Máritíus

Republic of Mauritius
République de Maurice
Repiblik Moris
Fáni Máritíus Skjaldarmerki Máritíus
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Stella Clavisque Maris Indici
(latína: Stjarna og lykill Indlandshafs)
Þjóðsöngur:
Motherland
Staðsetning Máritíus
Höfuðborg Port Louis
Opinbert tungumál ekkert (máritíska, enska og franska í reynd)
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Prithvirajsing Roopun
Forsætisráðherra Pravind Jugnauth
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 12. mars, 1968 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
179. sæti
2.040 km²
0.07
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
158. sæti
1.265.475
618/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 31,705 millj. dala (133. sæti)
 • Á mann 25.029 dalir (61. sæti)
VÞL (2018) 0.796 (66. sæti)
Gjaldmiðill márítísk rúpía (MUR)
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .mu
Landsnúmer +230

Máritíus er eyríki á Indlandshafi, um 900 km austur af Madagaskar og um 2.000 km austan við meginland Afríku. Auk Máritíus eru eyjarnar Saint Brandon, Rodrigues og Agalegaeyjar hluti ríkisins. Máritíus er hluti af Mascarenhas-eyjaklasanum ásamt frönsku eyjunni Réunion, sem liggur 200 km í suðvestur. Höfuðborg Máritíus og stærsta borg landsins er Port Louis á eyjunni Máritíus, þar sem flestir íbúanna búa. Eyjarnar ná samanlagt yfir 2.040 ferkílómetra, en landhelgin nær yfir 2,3 milljónir ferkílómetra.

Arabar hafa líklega uppgötvað Máritíus fyrstir um 975 og nefnt hana Dine Arabi. Þegar Portúgalar uppgötvuðu eyjarnar árið 1507 voru þær óbyggðar. Hollendingar gerðu tilkall til Máritíus 1598 og stofnuðu þar nýlendu árið 1638. Þeir nefndu eyjuna eftir þjóðhöfðingja sínum Maurits van Oranje, en hurfu þaðan árið 1710. Fimm árum síðar stofnuðu Frakkar nýlendu á eyjunni og nefndu hana Isle de France. Í Napóleonsstyrjöldunum hertóku Bretar eyjuna og Frakkar gáfu hana formlega eftir fjórum árum síðar. Yfirráð yfir eyjunni Tromelin eru enn umdeild þar sem hún var ekki nefnd í friðarsáttmálanum. Breska nýlendan Máritíus náði yfir Rodrigues, Agalega, St. Brandon, Tromelin og Chagos-eyjar, auk Seychelles-eyja til 1906. Efnahagur Máritíus byggðist aðallega á plantekruræktun meðan landið var undir breskri stjórn til 1968. Máritíus er núna lýðveldi innan Breska samveldisins.

Árið 1965, þremur árum áður en Máritíus fékk sjálfstæði, voru Chagos-eyjar aðskildar frá nýlendunni, um leið og eyjarnar Aldabra, Farquhar og Desroches voru aðskildar frá Seychelles-eyjum. Þessar eyjar mynduðu Breska Indlandshafsumdæmið.[1] Íbúar Chagos-eyja voru reknir frá eyjunum og stærsta eyjan, Diego Garcia, leigð út til Bandaríkjahers. Bretar hafa takmarkað umferð til eyjanna.[2] Máritíus gerir tilkall til Chagos-eyjaklasans sem er 1.287 kílómetra norðaustur af eyjunum. Í febrúar 2019 gaf Alþjóðadómstóllinn út ráðgefandi álit varðandi það að Bretland skilaði Máritíus Chagos-eyjum eins hratt og auðið væri til að eyjarnar fengju fullt sjálfstæði.

Vegna staðsetningar og sögu Máritíus eru íbúar eyjanna af fjölbreyttum uppruna og flestir tala mörg tungumál. Máritíus er eina Afríkuríkið þar sem hindúatrú er algengustu trúarbrögðin. Ekkert opinbert tungumál er á Máritíus en algengustu málin sem eru töluð eru máritíska (kreólamál), enska og franska. Stjórnarfar á eyjunum byggist á Westminster-kerfinu. Máritíus situr hátt á listum yfir lýðræði, frelsi og athafnafrelsi. Samkvæmt Heimsbankanum er Máritíus flokkað sem hátekjuland og eitt af þróuðustu hagkerfum Afríku. Máritíus er velferðarríki þar sem ríkið sér íbúum fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu, menntun, og almenningssamgöngum fyrir námsmenn, aldraða og fatlaða. Máritíus er friðsælasta Afríkuríkið samkvæmt Friðarvísitölunni 2019.[3]

Ásamt öðrum eyjum Mascarenhas-eyjaklasans eru eyjarnar þekktar fyrir fjölbreytt og sérstætt lífríki þar sem lifa margar einlendar tegundir. Máritíus er þekkt sem fyrrum heimkynni dúdúfuglsins sem varð aldauða þar eftir miðja 17. öld.

