Sambandslýðveldi er sambandsríki þar sem stjórnarfarið er í formi lýðveldis.[1] Bókstafleg grunnmerking hugtaksins lýðveldis á við ríki sem stýrt er af kjörnum fulltrúum og kjörnum þjóðhöfðingja (til dæmis forseta) fremur en af konungi eða drottningu.
Í sambandslýðveldi er ríkisvaldinu dreift milli alríkisstjórnarinnar og ríkisstjórna sambandslandanna. Sérhvert sambandslýðveldi hagar valddreifingunni á sinn hátt en yfirleitt eru sameiginleg málefni á borð við öryggis- og varnarmál og peningastefnu í verkahring alríkisins. Stjórnir sambandslandanna og sveitarfélaganna sjá gjarnan um málefni á borð við viðhald innviða og menntastefnu. Skiptar skoðanir eru þó um það hvaða málefni ættu að lúta stjórn alríkisstjórna og sambandslönd hafa yfirleitt nokkra stjórn í málefnum sem ekki lúta lögsögu alríkisins. Andstæðan við sambandslýðveldi er því einingarlýðveldi þar sem ríkisstjórn alls landsins nýtur fullveldis í öllum pólitískum málefnum. Ómiðstýrðara stjórnarfar sambandslýðvelda er algengt í fjölmennum ríkjum.[2] Í flestum sambandslýðveldum er skipting ríkisvaldsins milli stjórna alríkis og sambandsríkjanna formfest í ritaðri stjórnarskrá.
Pólitískur munur á sambandslýðveldum og öðrum sambandsríkjum, sér í lagi konungsríkjum sem lúta sambandsstjórn, felst gjarnan í lagabókstaf fremur en í verulegum stjórnarfarslegum mun þar sem flest sambandsríki lúta lýðræðislegu stjórnarfari, að minnsta kosti að nafninu til. Sumar sambandsstjórnir í einveldisríkjum, til dæmis Sameinuðu arabísku furstadæmin, byggjast þó ekki á lýðræðislegu stjórnarfari.