestri að Amasónfrumskóginum í austri. Innan landamæra þess er stór hluti hitabeltisgresjunnar Los Llanos og það á auk þess strönd að Karíbahafi. Ósar Orinoco eru í austurhluta landsins.

Spánverjar stofnuðu nýlendu í Venesúela árið 1522, þrátt fyrir mótspyrnu frumbyggja. Árið 1811 lýsti nýlendan yfir sjálfstæði, fyrst allra spænskra nýlendna í Suður-Ameríku. Árið 1821 varð Venesúela hluti af sambandsríkinu Stór-Kólumbíu sem náði yfir norðvesturhluta Suður-Ameríku og syðsta hluta Mið-Ameríku. Árið 1830 gerðu íbúar uppreisn undir stjórn José Antonio Páez sem varð í kjölfarið fyrsti forseti Venesúela. Þrælahald var afnumið í landinu árið 1854 en saga þess á 19. öld einkenndist af pólitískum óstöðugleika og einræði. Lýðræði var komið á árið 1958 en efnahagsáföll á 9. og 10. áratug 20. aldar leiddu til Caracazo-uppþotanna og tveggja valdaránstilrauna árið 1992. Í forsetakosningum árið 1998 komst Hugo Chávez til valda og stjórnlagaþing Venesúela 1999 samdi nýja stjórnarskrá. Eftir lát Chávez árið 2013 hófust útbreidd mótmæli og uppþot andstæðinga stjórnarinnar.

Venesúela er sambandsríki þar sem forsetinn leiðir ríkisstjórn. Landið skiptist í 23 fylki, höfuðborgarumdæmi Venesúela og alríkissvæði (eyjarnar undan strönd landsins). Venesúela gerir auk þess formlegt tilkall til landsvæðis í Gvæjana vestan við ána Essequibo (Guayana Esequiba).

Íbúar Venesúela eru um 29 milljónir og búa langflestir í borgum í norðurhluta landsins, þar af um þrjár milljónir í höfuðborginni, Caracas, sem er jafnframt stærsta borg landsins. Eftir að jarðolía fannst í landinu á fyrri hluta 20. aldar hefur Venesúela verið eitt mesta olíuútflutningsríki heims, en áður byggðist efnahagslíf landsins á kaffi- og kakóræktun. Lækkun olíuverðs á 9. áratugnum leiddi til skuldakreppu og langvinnrar efnahagskreppu þar sem hlutfall íbúa undir fátæktarmörkum náði 66% árið 1995 og verðbólga náði 100% árið 1996. Hækkun olíuverðs frá 2001 bætti um skeið hag landsins verulega og dró úr ójöfnuði og fátækt. Vöruskortur árið 2013 leiddi hins vegar til gengisfellingar og aukinnar verðbólgu. Frá árinu 2015 hafa um 4 milljónir flúið land vegna kreppunnar [1]

Heiti

Algengasta skýringin á heiti landsins er sú að Amerigo Vespucci, sem var siglingafræðingur í leiðangri Alonso de Ojeda 1499, hafi gefið landinu nafnið Veneziola eða „litlu Feneyjar“ út af stultuhúsum innfæddra við ströndina sem minntu hann á hús í Feneyjum. Nafnið hafi síðan orðið Venezuela á spænsku.

Einn áhafnarmeðlima leiðangursins, Martín Fernández de Enciso, gaf hins vegar þá skýringu á nafninu að innfæddir íbúar svæðisins hafi kallað sig Veneciuela. Það er því hugsanlegt að heiti landsins komi úr máli innfæddra.

Opinberlega hét ríkið Estado de Venezuela frá 1830 til 1856, República de Venezuela frá 1856 til 1864, Estados Unidos de Venezuela frá 1864 til 1953 og aftur República de Venezuela frá 1953 til 1999.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Venesúela skiptist í 23 fylki (estados) og eitt höfuðborgarumdæmi (distrito capital) sem nær yfir Caracas, auk alríkishéraða (dependencias federales). Sveitarfélög í Venesúela eru 335 talsins og skiptast í yfir 1000 sóknir. Árið 1969 var gefin út tilskipun um flokkun fylkjanna í níu héruð (regiones administrativas).

Landinu er oft skipt í tíu landfræðileg héruð sem sum hver eru í samræmi við veðurfarsleg og líflandfræðileg svæði. Í norðri eru Andesfjöll Venesúela og Coro-svæðið, fjalllendi í norðvesturhlutanum. Austan við það eru láglend svæði umhverfis Maracaibo-vatn og Venesúelaflóa. Strandfjöll Venesúela eru fjallgarðar sem liggja meðfram ströndinni og ná yfir hæðirnar umhverfis Caracas og fylkin Sucre og Monagas. Eyjar Venesúela eru allar eyjarnar sem heyra undir landið í Karíbahafi, þar á meðal Nueva Esparta og alríkishéruðin. Árósar Órinókófljóts liggja að Atlantshafi í norðaustri.

Fylki Höfuðstaður Fylki Höfuðstaður
Amazonas Puerto Ayacucho Mérida Mérida
Anzoátegui Barcelona Miranda Los Teques
Apure San Fernando de Apure Monagas Maturín
Aragua Maracay Nueva Esparta La Asunción
Barinas Barinas Portugesa Guanare
Bolívar Ciudad Bolívar Sucre Cumaná
Carabobo Valencia Táchira San Cristóbal
Cojedes San Carlos Trujillo Trujillo
Delta Amacuro Tucupita Yaracuy San Felipe
Caracas Caracas Zulia Maracaibo
Falcón Coro Vargas La Guaira
Guárico San Juan de los Morros Alríkisumdæmi1 El Gran Roque
Lara Barquisimeto
1 Alríkisumdæmin eru ekki fylki heldur sérstakar stjórnsýslueiningar.

Umhverfi

Það eru um 105 verndarsvæði í Venesúela, sem þekja um 26% af yfirborði meginlands og sjávar.


Venesúelar á Íslandi

Útlendingastofnun veitti á sínum tíma Venesúelum alþjóðlega vernd á Íslandi og sóttu þá á um fjórða þúsund um slíka vernd. Sú ákvörðun var síðar afturkölluð.[heimild vantar]

Tilvísanir

  1. Venezuela crisis: Border with Colombia reopens after four months BBC, skoðað 8. júní 2019
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.