Heiti

Elsta heimildin um eyjuna Máritíus er á landakorti eftir ítalska kortagerðarmanninn Alberto Cantino frá 1502.[4][5] Þar virðist eyjan heita Dina Arobi, sem líklega er heitið sem Portúgalar hafa heyrt frá öðrum sjómönnum. Árið 1507 komu Portúgalar til eyjunnar sem þá var óbyggð. Hún kemur fyrir á portúgölsku korti sem Cirne, sem líklega er dregið af nafni skips úr leiðangrinum. Annar portúgalskur sjómaður, Pedro Mascarenhas, gaf eyjaklasanum nafnið Mascarenhas-eyjar.

Árið 1598 tók hollenskur floti, undir stjórn Wybrand van Warwyck, land við Grand Port og nefndi eyjuna Máritíus, til heiðurs Mórits af Nassá, sem þá var landstjóri Hollands. Síðar var frönsk nýlenda stofnuð á eyjunni sem þá var nefnd Idle de France. Þann 3. desember 1810 gáfu Frakkar Bretum eyjuna eftir í Napóleonsstyrjöldunum. Bretar nefndu eyjuna aftur Máritíus. Eyjan er líka þekkt sem Maurice og Île Maurice á frönsku, og Moris á máritísku.[6]

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Stjórnsýslueiningin Úteyjar Máritíus nær yfir eyjuna Máritíus og nokkrar eyjar og rif í Indlandshafi. Máritíus nær yfir sjálfstjórnarhéraðið Rodrigues og umdæmin Agaléga og Saint Brandon. Máritíus gerir auk þess tilkall til Chagos-eyja (undir yfirráðum Breta) og Tromelin (undir yfirráðum Frakka).

Umdæmi á Máritíus.

Eyjan Máritíus skiptist í níu umdæmi:

Umdæmi Stærð km2[7] Íbúar
(31. desember 2012)[7]
Flacq 297.9 141.586
Grand Port 260,3 116.211
Moka 230,5 81.820
Pamplemousses 178,7 140.511
Plaines Wilhems 203,3 387.372
Port Louis 42,7 127.454
Rivière du Rempart 147,6 110.235
Rivière Noire 259 79.247
Savanne 244,8 70.575
 Alls 1864,8 1.255.011

Efnahagslíf

Frá því landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1968 hefur Máritíus þróast frá því að vera lágtekjuland sem byggði efnahag sinn aðallega á landbúnaði, í að vera hátekjuland með fjölbreytt efnahagslíf sem byggist á ferðaþjónustu, textílframleiðslu, sykurframleiðslu og fjármálaþjónustu. Þessar breytingar hafa verið kallaðar „máritíska kraftaverkið“.[8]

Á síðari árum hafa nýir geirar farið vaxandi og laðað að fjárfestingu innanlands og erlendis frá, eins og upplýsingatækni, sjávarfang, þróun gistingar, heilsugeirinn, endurnýjanleg orka og menntun og starfsþjálfun.[9]

Máritíus býr ekki yfir nýtilegum birgðum jarðefnaeldsneytis og reiðir sig á innflutning eldsneytis. Innlendar orkulindir eru lífmassi, vatnsorka, sólarorka og vindorka.[10] Landið er í 8. sæti á GeGaLo-vísitölunni yfir lönd eftir mögulegum gróða/tapi við orkuskipti og gæti því grætt einna mest á orkuskiptum (Ísland er þar í 1. sæti).[11]

Landhelgi Máritíus er hlutfallslega með þeim stærstu í heimi og árið 2012 tilkynnti ríkisstjórnin fyrirætlanir sínar um þróun sjávarútvegs.[12]

Máritíus situr hátt á listum yfir lönd eftir samkeppnishæfni vegna vinsamlegs fjárfestingarumhverfis, góðra stjórnhátta og viðskiptafrelsis.[13][14][15] Verg landsframleiðsla með kaupmáttarjöfnuði var áætluð 29,187 milljarðar bandaríkjadala árið 2018. Deilt á mann var verg landsframleiðsla yfir 22.909 bandaríkjadalir sem er sú önnur hæsta í Afríku.[13][14][15]

