Þann 18. júlí1995 hófst eldgos í Soufriere Hills-eldfjallinu á suðurhluta eyjarinnar. Eldgosið lagði höfuðborg eyjunnar, Plymouth, í rúst. Tveir þriðju íbúa eyjarinnar neyddust til að flýja eyjuna vegna eldgossins milli 1995 og 2000, flestir til Bretlands. Aðeins um 1200 manns voru eftir á eyjunni árið 1997, en hefur síðan þá fjölgað í tæp 5000. Eldvirknin hefur síðan haldið áfram og hefur eyðilagt hafnarmannvirki við Plymouth og W. H. Bramble-flugvöll, en leifar hans grófust í gjósku árið 2010.
Syðri helmingur eyjarinnar, að Belham-dal, er lokað svæði vegna stærðar eldkeilunnar og hættu á gjóskuhlaupum. Gestir fá ekki að fara inn á svæðið, en hægt er að virða fyrir sér rústir Plymouth frá Garibaldihæð í Isles Bay. Dregið hefur úr eldvirkni frá 2010 en Eldfjallaeftirlitsstöðin á Montserrat fylgist með eldfjallinu.[3][4]
Við Little Bay á norðvesturströnd eyjarinnar er verið að byggja upp nýjan bæ og nýja höfn. Tímabundin stjórnsýslumiðstöð eyjarinnar er í Brades.[5]
Montserrat er um það bil 40 km suðvestan við Antígva, 21 km suðaustan við Redonda (Antígva og Barbúda) og 56 km norðvestan við franska handanhafshéraðið Guadeloupe. Handan við Redonda liggur eyjan Nevis (Sankti Kristófer og Nevis) um 48 km í norðvestur. Eyjan er 104 km2 og fer hægt stækkandi vegna gosefnis sem safnast upp á suðausturströndinni. Eyjan er 16 km að lengd og 11 km að breidd. Hún er fjalllend inni í landi með flatlendi við ströndina, 15-30 metra háa kletta og nokkrar sandstrendur í víkum á vesturströndinni. Helstu fjöllin eru (frá norðri til suðurs) Silver Hill, Katy Hill, Soufrière-hæðir og Suður-Soufrière-hæðir.[7] Soufrière-hæðir voru hæsti tindur eyjarinnar, 915 metrar fyrir 1995. Fjallið hefur hækkað vegna myndunar hraungúls og er nú talið vera 1050 metrar.[8]
Árið 2011 flokkaði CIA 30% af landi eyjarinnar sem ræktarland, 20% sem ræktanlegt land, 25% sem skóglendi og afganginn sem „annað“.[8]
Monsterrat er breskt handanhafssvæði með heimastjórn í eigin málum.[9]Nýlendunefnd Sameinuðu þjóðanna flokkar Montserrat með landsvæðum án sjálfsstjórnar. Þjóðhöfðingi eyjunnar er Karl 3. Bretakonungur og fulltrúi hans er skipaður landstjóri. Framkvæmdavald er í höndum ríkisstjórnar Montserrat og forsætisráðherra er stjórnarleiðtogi. Landstjórinn skipar einn níu kjörinna þingmanna forsætisráðherra, oftast leiðtoga þess flokks sem hlýtur meirihluta í kosningum.[8] Ríkisstjórnin og þing Montserrat fara saman með löggjafarvaldið. Á þinginu sitja tveir aðilar ex officio: ríkissaksóknari og fjármálastjóri.[8]
Bretland fer með varnarmál Montserrat sem hefur engan her.
Dómsvaldið er óháð framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi.
Sóknir
Montserrat skiptist í þrjár sóknir. Þær eru frá norðri til suðurs:
Saint Peter
Saint Georges
Saint Anthony
Staðsetning byggðar á eyjunni hefur breyst mjög mikið eftir að eldgosið hófst. Einungis Saint Peter-sókn á norðvesturhluta eyjarinnar er nú í byggð, með 4-6000 íbúa.[10][11] Hinar tvær sóknirnar eru enn á hættusvæði og ekki hæfar til byggðar.