Það sem helst einkennir þessa gerð þingræðis er að framkvæmdavaldið (ríkisstjórn) er skipað ráðherrum sem oftast eru einnig þingmenn sem eiga sæti á löggjafarþinginu. Ríkisstjórnin situr í umboði þingsins og ber ábyrgð gagnvart því. Á þinginu sitja einnig þingmenn og flokkar sem eru í stjórnarandstöðu. Staða þjóðhöfðingja í ríkjum sem nota Westminster-kerfið er oftast aðeins táknræn en mesta valdastaðan er staða forsætisráðherra. Westminster-kerfið er nefnt eftir Westminster-höll í London þar sem báðar deildir breska þingsins sitja. Kerfinu er gjarnan stillt upp sem andstæðu við forsetaræði að Bandarískri fyrirmynd eða forsetaþingræði sem tíðkast í Frakklandi.
Westminster-kerfið þróaðist á breska þinginu á löngum tíma og byggir það að miklu leyti á óskráðum stjórnskipunarvenjum og hefðum. Utan Bretlands er kerfið helst notað í löndum sem áður voru hluti af breska heimsveldinu. T.d. í Kanada þar sem það hefur verið við lýði síðan 1848 og á Indlandi sem er fjölmennasta lýðræðisríki heims.
Munurinn á Westminster-þingræði og þingræði í öðrum löndum, t.d. á meginlandi Evrópu liggur helst í því að þingstörf í Bretlandi og öðrum löndum sem nota Westminster-kerfið eru átakakenndari en t.d. í Þýskalandi þar sem meiri áhersla er á samráð. Það kann að helgast af því að kosningakerfið sem notað er á Bretlandi leiðir til þess að oftast fær sá flokkur sem sigrar kosningar hreinan meirihluta á þingi á meðan það er venjan á meginlandi Evrópu að tveir eða fleiri flokkar þurfa að mynda samsteypustjórn. Þessi menningarmunur endurspeglast í því hvernig salarkynni þjóðþinga eru innréttuð. Í breska þinginu er bekkjaröðum stillt upp á móti hvorum öðrum þannig að stjórnarliðar sitja öðrum meginn í salnum en stjórnarandstæðingar hinu megin. Í þingræðislöndum sem ekki nota Westminster-kerfið er hins vegar algengast að raða sætum í hálfhring.