Samóa

Sjálf­stæða ríkið Samóa
Malo Sa'oloto Tuto'atasi o Samoa
Independent State of Samoa
Fáni Samóa Skjaldarmerki Samóa
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Faavae i le Atua Samoa (samóska)
Samóa er grundvallað á guði
Þjóðsöngur:
O Le Fuʻa O Le Saʻolotoga O Samoa
Staðsetning Samóa
Höfuðborg Apía
Opinbert tungumál samóska og enska
Stjórnarfar Lýðræði

O le Ao o le Malo Va'aletoa Sualauvi 2.
Forsætisráðherra Naomi Mata'afa
Sjálfstæði
 • frá Nýja-Sjálandi 1. janúar 1962 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
167. sæti
2.842 km²
0,3
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
176. sæti
202.506
70/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 1,188 millj. dala (178. sæti)
 • Á mann 5.962 dalir (129. sæti)
VÞL (2019) 0.715 (111. sæti)
Gjaldmiðill samósk tala (WST)
Tímabelti UTC+13
Þjóðarlén .ws
Landsnúmer +685

Samóa eða Samóaeyjar (áður Vestur-Samóa) er eyríki og eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi. Áður var ríkið þekkt sem Þýska Samóa frá 1900 til 1914 og síðan Vestur-Samóa frá 1914 til 1997. Í eyjaklasanum eru tvær stórar eyjar, Upolu og Savai'i, sem saman mynda 96% af flatarmáli eyjanna, og sjö smáeyjar. Höfuðborgin Apía og Faleolo-flugvöllur eru á eyjunni Upolu.

Elstu merki um menn sem fundist hafa á eyjunum eru taldar vera frá því fyrir um 3000 árum. Menningartengsl voru milli Samóa, Fídjieyja og Tonga. Fyrstu Evrópumennirnir komu til eyjanna á 18. öld. Franski landkönnuðurinn Louis-Antoine de Bougainville nefndi eyjarnar Stýrimannseyjar árið 1768 vegna siglingafærni íbúanna. Það var þó ekki fyrr en á 4. áratug 19. aldarenskir trúboðar tóku að gera sig heimakomna á eyjunum. Skoski rithöfundurinn Robert Louis Stevenson bjó þar síðustu árin sem hann lifði og er grafinn þar. Rétt áður hófu Þjóðverjar verslun þar með kopra og kakóbaunir. Þegar Fyrsta samóska borgarastyrjöldin braust út 1886 studdu Þjóðverjar, Bretar og Bandaríkjamenn hverjir sína fylkinguna. Eftir að fellibylur sökkti öllum herskipum landanna við Samóa árið 1889 hættu bardagar. Á ráðstefnu um Samóadeiluna árið 1899 tóku Bandaríkin sér yfirráð yfir Tutuila og öðrum eyjum austan við 171. lengdargráðu, sem urðu Bandaríska Samóa, en eyjarnar vestan við urðu þýskt yfirráðasvæði, Þýska Samóa. Bretland gaf eftir allar kröfur sínar til eyjaklasans í skiptum fyrir aukin yfirráð annars staðar í Kyrrahafi. Íbúar hófu fljótlega andspyrnu gegn yfirráðum Þjóðverja og í upphafi fyrri heimsstyrjaldar hernámu Nýsjálendingar eyjarnar. Íbúar börðust líka gegn yfirráðum Nýja-Sjálands og ellefu létust þegar nýsjálenska lögreglan skaut á friðsama mótmælendur árið 1929. Samóa varð sjálfstætt ríki undir nafninu Vestur-Samóa árið 1962 en breytti nafninu árið 1997 í Samóa. Árið 2011 var ákveðið að flytja Samóa yfir daglínuna með því að fella 30. desember það ár niður. Þannig varð Samóa þremur tímum á undan Nýja-Sjálandi en var áður 21 tíma á eftir.

Íbúar Samóa eru tæplega 200 þúsund og þar af búa rúm 130 þúsund á Upolu. Á þingi Samóa sitja 49 fulltrúar, þar af 47 höfðingjar (matai), hver frá sínu umdæmi. Efnahagur Samóa byggist á landbúnaði (aðallega ræktun kókospálma og kakóbauna), þróunaraðstoð og peningasendingum brottfluttra íbúa. Helstu viðskiptalönd Samóa eru Nýja-Sjáland, Ástralía og Fídjieyjar. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein.

Landfræði

Samóa liggur sunnan við miðbaug, um það bil miðja vegu milli Hawaii og Nýja-Sjálands, í þeim hluta Kyrrahafs sem nefndur er Pólýnesía. Eyjarnar tvær, Upolu og Savai'i, auk átta smáeyja, eru samanlagt 2.842 km² að stærð.

Smáeyjarnar skiptast í þrjá eyjaklasa:[1]

Um þrír fjórðu hlutar íbúa búa á eyjunni Upolu, og þar er höfuðborg Samóa, Apia.

Eyjarnar urðu til við eldgos á Samóska heita reitnum sem líklega stafar af möttulstrók.[2][3] Þótt allar eyjarnar hafi þannig orðið til við eldsumbrot, er aðeins virk eldstöð á einni þeirra, Savai'i. Síðustu eldgos þar voru í Matavanu-fjalli (1905-1911), Mata o le Afi (1902) og Mauga Afi (1725). Á miðri norðurströnd Savai'i er 50 km² hraunbreiða, Saleaula, sem varð til við síðasta eldgos í Matavanu. Hæsta fjall Samóa er Silisili, 1858 metrar á hæð, á Savai'i.

