Heitið Súdan á við um landsvæðið sunnan Sahara, sem nær frá Vestur-Afríku til austurhluta Mið-Afríku. Nafnið kemur úr arabísku, بلاد السودا bilād as-sūdān sem merkir „land hinna svörtu“.[19]
Landfræði
Suður-Súdan er á milli 3. og 13. breiddargráðu norður og 24. og 36. lengdargráðu austur. Landið er þakið regnskógum, fenjum og gresjum. Hvíta Níl rennur um landið og framhjá höfuðborginni Júba.[20]
Skógar Suður-Súdans mynda líka skjól fyrir sítahafur, risaskógarsvín, runnasvín, skógarfíla, simpansa og skógarapa. Kannanir sem Wildlife Conservation Society gerðu árið 2005 í samstarfi við þáverandi heimastjórn Suður-Súdans leiddu í ljós að þar voru enn stórir stofnar, þótt þeir færu minnkandi, og að hinir miklu búferlaflutningar 1,3 milljóna antilópa voru enn til staðar.
Í Suður-Súdan er að finna fjölbreytt búsvæði eins og gresjur, hálendissléttur og klettabelti, skógi og kjarri vaxnar staktrjásléttur og votlendi. Meðal dýra sem lifa þar eru hvíteyra mýraantilópan og súdansgeit, auk fíla, gíraffa, elandantilópa, risaelanda, óryxa, ljóna, afrískra villihunda, höfðabuffla og mýrahorna. Lítið er vitað um afdrif hvíteyra mýraantilópunnar og mýrahorna, en búferlaflutningar þeirra voru sögufrægir fyrir borgarastríðið. Boma-Jonglei-héraðið nær yfir Boma-þjóðgarðinn, graslendi og flóðsléttur, Bandingilo-þjóðgarðinn og Suddfenin, stórt fenjasvæði og gresjur sem flæðir yfir árstíðabundið og inniheldur líka Zeraf-friðlandið.
Lítið er vitað um sveppi í Suður-Súdan. S. A. J. Tarr gerði lista yfir sveppi í Súdan og gaf út hjá Sveppafræðistofnun Breska samveldisins árið 1955. Á listanum eru 383 tegundir í 175 ættkvíslum, sem voru allir sveppir sem fundust innan landamæra landsins. Margar af þeim færslum eiga við um Suður-Súdan. Flestar tegundirnar tengdust sýkingum í ræktuðum jurtategundum. Líklega er fjöldi sveppa í Suður-Súdan mun meiri.
Árið 2006 tilkynnti Kiir forseti að ríkisstjórn hans myndi gera allt sem hægt væri til að vernda og auka dýra- og plöntulíf landsins, og reyna að draga úr áhrifum skógarelda, sorps og vatnsmengunar. Uppbygging efnahagslífs og innviða ógnar lífríkinu. Landið var með meðaleinkunnina 9,45/10 í vísitölunni Forest Landscape Integrity Index og var þar í 4. sæti af 172 löndum.[21]
↑International Association for the History of Religions (1959), Numen, Leiden: EJ Brill, bls. 131, „West Africa may be taken as the country stretching from Senegal in the West to the Cameroons in the East; sometimes it has been called the central and western Sudan, the Bilad as-Sūdan, 'Land of the Blacks', of the Arabs“