Heiti landsins er dregið af Senegalfljóti sem markar landamæri þess í norðri og austri. Nokkrar kenningar eru til um uppruna heitisins. Árið 1850 setti presturinn David Boilat fram þá kenningu að nafnið kæmi úr wolof, suñu gaal „okkar bátur“. Þessi orðskýring er sú sem er almennt viðurkennd í Senegal.
Eftir 1960 hafa ýmsir fræðimenn sett fram aðrar kenningar um uppruna nafnsins, eins og að það sé dregið af heiti Berbaþjóðflokksins Sanhadja eða Zenaga.[1]
Landfræði
Senegal er á vesturhluta meginlands Afríku. Landið er staðsett milli 12. og 17. breiddargráðu norður og 11. og 18. lengdargráðu vestur. Senegal á strönd að Atlantshafi í vestri, og landamæri að Máritaníu í norðri, Malí í austri og Gíneu og Gíneu-Bissá í suðri. Að auki umlykur það Gambíu nánast alveg, þ.e. í norðri, austri og suðri, fyrir utan stutta strandlengju við Atlantshafið.
Einkennandi landslag í Senegal eru hæðóttar sandsléttur í vesturhlutanum sem rísa upp að fjallsrótum í suðaustri. Þar er hæsti punktur Senegal, Baunez-hryggur, 2,7 km suðaustur af Nepen Diakha, 648 metrar á hæð. Senegalfljót myndar norðurlandamæri landsins. Aðrar ár eru Gambíufljót og Casamance-fljót. Höfuðborgin Dakar liggur á skaganum Grænhöfða, vestasta punkti meginlands Afríku. Vestasti oddinn nefnist Pointe des Almadies og liggur rétt norðan við Dakar. Grænhöfðaeyjar, sem liggja um 560 km vestar, heita eftir höfðanum.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Senegal skiptist í fjórtán héruð sem heita hvert eftir sínum höfuðstað: