Botsvana

Lýðveldið Botsvana
Lefatshe la Botswana
Fáni Botsvana Skjaldarmerki Botsvana
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Pula (tswana)
Regn
Þjóðsöngur:
Fatshe leno la rona
Staðsetning Botsvana
Höfuðborg Gaboróne
Opinbert tungumál setsvana og enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Duma Boko
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 30. september, 1966 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
47. sæti
581.730 km²
2,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
145. sæti
2.254.068
3,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 43,389 millj. dala (120. sæti)
 • Á mann 18.113 dalir (99. sæti)
VÞL (2019) 0.735 (100. sæti)
Gjaldmiðill pula (BWP)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .bw
Landsnúmer +267

Botsvana er landlukt land í sunnanverðri Afríku með landamæri að Suður-Afríku í suðri, Namibíu í vestri, Sambíu í norðri og Simbabve í norðaustri. Kazungula-brúin tengir Botsvana við Sambíu yfir Sambesífljótið.[1] Botsvana er flatlent land og Kalaharíeyðimörkin þekur 70% þess.

Íbúar Botsvana er um 2,3 milljónir og landið er eitt af þeim dreifbýlustu í heimi. Rúmlega 11% þjóðarinnar búa í höfuðborginni, Gaboróne. Landið var áður eitt af þeim fátækustu í heimi, en hefur síðan breyst í miðtekjuland með hratt vaxandi efnahag.[2]

Nútímamaðurinn settist að í Botsvana fyrir um 200.000 árum. Tsvanar eru afkomendur bantúmælandi þjóðflokka sem fluttust suður á bóginn til Botsvana um 600 e.o.t. og lifðu sem hirðingjar í ættbálkasamfélögum. Árið 1885 gerði Breska heimsveldið landið að verndarsvæðinu Bechuanalandi. Upphaflega ætluðu Bretar sér að leggja landið undir Ródesíu eða Suður-Afríku, en andstaða Tsvana leiddi til þess að það var áfram undir breskri stjórn þar til það varð sjálfstætt ríki innan Breska samveldisins 30. september 1966.[3] Síðan þá hefur fulltrúalýðræði ríkt í landinu sem hefur óslitna hefð frjálsra kosninga og lægstu spillingarvísitölu meðal Afríkulanda frá 1998.[4]

Efnahagslífið er nátengt Suður-Afríku og byggist aðallega á nautgriparækt og námagreftri, einkum demantanámum, auk ferðaþjónustu. Verg landsframleiðsla á mann með kaupmáttarjöfnuði er 18.113 dalir, sem er með því hæsta sem gerist í Afríku.[5] Þetta gerir það að verkum að lífsgæði í Botsvana eru tiltölulega mikil og landið er efsta landið í Afríku sunnan Sahara á lista yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða.[6]

Botsvana á aðild að Afríkusambandinu, Þróunarbandalagi sunnanverðrar Afríku, Breska samveldinu og Sameinuðu þjóðunum. Íbúar eru flestir kristnir mótmælendur. Landið glímir við heilbrigðisvandamál sem stafa af því að einn af hverjum fimm íbúum er með HIV.

Landfræði

Botsvana er 581.730 km² að stærð og er því 48. stærsta land heims. Það er svipað að stærð og Madagaskar eða Frakkland. Landið liggur milli 17. og 27. breiddargráðu suður og 20. og 30. lengdargráðu austur.

Landslag í Botsvana er að mestu flatt og hallar upp að lágri sléttu. Mest af landsvæði Botsvana er í Kalaharíeyðimörkinni sem þekur allt að 70% landsins. Okavangoósar, sem eru með stærstu innanlandsárósum heims, eru í norðvestri. Makgadikgadi-flötin er stór saltflöt í norðurhluta landsins.

Vatnasvið Limpopo-fljóts, stærsti landslagsþáttur sunnanverðrar Afríku, er að hluta í Botsvana þar sem þverárnar Notwane-á, Bonwapitse-á, Mahalapye-á, Lotsane-á, Motloutse-á og Shashe-á renna allar um austurhluta landsins. Notwane-á rennur um höfuðborgina þar sem Gaborónestíflan er. Cuando-á myndar landamæri Botsvana og Sambesíhéraðs í Namibíu í norðri. Chobe-á rennur út í Sambesífljót við Kazungula.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Í Botsvana eru fimmtán sveitarstjórnir: níu umdæmisráð og sex bæjarstjórnir.

Efnahagslíf

Skýringarmynd sem sýnir helstu útflutningsvörur Botsvana árið 2009.

