Grenada er einn af stærstu framleiðendum múskats í heimi og er af þeim sökum stundum kölluð „Kryddeyjan“. Íbúar eru um 125 þúsund (2021) og þar af býr tæpur þriðjungur í höfuðborginni St. George's. Langflestir íbúa Grenada eru afkomendur afrískra þræla sem voru fluttir til eyjarinnar til að vinna á plantekrum. Rúmlega þriðjungur er kaþólskur. Þjóðarfugl Grenada er grenadadúfan sem er í útrýmingarhættu.
Aravakar, sem bjuggu á eyjunni áður en Evrópubúar komu þangað, kölluðu hana Camajuya sem merkir „elding“.[2]Kristófer Kólumbus kom auga á Grenada og Tóbagó í þriðju ferð sinni 1498 og er talinn hafa nefnt Grenada La Concepción til heiðurs Maríu guðsmóður. Talið er að Tóbagó hafi fengið nafnið Assumpción. Þetta er þó óvíst þar sem hann nefndi eyjarnar eftir að hafa séð þær úr fjarska og ekki er víst hvor eyjan fékk hvaða nafn.[3] Árið eftir kom ítalski landkönnuðurinn Amerigo Vespucci þangað með spænska könnuðinum Alonso de Ojeda og kortagerðarmanninum Juan de la Cosa. Vespucci er sagður hafa nefnt eyjuna Mayo, en það nafn kemur ekki fyrir á neinum öðrum kortum.[4]
Uppruni nafnsins „Grenada“ er óviss, en líklegt þykir að spænskir sjómenn hafi nefnt eyjuna eftir andalúsísku borginni Granada.[5][3] Nafnið „Granada“ birtist á spænskum kortum frá 3. áratug 16. aldar, meðan eyjarnar norðan við Grenada voru nefndar „Los Granadillos“ („litlu Granödurnar“).[6] Eyjarnar voru merktar sem eign Spánarkonungs, en Spánverjar gerðu enga tilraun til að setjast þar að.[4] Þegar Frakkar hófu landnám á Grenada árið 1649 nefndu þeir eyjuna „La Grenade“.[6] Þann 10. febrúar 1763 fengu Bretar yfirráð yfir eyjunni samkvæmt Parísarsáttmálanum. Bretar breyttu nafninu í Grenada.[7]
Íbúar Grenada eru rúmlega 100.000. Flestir tala kreólamálið grenadísku, en enska er opinbert tungumál. 85% aðhyllast kristni. Um helmingur er í ýmsum mótmælendasöfnuðum (þar á meðal ensku biskupakirkjunni) og um þriðjungur er kaþólskur. Meirihluti íbúa Grenada (82%) eru afkomendur afrískra þræla.[5][8] Eftir að Frakkar hófu landnám þar á 17. öld hurfu flestir innfæddir íbúar. Indverskt verkafólk var flutt inn á milli 1857 og 1885, aðallega frá Bihar og Uttar Pradesh, og afkomendur þeirra búa enn á Grenada. Grenadabúar af Indverskum uppruna eru um 2,2% íbúa.[5] Lítill hluti íbúa er af frönskum eða enskum uppruna.[8] Aðrir íbúar eru af blönduðum uppruna (13%).[9]
Líkt og margar aðrar Karíbahafseyjar býr Grenada við fólksflótta, þar sem mikið af ungu fólki freistar gæfunnar erlendis. Vinsælir áfangastaðir eru meðal annars aðrar Karíbahafseyjar (eins og Barbados), bandarískar og kanadískar borgir (New York-borg, Toronto og Montreal), og Bretland (sérstaklega London og Yorkshire).[10]
Menning
Íþróttir
Langvinsælasta íþróttin á Grenada er krikket en á alþjóðavettvangi keppa íbúar landsins undir merkjum Vestur-Indía í greininni. Heimsmeistarakeppnin í krikket var haldin í Vestur-Indíum árið 2007 og fóru nokkrir kappleikir fram í St. George´s. Telst það stærsti íþróttaviðburðurinn í sögu þjóðarinnar.
Grenada hefur tekið þátt í Ólympíuleikunum allt frá leikunum Los Angeles 1984. Flestir keppendur landsins hafa tekið þátt í frjálsum íþróttum. Spretthlauparinn Kirani James hlaut gullverðlaun í 400 metra hlaupi í Lundúnum 2012 og silfur í sömu grein í Ríó 2016.
↑ 6,06,1Martin, John Angus (2013). Island Caribs and French Settlers in Grenada: 1498-1763. St George's, Grenada: Grenada National Museum Press. ISBN9781490472003.