Eyjan varð frönsk nýlenda árið 1635. Frakkar ráku frumbyggja eyjarinnar burt árið 1660 og fluttu inn þræla frá Afríku til að vinna þar á plantekrum. Joséphine de Beauharnais, kona Napóleons fæddist á Martinique árið 1763. Hún var dóttir franskra plantekrueigenda. Upphaflega var höfuðborg eyjarinnar Saint-Pierre en bærinn eyðilagðist þegar eldfjallið Mont Pelée gaus 1902 með þeim afleiðingum að 30.000 íbúar létust. Eftir það var höfuðborgin flutt til Fort-de-France.
Heiti eyjunnar á frönsku, Martinique, er dregið af taínósku heiti hennar, Madiana/Madinina, sem merkir „blómaeyja“, eða Matinino, „kvennaeyja“, samkvæmt Kólumbusi sem sigldi til eyjarinnar árið 1502.[2] Samkvæmt sagnfræðingnum Sydney Daney nefndu Karíbar eyjuna Jouanacaëra eða Wanakaera sem merkir „kembueyja“.[3]
Martinique er alls 1.128 km2 að stærð og þar af eru 40 km2 vatn.[2] Eyjan er sú þriðja stærsta af Litlu-Antillaeyjum, á eftir Trínidad og Guadeloupe. Hún er 70 km á lengd og 30 km á breidd. Hæsti tindur eyjarinnar er Pelée-fjall, 1.397 metrar yfir sjávarmáli. Við austurströndina er fjöldi smáeyja.
Atlantshafsströndin (kulborðsströndin) á Martinique er erfið aðkomu fyrir skip. Þar eru klettóttar strendur, kóralrif og sandrif sem gera þennan hluta hættulegan fyrir siglingar. Caravelle-skagi skiptir á milli suðurstrandarinnar og norðurstrandarinnar Atlantshafsmegin.
Karíbahafsströndin (hléborðsmegin) er auðveldari fyrir skipaumferð. Eyjan skýlir ströndinni fyrir staðvindum í Atlantshafi og ströndin dýpkar snögglega þegar komið er frá landi. Þetta kemur í veg fyrir vöxt kóralla.
Norðurhluti eyjarinnar er mjög fjalllendur. Þar eru fjögur pitons (eldfjöll) og mornes (fjöll): Piton Conil, sem rís yfir Dóminíkusundi í norðri; virka eldfjallið Pelée-fjall; Morne Jacob; og Pitons du Carbet, fimm útdauð eldfjöll þakin regnskógi sem rísa í 1.196 metra hæð yfir víkina við Fort de France. Eldfjallaaska úr Pelée-fjalli hefur skapað gráar og svartar strendur í norðrinu (sérstaklega milli Anse Ceron og Anse des Gallets), gerólíkar hvítum sandinum við Les Salines í suðrinu.
Suðrið er auðveldara yfirferðar þótt þar séu líka áhugaverðir landslagsþættir. Vegna þess að það er láglendara og með margar strendur, er ferðaþjónusta mest í suðurhlutanum. Strendurnar frá Pointe de Bout suður að Les Salines eru vinsælar.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Martinique skiptist í fjögur sýsluhverfi (arrondissements) og 34 sveitarfélög (communes). 45 kantónur voru lagðar niður árið 2015. Hverfin eru:
Fort-de-France er eina lögsagnarumdæmið á Martinique. Það nær yfir miðhluta eyjarinnar. Þar eru fjögur sveitarfélög. Árið 2021 var íbúafjöldi þar 150.038.[4] Fyrir utan höfuðborgina eru þar bæirnir Saint-Joseph og Schœlcher.
Árið 2014 var verg landsframleiðsla á Martinique 8,4 milljarðar evra. Efnahagslíf eyjarinnar er að miklu leyti háð ferðaþjónustu, takmörkuðum landbúnaði, og fjárframlögum frá franska ríkinu.[2]
Sögulega séð byggðist efnahagur Martinique á landbúnaði, sérstaklega sykri og banönum, en við upphaf 21. aldar hafði þessi iðnaður dregist verulega saman. Sykurframleiðslan hefur minnkað og mest af sykurreyrnum er nú notaður í framleiðslu á rommi.[2] Bananaútflutningur hefur aukist og fer að mestu til Frakklands. Skordýraeitrið klórdekón sem var notað í bananaræktuninni áður en það var bannað árið 1993, reyndist hafa mengað ræktarlönd, ár og fiska, og haft áhrif á heilsu íbúanna. Afleiðingarnar voru að bæði fiskveiðar og landbúnaður voru lögð niður á menguðum svæðum með miklum neikvæðum áhrifum fyrir efnahaginn.[5] Megnið af því kjöti, grænmeti og korni sem eyjarskeggjar þurfa er innflutt. Þetta veldur neikvæðum viðskiptajöfnuði sem kallar á há fjárframlög frá franska ríkinu árlega.[2]
Allar vörur sem fluttar eru inn til Martinique bera „sjótoll“ sem getur verið allt að 30% af virði farmsins og stendur undir 40% af tekjum eyjarinnar. Auk þess innheimtir stjórnin 1-2,5% „árgjald“ og 2,2-8,5% virðisaukaskatt.[6]