Máritíus er hátekjuland samkvæmt Heimsbankanum árið 2019.[16] Landið er í 13. sæti á Ease of Doing Business-vísitölunni. Samkvæmt utanríkisráðuneyti Máritíus eru helstu áskoranir landsins mikið vægi fárra iðngreina, mikill atgervisflótti, skortur á sérhæfðu vinnuafli, hækkandi meðalaldur og skortur á skilvirkni opinberra stofnana.[17]

Menntun

Menntakerfi Máritíus skiptist í forskólastig, grunnskólastig, framhaldsskólastig og háskólastig. Forskóli er þrjú ár, grunnskólinn í sex ár og framhaldsskóli í fimm og tvö ár. Menntun er ókeypis fyrir ríkisborgara Máritíus frá forskólastigi og að háskólastigi. Árið 2013 voru útgjöld hins opinbera til menntamála áætluð 13% af heildarútgjöldum.[18] Frá janúar 2017 hefur ríkisstjórnin innleitt breytingar á menntakerfinu með níu ára samfelldu grunnnámi.[19]

Helstu háskólar Máritíus eru Máritíusháskóli og Tækniháskóli Máritíus sem báðir eru ríkisháskólar. Auk þeirra starfa á Máritíus Université des Mascareignes, stofnaður 2012, og Open University Mauritius. Þessir háskólar og margir aðrir framhalds- og starfsnámsskólar eru gjaldfrjálsir.[20]

Læsi meðal fullorðinna íbúa Máritíus var áætlað 92.7% árið 2015.[21]

Tilvísanir

  1. „Colonial Office Telegram No. 199 to Mauritius, No. 222 to Seychelles, 21 July 1965, FO 371/184524“ (PDF). Permanent Court of Arbitration.
  2. „Visiting British Indian Ocean Territory“. Sótt 16. desember 2018.
  3. „GLOBAL PEACE INDEX MEASURING PEACE IN A COMPLEX WORLD GLOBAL PEACE INDEX 2019“ (PDF). Institute for Economics and Peace. 2019. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. ágúst 2019. Sótt 13. október 2019.
  4. Toorawa, S. (2007). The medieval Waqwaq islands and the Mascarenes. Hassam Toorawa Trust, Port Louis, Mauritius
  5. „Cantino Planisphere by anonymous Portuguese (1502) – Biblioteca Estense Universitaria, Modena, Italy, Public Domain“.
  6. „Prime Minister's Office - Cabinet Decisions taken on 24 MAY 2019“. pmo.govmu.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2019. Sótt 25. júní 2019.
  7. 7,0 7,1 Ministry of Finance & Economic Development (2012). „ANNUAL DIGEST OF STATISTICS 2012“ (PDF). 31 December. Government of Mauritius: 22. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 5. mars 2016. Sótt 20. október 2013.
  8. „Mauritius: The Drivers of Growth – Can the Past be Extended?“ (PDF) (IMF Working paper 2014).
  9. „Mauritius“. CIA World Factbook. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. desember 2018. Sótt 4. janúar 2012.
  10. Joseph E. Stiglitz. „The Mauritius Miracle“. Project Syndicate. Sótt 21. apríl 2012.
  11. Overland, Indra; Bazilian, Morgan; Ilimbek Uulu, Talgat; Vakulchuk, Roman; Westphal, Kirsten (2019). "The GeGaLo index: Geopolitical gains and losses after energy transition". Energy Strategy Reviews. 26: 100406. https://doi.org/10.1016/j.esr.2019.100406
  12. „Moving the Nation Forward“ (PDF). Government of Mauritius. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. apríl 2019. Sótt 21. apríl 2012.
  13. 13,0 13,1 „Mauritius“. The Heritage Foundation. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. apríl 2012. Sótt 16. apríl 2012.
  14. 14,0 14,1 „2012 Investment Climate Statement – Mauritius“. U.S. Department of State. Sótt 8. ágúst 2012.
  15. 15,0 15,1 „Economy Rankings“. World Bank. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2011. Sótt 24. október 2012.
  16. „World Bank Country and Lending Groups“. datahelpdesk.worldbank.org. World Bank. Sótt 1. júlí 2020.
  17. „UNCTAD“ (PDF).
  18. Ministry of Education and Human Resource (2013). „Education statistics“ (PDF). Government Portal of Mauritius. Sótt 22. janúar 2015.
  19. News on Sunday (18. desember 2016). „Nine-Year Continuous Basic Education: What are the major changes brought to the system?“. Défi Media.
  20. Ministry Of Education And Human Resources, Tertiary Education And Scientific Research (Mauritius). „Communiqué- Free Education in Tertiary Education Institutions“ (PDF).
  21. „Mauritius - Adult (15+) literacy rate“. World Data Atlas. Knoema.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.