Áður hét Lesótó Basútóland og var undir stjórn Breta. Þegar Suður-Afríkusambandið varð til 1910 hófst vinna við að sameina Basútóland sambandinu. Íbúarnir voru hins vegar mótfallnir sameiningu og þegar kynþáttaaðskilnaður var lögleiddur í Suður-Afríku, stöðvaðist sameiningarferlið alveg. Landið var svo nefnt Lesótó þegar það fékk fullt sjálfstæði frá Bretum 4. október1966.
Landfræði
Lesótó er 30.355 km2 að stærð. Það er eina sjálfstæða ríki heims sem er allt í yfir 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Lægsti punktur landsins er í 1.400 metra hæð og er því hæsti lægsti punktur allra landa heims. Yfir 80% landsins eru í yfir 1.800 metra hæð. Lesótó er líka syðsta landlukta land heims og er alfarið innan Suður-Afríku. Það er milli 28. og 31. breiddargráðu suður og 27. og 30. lengdargráðu austur. Um 12% landsins er ræktarland, en það er í hættu vegna landfoks. Talið er að 40 milljón tonn af jarðvegi tapist árlega vegna jarðvegsrofs.[1]
Í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstæði dómstóla. Dómstólakerfið er myndað af hæstarétti, áfrýjunarrétti, dómstólum og hefðbundnum dómstólum, aðallega í dreifbýli. Allir dómarar í áfrýjunardómsólnum nema einn eru suðurafrískir lögmenn. Dómarar kveða upp dóma án kviðdóma, ýmist einir eða með tvo áheyrnardómara sér til aðstoðar.
Árið 2010 kallaði stjórnmálahreyfingin People's Charter Movement eftir því að Lesótó gerðist hluti af Suður-Afríku vegna alnæmisfaraldurs í landinu. Næstum fjórðungur landsmanna er með HIV.[3] Landið hefur líka þurft að takast á við útbreitt atvinnuleysi, efnahagshrun, veikan gjaldmiðil og takmarkaðar ferðaheimildir. Afríkusambandið kallaði í ályktun eftir nánari efnahagslegum samruna Lesótó og Suður-Afríku en gekk ekki svo langt að stinga upp á sameiningu landanna.
Stjórnsýslueiningar
Lesótó skiptist í tíu stjórnsýsluumdæmi sem hvert hefur sinn umdæmisstjóra og sinn höfuðstað.
↑„HIV/AIDS in Lesotho“. HelpLesotho.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2014. „Lesotho has the second-highest HIV prevalence rate in the world – more than 23 percent of people, or just under one in four people in the country are living with HIV.“