Botsvana hefur verið með mestan vöxt tekna á mann frá því landið fékk sjálfstæði.[7] Landið hefur farið úr því að vera eitt fátækasta ríki heims í efri-miðtekjuríki. Landsframleiðsla á mann óx úr 1.344 dölum árið 1950 í 15.015 dali árið 2016.[8] Botsvana á mikið af náttúruauðlindum og með öflugum stofnanaramma hefur tekist að nýta tekjur af þeim til að fjárfesta í atvinnuvegum með stöðugri framtíðartekjur.[9] Botsvana er með fjórðu hæstu vergu þjóðartekjur með kaupmáttarjöfnuði í Afríku, sem er svipað og í Mexíkó.[10]

Viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Botsvana ber ábyrgð á viðskiptaþróun landsins. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var hagvöxtur í landinu 9% að meðaltali frá 1966 til 1999. Í Botsvana er mikið viðskiptafrelsi miðað við önnur Afríkulönd.[11] Ríkisstjórnin hefur haldið í skynsamlegt skattkerfi þrátt fyrir fjárlagahalla árin 2002 og 2003, og erlendar skuldir eru nær engar. Landið er með hæsta lánshæfismat af Afríkulöndum og á yfir 7 milljarða dala gjaldeyrisforða (2005/2006) sem jafngildir tveimur og hálfu ári af innflutningi miðað við 2021.

Í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstætt dómsvald og ríkisstjórnin hefur virt það. Lagakerfið tryggir örugg viðskipti þótt dómsmál eigi til að dragast úr hófi. Vernd hugverkaréttinda hefur batnað mikið. Botsvana var í öðru sæti á eftir Suður-Afríku á lista vísitölu um hugverkarétt árið 2014.[12]

Botsvana er að mestu opið fyrir erlendri fjárfestingu en sumir geirar eru þó fráteknir fyrir ríkisborgara landsins. Aukin erlend fjárfesting hefur leikið stórt hlutverk í einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Lög um fjárfestingar eru gagnsæ og stjórnsýslan opin og skilvirk, þótt hún sé oft hæg. Hægt er að flytja frá landinu arð og tekjur af hlutabréfasölu, lánastarfsemi, hugverkaréttargreiðslur, þóknanir og svo framvegis án takmarkana.

Botsvana flytur inn unnið jarðefnaeldsneyti og rafmagn frá Suður-Afríku. Raforkuframleiðsla með kolum er stunduð í litlum mæli.

Tilvísanir

  1. Darwa, P. Opoku (2011). Kazungula Bridge Project (PDF). African Development Fund. bls. Appendix IV. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 14 nóvember 2012. Sótt 4 maí 2012.
  2. Maundeni, Zibani; Mpabanga, Dorothy; Mfundisi, Adam (1 janúar 2007). „Consolidating Democratic Governance in Southern Africa : Botswana“. Africa Portal. Sótt 28 maí 2020.
  3. „Bechuanaland was the former name of Botswana“. generalknowledgefacts.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. mars 2015. Sótt 20 febrúar 2018.
  4. „overview of CPI indices“. Transparency International. Afrit af uppruna á 8 janúar 2018. Sótt 8 janúar 2018.
  5. „Botswana“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. 2014. Sótt 16 apríl 2014.
  6. Gross national income (GNI) – Nations Online Project Geymt 19 febrúar 2009 í Wayback Machine. Nationsonline.org. Retrieved on 27 October 2016.
  7. US Department of State website, Background Note: Botswana Geymt 4 júní 2019 í Wayback Machine , May 2009. Retrieved 7–23–09.
  8. „GDP per capita“. Our World in Data. Afrit af uppruna á 20 júlí 2019. Sótt 10 júlí 2019.
  9. Baten, Jörg (2016). A History of the Global Economy. From 1500 to the Present. Cambridge University Press. bls. 159. ISBN 9781107507180.
  10. Kästle, Klaus (24 júlí 2009). „GNI PPP table“. Nationsonline.org. Afrit af uppruna á 15 janúar 2010. Sótt 19 janúar 2010.
  11. „Botswana ranked Africa's leader in economic freedom“. mmegi.bw. 19 maí 2017. Afrit af uppruna á 22 ágúst 2017. Sótt 11 nóvember 2018.
  12. „The International Property Rights Index 2014: Africa by Score“. The International Property Rights Index. Afrit af uppruna á 8. desember 2015. Sótt 23 ágúst 2015.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.