Normandí

Fáni Normandí.

Normandí eða Norðmandí [1] (normannska: Normaundie; franska: Normandie; enska Normandy) skiptist í dag í héraðið Normandí sem tilheyrir Frakklandi og Ermarsundseyjar (Þær skiptast í tvö umdæmi: Guernsey og Jersey. Bæði umdæmin eru breskar krúnunýlendur þótt hvorugt þeirra sé hluti af Bretlandi).

Íbúar Normandí heita Norðmandingar eða Normannar. Í Gerplu eftir Halldór Laxness segir svo í upphafi 28. kafla: Normandíbúar, þeir er vér köllum rúðubændur.

Saga

Áður var Normandí sjálfstætt hertogadæmi sem náði yfir ósa Signu frá Pays de CauxCotentin-skaganum. Ermarsundseyjar voru hluti af hertogadæminu og fylgdu titlinum (sem Bretadrottning ber nú sem hertoginn af Normandí) þótt normannska meginlandið væri innlimað í Frakkland. Upphaflega stofnaði Karl einfaldi Frankakonungur lénið sem lausnargjald handa víkingnum Göngu-Hrólfi og mönnum hans sem herjuðu á Franka árið 911. Nafnið Normandí er dregið af því að þar settist að norrænt fólk.

Bayeux-refillinn, gerður í lok 11. aldar segir frá því þegar Normannar lögðu undir sig England árið 1066.

Vilhjálmur sigursæli réðst inn í England frá Normandí árið 1066, lagði það undir sig eftir orrustuna við Hastings og gerðist þar konungur. Áhrif Normanna á England urðu mikil. Þeir reistu kirkjur og kastala (sá frægasti er án efa Lundúnaturn) og tungumál þeirra blandaðist tungu heimamanna. Englendingar tóku upp normönnsk mannanöfn eins og Williame sem varð að William. Á svipuðum tíma lögðu Normannar undir sig Suður-Ítalíu og önnur landsvæði.

Þann 6. júní 1944 hófu bandamenn allsherjarinnrás sína á meginland Evrópu á strönd Normandí. Orrustan um Normandí er enn stærsta innrás sögunnar af hafi þar sem nær þrjár milljónir hermanna fóru yfir Ermarsund.

Menning

Norræn áhrif eru víða í Normandí. Þar er að finna hundruðir örnefna af norrænum uppruna og margir Normannar bera ættarnöfn sem eiga uppruna sinn að rekja til norrænna nafna.

Tungumál Normanna, normannska, er rómanskt mál með norrænum tökuorðum. Roman de Rou (Saga Hrólfs) er eitt höfuðrita normannskar bókmenntaarfleiðar. Hana skrifaði sagnaritarinn Wace í byrjun 12. aldar. Frægustu frönskumælandi rithöfundar Normandí eru Barbey D'Aurevilly, Gustave Flaubert og Guy de Maupassant.

Þjóðaríþrótt Normanna er Choule Crosse sem er ekki ósvipuð knattleik þeim er Íslendingar léku til forna.

Choule Crosse er þjóðaríþrótt Normanna.

Tilvísanir

  1. Íslenzk tunga; grein í Þjóðviljanum 1958
Camembert er frægasti ostur Normandí

Tenglar

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.