Savai'i er stærst Samóaeyja og sjötta stærsta eyja Pólýnesíu (á eftir Norðurey og Suðurey á Nýja-Sjálandi, Stewart-eyju og havaísku eyjunum Hawai'i og Maui). Á Savai'i búa rúmlega 40.000 manns.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Samóa skiptist í ellefu pólitísk umdæmi sem nefnast itūmālō. Þetta eru hefðbundin ellefu umdæmi frá því fyrir komu Evrópumanna. Hvert umdæmi hefur sín eigin grunnlög (fa'avae) sem byggjast á hefðbundinni tignarröð ávarpa (faalupega).[4] Höfuðþorp hvers umdæmis fer með stjórn umdæmisins og skipar í æðsta embætti þess, meðal annars.

Dæmi:

Höfuðþorp A'ana er Leulumoega. Æðsti 'tama-a-'aiga' (konungs-) titill A'ana er Tuimalealiifano. Æðsti pāpā-titill A'ana er Tui A'ana. Hópur ráðsmanna sem veitir þennan titil nefnist Faleiva (nímenningaráðið) og er í Leulumoega.

Höfuðþorp Ātua er Lufilufi. Æðstu 'tama-a-'aiga'-titlar A'ana eru Tupua Tamasese (í Falefa og Salani) og Mata'afa (í Amaile og Lotofaga). Tvær aðalættirnar sem veita þessa titla eru 'Aiga Sā Fenunuivao og 'Aiga Sā Levālasi. Æðsti pāpā-titill Ātua er Tui Ātua. Ráðsmannahópurinn sem veitir þennan titil nefnist Faleono (sexmenningaráðið) og er í Lufilufi.

Höfuðþorp Tuamasaga er Afega. Æðsti 'tama-a-'aiga'-titill Tuamasaga er Malietoa frá Malie. Helsta valdaættin sem veitir Malietoa-titilinn er 'Aiga Sā Malietoa, og Auimatagi er talsmaður ættarinnar. Æðstu pāpā-titlar Tuamasaga eru Gatoaitele (veittur af Afega) og Vaetamasoalii (veittur af Safata).[5]

Þessi ellefu itūmālō eru:

Stjórnsýsluumdæmi Samóa

Á Upolu

1. Tuamasaga (Afega)1
2. A'ana (Leulumoega)
3. Aiga-i-le-Tai (Mulifanua)2
4. Atua (Lufilufi)3
5. Va'a-o-Fonoti (Samamea)

Á Savai'i

6. Fa'asaleleaga (Safotulafai)
7. Gaga'emauga (Saleaula)4
8. Gaga'ifomauga (Safotu)
9. Vaisigano (Asau)
10. Satupa'itea (Satupa'itea)
11. Palauli (Vailoa)

1 ásamt faipule-umdæminu Siumu
2 ásamt eyjunum Manono, Apolima og Nu'ulopa
3 ásamt Aleipata-eyjum og Nu'usafe'e
4 litlir hlutar líka á Upolu (Salamumu, þ.á.m. þorpin Salamumu-Uta og Leauvaa)

Efnahagslíf

Tarórót var áður helsta útflutningsvara Samóa. Rótarmygla eyðilagði plönturnar 1995 og á hverju ári frá 1994 hefur hlutur tarós í útflutningstekjum minnkað um 1%.

Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint Samóa sem þróunarland frá 2014.[6] Árið 2017 var verg landsframleiðsla með kaupmáttarjöfnuði 1,13 milljarðar dala. Þriðji geirinn stóð fyrir 66% af landsframleiðslu, en þar á eftir komu iðnaður, með 23,6%, og landbúnaður, með 10,4%.[7] Sama ár var talið að fjöldi á vinnumarkaði á Samóa væri 50.700.[7]

Seðlabanki Samóa gefur út gjaldmiðil landsins, samósku töluna.[8] Efnahagslíf Samóa hefur byggst á landbúnaði og fiskveiðum. Síðustu ár hafa þróunaraðstoð, peningasendingar fjölskyldumeðlima erlendis og útflutningur landbúnaðarafurða orðið lykilþættir í efnahagslífi landsins. Tveir þriðju vinnuaflsins starfa í landbúnaði sem skapar 90% af útflutningsvörum, helst kókosmjólk, kókosolíu, noni (safa af nonuávexti) og kopra.[9]

Sextíu prósent af raforku á Samóa kemur úr endurnýjanlegum vatnsaflsvirkjunum, sólarorku- og vindorkuverum, en afgangurinn frá díselknúnum rafstöðvum. Rafmagnsveita Samóa setti sér það markmið að ná 100% af sinni orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir 2021.[10]

Tilvísanir

  1. „Samoa an Overview“. Salesian Bulletin. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. nóvember 2007.
  2. Koppers, Anthony A.P. (Júní 2008). „Samoa reinstated as a primary hotspot trail“. Geology. 36 (6): 435–438. Bibcode:2008Geo....36..435K. doi:10.1130/G24630A.1.
  3. „GSA Press Release – GEOLOGY/GSA Today Media Highlights“. Geosociety.org. 27. maí 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 júní 2010. Sótt 30. júní 2010.
  4. „About Samoa“. Government of Samoa. Sótt 30. desember 2017.
  5. Stevenson, Robert Louis (1892). A Footnote to History: Eight Years of Trouble in Samoa at Gutenberg. ISBN 978-1847187598
  6. „Samoa graduates from the LDC category“. United Nations Committee for Development Policy. 8. janúar 2014. Sótt 11. mars 2018.
  7. 7,0 7,1 „Samoa“. CIA World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 11. mars 2018.
  8. „Introduction“. Central Bank of Samoa website. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. desember 2010. Sótt 4. janúar 2022.
  9. „Samoa“. CIA – The World Factbook. 26. október 2021.
  10. „Samoa making progress on renewable energy goal“. Radio New Zealand (New Zealand English). 24. maí 2018. Sótt 31. júlí 2018.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.