Kviðdómur

Kviðdómsbekkir í réttarsal í Nevada.

Kviðdómur er hópur fólks valinn af handahófi til að greiða úr ágreiningi í dómsmáli. Kviðdómar urðu til í Englandi á miðöldum en notkun þeirra einkennir enska fordæmisréttarkerfið sem dreifðist síðan til Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og fleiri landa.

Kviðdómar eru yfirleitt skipaðir tólf einstaklingum, en í vissum málum geta kviðdómarar verið fleiri. Slíkir stórir kviðdómar eru ekki notaðir lengur nema í Bandaríkjunum og Líberíu.

Hlutverk

Hlutverk kviðdóms er að velta fyrir sér sönnunargögnum sem sett eru fram af stefnanda og verjanda. Eftir að hafa skoðað sönnunargögnin og tilskipanir frá dómaranum kemur kviðdómurinn saman til að íhuga málið og skera úr því.

Meirihlutinn sem krefst til að skila dómi er misjafn. Í sumum tilfellum þarf álit kviðdóms að vera einróma, en í öðrum tilfellum þarf eingöngu einfaldan eða aukinn meirihluta. Upp getur komið að kviðdómur sé klofinn en þá er enginn meirihluti. Fjöldi kviðdómara er breytilegur en í alvarlegum sakamálum eru þeir oftast tólf. Í einkamálum geta kviðdómarar verið færri en tólf.

Skipun

Einstaklingum sem eru kallaðir til kviðdóms er oftast skylt með lögum til að sitja í honum. Kviðdómarar eiga að vera hlutlausir í málinu. Gerðar eru kröfur um að kviðdómarar séu ekki háðir eða tengdir stefnanda eða verjanda. Kviðdómarar eru valdir af handahófi úr hópi hæfra fullorðinna einstaklinga. Oft er tekið viðtal við mögulega kviðdómara til að kanna hvort þeir séu hlutlausir eða óhæfir til að sitja í kviðdómi.

Í kviðdómi situr formaður, sem er ýmist skipað af dómaranum eða kosinn af hinum kviðdómurunum. Hlutverk hans er meðal annars að leggja spurningar fyrir dómarann af hálfu kviðdómsins, að miðla umræðum milli kviðdómara og að skila áliti þeirra að málinu loknu.

Þar sem upp getur komið að tilteknir kviðdómarar séu óhæfir vegna t.d. lélegs heilsufars eru nokkrir staðgenglar einnig valdir.

Störf

Strangar reglur gilda um störf kviðdóms til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu almennilega. Kviðdómarar mega ekki leita upplýsinga um málið frá öðrum heimildum en yfirheyrslunni (t.d. í fréttum eða á netinu) og mega ekki fara í eigin rannsókn (t.d. með því að fara á vettvang). Kviðdómarar mega ekki hafa samráð við aðila að málinu svo sem lögfræðinga. Í ákveðnum tilvikum getur kviðdómurinn verið settur í einangrun til að vernda störf hans.

Kviðdómurum er í flestum tilfellum skylt að fara með allar umræður sín á milli sem trúnaðarmál. Þessi skylda getur varað lengi eftir að dómsmálinu er lokið og sé hún ekki virt getur það verið refsivert.

Það er talið alvarlegt lögbrot að reyna að hafa áhrif á kviðdóm með mútum eða hótunum. Kviðdómari kann einnig að sæta refsingu ef hann spillir eigin hlutleysi viljandi.

Heimildir