Íbúar Botsvana er um 2,3 milljónir og landið er eitt af þeim dreifbýlustu í heimi. Rúmlega 11% þjóðarinnar búa í höfuðborginni, Gaboróne. Landið var áður eitt af þeim fátækustu í heimi, en hefur síðan breyst í miðtekjuland með hratt vaxandi efnahag.[2]
Botsvana er 581.730 km² að stærð og er því 48. stærsta land heims. Það er svipað að stærð og Madagaskar eða Frakkland. Landið liggur milli 17. og 27. breiddargráðu suður og 20. og 30. lengdargráðu austur.
Landslag í Botsvana er að mestu flatt og hallar upp að lágri sléttu. Mest af landsvæði Botsvana er í Kalaharíeyðimörkinni sem þekur allt að 70% landsins. Okavangoósar, sem eru með stærstu innanlandsárósum heims, eru í norðvestri. Makgadikgadi-flötin er stór saltflöt í norðurhluta landsins.
Botsvana hefur verið með mestan vöxt tekna á mann frá því landið fékk sjálfstæði.[7] Landið hefur farið úr því að vera eitt fátækasta ríki heims í efri-miðtekjuríki. Landsframleiðsla á mann óx úr 1.344 dölum árið 1950 í 15.015 dali árið 2016.[8] Botsvana á mikið af náttúruauðlindum og með öflugum stofnanaramma hefur tekist að nýta tekjur af þeim til að fjárfesta í atvinnuvegum með stöðugri framtíðartekjur.[9] Botsvana er með fjórðu hæstu vergu þjóðartekjur með kaupmáttarjöfnuði í Afríku, sem er svipað og í Mexíkó.[10]
Viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Botsvana ber ábyrgð á viðskiptaþróun landsins. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var hagvöxtur í landinu 9% að meðaltali frá 1966 til 1999. Í Botsvana er mikið viðskiptafrelsi miðað við önnur Afríkulönd.[11] Ríkisstjórnin hefur haldið í skynsamlegt skattkerfi þrátt fyrir fjárlagahalla árin 2002 og 2003, og erlendar skuldir eru nær engar. Landið er með hæsta lánshæfismat af Afríkulöndum og á yfir 7 milljarða dala gjaldeyrisforða (2005/2006) sem jafngildir tveimur og hálfu ári af innflutningi miðað við 2021.
Í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstætt dómsvald og ríkisstjórnin hefur virt það. Lagakerfið tryggir örugg viðskipti þótt dómsmál eigi til að dragast úr hófi. Vernd hugverkaréttinda hefur batnað mikið. Botsvana var í öðru sæti á eftir Suður-Afríku á lista vísitölu um hugverkarétt árið 2014.[12]
Botsvana er að mestu opið fyrir erlendri fjárfestingu en sumir geirar eru þó fráteknir fyrir ríkisborgara landsins. Aukin erlend fjárfesting hefur leikið stórt hlutverk í einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Lög um fjárfestingar eru gagnsæ og stjórnsýslan opin og skilvirk, þótt hún sé oft hæg. Hægt er að flytja frá landinu arð og tekjur af hlutabréfasölu, lánastarfsemi, hugverkaréttargreiðslur, þóknanir og svo framvegis án takmarkana.
Botsvana flytur inn unnið jarðefnaeldsneyti og rafmagn frá Suður-Afríku. Raforkuframleiðsla með kolum er stunduð í litlum mæli.
Tilvísanir
↑Darwa, P. Opoku (2011). Kazungula Bridge Project(PDF). African Development Fund. bls. Appendix IV. Afrit af upprunalegu(PDF) geymt þann 14 nóvember 2012. Sótt 4 maí 2012.