Gabon

Gabonska lýðveldið
République Gabonaise
Fáni Gabons Skjaldarmerki Gabons
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Union, Travail, Justice (franska)
Eining, vinna, réttlæti
Þjóðsöngur:
La Concorde
Staðsetning Gabons
Höfuðborg Libreville
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Lýðveldi, herforingjastjórn

Forseti Brice Oligui
Forsætisráðherra Alain Claude Bilie By Nze
Sjálfstæði
 • frá Frakklandi 17. ágúst 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
76. sæti
267.667 km²
3,76
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
146. sæti
2.119.275
7,9/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 38,280 millj. dala (134. sæti)
 • Á mann 18.647 dalir (76. sæti)
VÞL (2019) 0.706 (119. sæti)
Gjaldmiðill Miðafrískur CFA-franki
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .ga
Landsnúmer +241

Gabon er land í Vestur-Afríku (stundum þó talið til Mið-Afríku) með ströndAtlantshafi (Gíneuflóa) í vestri og landamæriMiðbaugs-Gíneu, Kamerún og Lýðveldinu Kongó. Frá því landið fékk sjálfstæði frá Frökkum 17. ágúst 1960 hafa aðeins tveir forsetar ríkt þar nánast einráðir. Omar Bongo var þar samfellt við völd frá 1967 til dauðadags árið 2009 og varð þaulsætnasti þjóðhöfðingi Afríku. Snemma á 10. áratug 20. aldar tók Gabon upp fjölflokkakerfi og nýja lýðræðislega stjórnarskrá. Fámenni landsins (tæp 1,7 milljón íbúar) og miklar náttúruauðlindir hafa gert það að verkum að Gabon er eitt af auðugustu ríkjum þessa heimshluta.

Saga

Fundist hafa grafir á Lopezhöfða sem eru taldar vera yfir 8000 ára gamlar og geyma steinaldarverkfæri fyrstu íbúa Gabon. Pygmíar fluttust til landsins seint á 2. árþúsundi f.Kr. og viku síðan fyrir Bantúmönnum þegar þeir síðarnefndu tóku að breiðast út um álfuna. Annars er lítið vitað um sögu Gabon fyrir komu Evrópumanna.

Portúgalskir landkönnuðir komu fyrst til Gabon á 15. öld og nefndu landið Gabon eftir orðinu gabao sem er tegund klæðnaðar. Strönd Gabon varð síðan miðstöð þrælaverslunar og á 16. og 17. öld bættust ensk, frönsk og hollensk kaupskip við þau portúgölsku.

Milli 1839 og 1841 gerðu Frakkar samninga við höfðingja þeirra ættbálka sem bjuggu við ströndina um að svæðið yrði franskt verndarsvæði. Árið 1849 var stofnuðu fangar sem frelsaðir höfðu verið af þrælaskipi borgina Libreville. 1885 gerðu Frakkar landið að nýlendu og frönsk stjórn hófst 1903. Árið 1910 var Gabon gert hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Árið 1959 var Franska Miðbaugs-Afríka lögð niður og Gabon, Tsjad, Mið-Afríkulýðveldið og Vestur-Kongó fengu sjálfstæði árið eftir.

Í fyrstu kosningunum buðu tveir listar fram en hvorugur þeirra fékk nægilegan meirihluta. Leon M'Ba varð forsætisráðherra. Í kjölfarið var ákveðið að sameina listana og í kosningunum 1961 bauð einn listi fram og M'Ba varð forseti. Fyrir kosningarnar 1964 var kosningakerfinu breytt og aðeins listi M'Ba gat uppfyllt kröfurnar. Franskar hersveitir komu í veg fyrir valdaránstilraun hersins sem fylgdi í kjölfarið. Í öðrum kosningum sama ár fékk listi M'Ba öruggan meirihluta þingsæta og M'Ba var forseti til 1967 þegar hann lést og varaforsetinn Omar Bongo tók við. Í mars 1968 afnam Omar Bongo fjölflokkakerfið og kom á flokksræði.

Við upphaf 10. áratugarins kom upp mikil óánægja með stjórnarfar og efnahag landsins sem leiddi til fjöldamótmæla og verkfalla. Í kjölfarið var komið á fjölflokkakerfi með nýrri stjórnarskrá. Spennan hélst enn mikil og þegar Bongo var endurkjörinn forseti árið 1993 með 51% atkvæða neitaði stjórnarandstaðan að viðurkenna úrslitin. Alvarlegar óeirðir leiddu til þess að stjórn og stjórnarandstaða gerðu með sér samning, Parísarsamkomulagið, árið 1994 sem leiddi til myndunar þjóðstjórnar. Bongo var endurkjörinn með miklum mun í kosningum 1998 og 2005. Eftir að hann lést árið 2009 var sonur hans, Ali Bongo Ondimba, kjörinn forseti.

Ali Bongo var steypt af stóli í herforingjabyltingu eftir umdeildar forsetakosningar árið 2023.[1]

Landafræði

Kort af Gabon
Gervihnattarmynd af Gabon.

Gabon á strönd að Atlantshafi og nokkuð breið slétta liggur upp af vogskorinni ströndinni. Vestasti oddi landsins er Lopezhöfði sem myndar suðurmörk Gíneuflóa. Fljótið Ogooué hlykkjast um landið sem er að stærstum hluta flóðslétta þess. Það rennur út í Atlantshafið rétt sunnan við Port Gentil. Stærsta þverá Ogooué er Ivindo. Önnur fljót eru Komo sem rennur í Gabonvík sunnan við Libreville og Nyanga.

Eftir því sem innar dregur í landið hækkar það og endar í fjöllum þar sem eru upptök helstu þveráa Ogooé. Mikið hefur verið lagt í að vernda náttúru landsins og árið 2002 tilkynnti stjórn Gabon um stofnun þrettán þjóðgarða. Suður- og austurhluti landsins eru gresja.

Skipting í stjórnsýsluumdæmi

Kort sem sýnir skiptingu Gabon.

Gabon skiptist í níu sýslur:

  1. Estuaire (Libreville)
  2. Haut-Ogooué (Franceville)
  3. Moyen-Ogooué (Lambaréné)
  4. Ngounié (Mouila)
  5. Nyanga (Tchibanga)
  6. Ogooué-Ivindo (Makokou)
  7. Ogooué-Lolo (Koulamoutou)
  8. Ogooué-Maritime (Port-Gentil)
  9. Woleu-Ntem (Oyem)

Stjórnmál

Omar Bongo, forseti Gabon, á fundi með George W. Bush, Bandaríkjaforseta árið 2004.

Gabon er lýðveldi með forsetaræði á grundvelli stjórnarskrárinnar frá 1961, en henni var breytt árið 1975 og enn endurskrifuð árið 1991. Þingið skiptist í tvær deildir og þar sitja 120 þingmenn sem kjörnir eru til fimm ára í senn. Forsetinn er kjörinn í almennum kosningum til sjö ára í senn. Hann útnefnir síðan forsætisráðherra, ráðherra og dómara í hæstarétt.

Í Gabon hefur verið fjölflokkakerfi frá árinu 1991, en langstærsti flokkurinn er gabonski demókrataflokkurinn sem hefur verið við völd frá því landið fékk sjálfstæði. Stjórnarandstöðuflokkar eru leyfðir en hafa engan raunverulegan möguleika til að komast til valda. Forsetinn hefur mikil völd og getur meðal annars leyst upp þingið og lýst yfir neyðarlögum og skipt um ríkisstjórn.

Efnahagslíf

Efnahagslíf í Gabon er blómlegra en hjá mörgum nágrannaríkjum þess og landsframleiðsla á mann er um fjórum sinnum hærri en meðaltalið í Afríku sunnan Sahara. Ríkidæmi landsins stafar aðallega af olíuvinnslu úr sjó undan ströndum landsins, en olía stendur undir 80% af verðmæti útflutnings. Gabon var fullgildur meðlimur OPEC frá 1975 til 1995. Helstu náttúruauðlindir í Gabon eru olíulindir, mangannámur og timbur. Gjaldfelling CFA-frankans 12. janúar 1994 leiddi til verðbólguskots sem gekk yfir á tveimur árum með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Landið græddi á hækkun olíuverðs undir lok 10. áratugarins en síðan þá hefur framleiðslan minnkað.

Menning

Í Gabon búa um fimmtíu þjóðflokkar sem hver og einn eiga sér sitt tungumál og siði sem þó eru smám saman á undanhaldi. Langstærsti þjóðflokkurinn er Fang, en aðrir stórir hópar eru Myene, Bakota, Eshira, Bapounou og Okande. Öll málin eru bantúmál en franska er opinbert tungumál landsins.

Eitt af einkennistáknum Gabon eru grímur með sérstöku lagi fyrir hvern þjóðflokk.

Um tveir þriðju hlutar íbúa Gabon eru kristnir en andatrú frá því fyrir komu Evrópubúa er talin vera trúarbrögð um 20% landsmanna.

Tilvísanir

  1. „Valdarán í Gabon“. mbl.is. 30. ágúst 2023. Sótt 21. febrúar 2024.