Stjórnarskrá

Stjórnarskrá Bandaríkjanna er líklega þekktasta dæmi um stjórnarskrá.

Stjórnarskrá er heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkis. Stjórnarskrá getur verið í formi eins ákveðins skjals eða hún getur verið dreifð í mörgum rituðum textum, hún getur einnig verið óskrifuð að miklu eða öllu leyti, til dæmis geta hefðir og venjur haft stjórnskipulegt gildi og þannig verið hluti af stjórnarskránni.

Það nefnist stjórnarskrárbrot ef hún er brotin eða lög sett sem stangast á við hana. Í sumum löndum, t.d. í Frakklandi er sérstakur stjórnarskrárdómstóll sem sker úr því hvort svo sé. Annars staðar eins og í Bandaríkjunum geta allir dómstólar dæmt mál eftir stjórnarskránni en oftast lendir það í hlut Hæstarétts Bandaríkjanna.

Stjórnarskrá í einu skjali

Algengasta notkun orðsins stjórnarskrá lýsir einu afmörkuðu skjali þar sem stjórnskipan ríkisins er ákvörðuð með lagagreinum. Í slíkum stjórnarskrám er farið yfir það hverjir setja lög, skiptingu valds á milli stofnanna og takmarkanir valds. Þar eru einnig oft ákvæði um borgaraleg réttindi s.s. jafnræði, tjáningarfrelsi, trúfrelsi, ferðafrelsi, félagafrelsi o.fl. Stjórnarskráin er álitin vera æðstu lög ríkisins sem öll önnur lög verða að taka mið af.

Þar sem stjórnarskrár eru taldar mikilvægari en almenn lög er yfirleitt leitast við að gera breytingar á þeim erfiðari en á almennum lögum og er það gert með ýmsum hætti. Stundum þarf aukinn meirihluta á löggjafarþingi til þess að samþykkja breytinguna. Í sumum ríkjum þarf að halda nýjar þingkosningar sem þarf svo að staðfesta breytingarnar. Í sambandsríkjum getur þurft ákveðinn fjölda aðildarríkjanna að leggja blessun sína yfir breytinguna. Í Þýskalandi eru breytingar á hluta stjórnarskrárinnar óheimilar með öllu.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1787 var með fyrstu stjórnarskránna á þessu formi og sú elsta sem er enn í gildi. Flest ríki hafa í dag stjórnarskrá á þessu formi. Kostur slíkra stjórnarskrárskjala er álitinn vera auðveldara aðgengi hins almenna borgara að stjórnarskránni þar sem reglurnar eru samankomnar á einum stað og þurfa oftast ekki mikillar túlkunar við.

Stjórnarskrá Íslands var samþykkt sem lög við lýðveldisstofnunina, 17. júní 1944.

Dreifð stjórnarskrá

Í ríkjum sem hafa dreifða stjórnarskrá er ekkert eitt skjal sem hægt er að kalla stjórnarskrá heldur er stjórnskipunin byggð á reglum úr ýmsum áttum, bæði skrifuðum reglum sem og óskrifuðum. Þessi hefð hefur skapast í Bretlandi og þar og í nokkrum löndum sem eru fyrrverandi breskar nýlendur er þessi hátturinn hafður á. Óskrifaðar reglur í þessu samhengi eru til dæmis venjur, hefðir og fordæmi. Skrifaðar reglur er hinsvegar að finna í ýmsum skjölum, í Bretlandi eru það aðallega ýmsir lagabálkar frá þinginu sem eru álitnir mikilvægari en aðrir, til dæmis þeir sem veita þegnunum ákveðin réttindi. Einstakir fornir textar frá því áður en þingið varð til eru einnig taldir hafa stjórnskipulegt gildi, t.d. Magna Carta. Það ber þó að hafa í huga að á Bretlandi er þingræði grundvallarregla og er þinginu engin takmörk sett í löggjafarvaldi sínu. Það þýðir að öllum lagabálkum er hægt að breyta með sama hætti, hvort sem um er að ræða lög sem talin eru hafa stjórnskipunarlegt gildi eður ei.

Tenglar