Montserrat

Montserrat
Fáni Montserrat Skjaldarmerki Montserrat
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Each Endeavouring, All Achieving
Þjóðsöngur:
God Save the King
Staðsetning Montserrat
Höfuðborg Plymouth (yfirgefin)
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Landstjóri Andrew Pearce
Yfirráðherra Joseph Easton Taylor Farrell
Breskt handanhafssvæði
 • Landnám Breta 1628 
 • Parísarsáttmálinn 3. september 1783 
 • Ríkjasamband 3. janúar 1958 
 • Sérstök hjálenda 31. maí 1962 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

102 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar

4.649
44/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 • Samtals 0,063 millj. dala
 • Á mann 12.384 dalir
Gjaldmiðill austurkarabískur dalur
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .ms
Landsnúmer +1-664

Montserrat er breskt handanhafssvæði í Karíbahafi. Eyjan er hluti af Hléborðseyjum sem aftur eru hluti af Litlu-Antillaeyjum í Vestur-Indíum. Eyjan er um 16 km að lengd og 11 km að breidd með um 40 km strandlengju. Eyjan er stundum kölluð „Smaragðseyjan“, bæði vegna þess hve hún er gróin og vegna þess að margir fyrstu landnámsmennirnir komu frá Írlandi.[1][2] Montserrat er eina hjálendan sem er með fullgilda aðild að CARICOM og Samtökum ríkja í austanverðu Karíbahafi.

Þann 18. júlí 1995 hófst eldgos í Soufriere Hills-eldfjallinu á suðurhluta eyjarinnar. Eldgosið lagði höfuðborg eyjunnar, Plymouth, í rúst. Tveir þriðju íbúa eyjarinnar neyddust til að flýja eyjuna vegna eldgossins milli 1995 og 2000, flestir til Bretlands. Aðeins um 1200 manns voru eftir á eyjunni árið 1997, en hefur síðan þá fjölgað í tæp 5000. Eldvirknin hefur síðan haldið áfram og hefur eyðilagt hafnarmannvirki við Plymouth og W. H. Bramble-flugvöll, en leifar hans grófust í gjósku árið 2010.

Syðri helmingur eyjarinnar, að Belham-dal, er lokað svæði vegna stærðar eldkeilunnar og hættu á gjóskuhlaupum. Gestir fá ekki að fara inn á svæðið, en hægt er að virða fyrir sér rústir Plymouth frá Garibaldihæð í Isles Bay. Dregið hefur úr eldvirkni frá 2010 en Eldfjallaeftirlitsstöðin á Montserrat fylgist með eldfjallinu.[3][4]

Við Little Bay á norðvesturströnd eyjarinnar er verið að byggja upp nýjan bæ og nýja höfn. Tímabundin stjórnsýslumiðstöð eyjarinnar er í Brades.[5]

Heiti

Kristófer Kólumbus nefndi eyjuna Santa María de Montserrate 1493 eftir Jómfrúnni frá Montserrat í Montserrat-klaustri á Montserrat-fjalli í Katalóníu á Spáni.[6] Montserrat merkir „skörðótt fjall“ á katalónsku.

Landfræði

Strönd Montserrat.

Montserrat er um það bil 40 km suðvestan við Antígva, 21 km suðaustan við Redonda (Antígva og Barbúda) og 56 km norðvestan við franska handanhafshéraðið Guadeloupe. Handan við Redonda liggur eyjan Nevis (Sankti Kristófer og Nevis) um 48 km í norðvestur. Eyjan er 104 km2 og fer hægt stækkandi vegna gosefnis sem safnast upp á suðausturströndinni. Eyjan er 16 km að lengd og 11 km að breidd. Hún er fjalllend inni í landi með flatlendi við ströndina, 15-30 metra háa kletta og nokkrar sandstrendur í víkum á vesturströndinni. Helstu fjöllin eru (frá norðri til suðurs) Silver Hill, Katy Hill, Soufrière-hæðir og Suður-Soufrière-hæðir.[7] Soufrière-hæðir voru hæsti tindur eyjarinnar, 915 metrar fyrir 1995. Fjallið hefur hækkað vegna myndunar hraungúls og er nú talið vera 1050 metrar.[8]

Árið 2011 flokkaði CIA 30% af landi eyjarinnar sem ræktarland, 20% sem ræktanlegt land, 25% sem skóglendi og afganginn sem „annað“.[8]

Undan strönd Montserrat eru nokkrar smáeyjar, eins og Litla-Redonda við norðurströndina, og Pinnacle Rock og Statue Rock við austurströndina.

Stjórnmál

Monsterrat er breskt handanhafssvæði með heimastjórn í eigin málum.[9] Nýlendunefnd Sameinuðu þjóðanna flokkar Montserrat með landsvæðum án sjálfsstjórnar. Þjóðhöfðingi eyjunnar er Karl 3. Bretakonungur og fulltrúi hans er skipaður landstjóri. Framkvæmdavald er í höndum ríkisstjórnar Montserrat og forsætisráðherra er stjórnarleiðtogi. Landstjórinn skipar einn níu kjörinna þingmanna forsætisráðherra, oftast leiðtoga þess flokks sem hlýtur meirihluta í kosningum.[8] Ríkisstjórnin og þing Montserrat fara saman með löggjafarvaldið. Á þinginu sitja tveir aðilar ex officio: ríkissaksóknari og fjármálastjóri.[8]

Bretland fer með varnarmál Montserrat sem hefur engan her.

Dómsvaldið er óháð framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi.

Sóknir

Sóknir:
St. Peter (rautt)
St. Georges (grænt)
St. Anthony (ljósblátt)
Plymouth (◾)

Montserrat skiptist í þrjár sóknir. Þær eru frá norðri til suðurs:

  • Saint Peter
  • Saint Georges
  • Saint Anthony

Staðsetning byggðar á eyjunni hefur breyst mjög mikið eftir að eldgosið hófst. Einungis Saint Peter-sókn á norðvesturhluta eyjarinnar er nú í byggð, með 4-6000 íbúa.[10][11] Hinar tvær sóknirnar eru enn á hættusvæði og ekki hæfar til byggðar.

Tilvísanir

  1. „The Caribbean Irish: the other Emerald Isle“. The Irish Times. 16. apríl 2016. Sótt 9. janúar 2018.
  2. „► VIDEO: Montserrat, the Emerald Isle of the Caribbean“. The Irish Times (enska). Sótt 9. janúar 2018.
  3. Bachelor, Blane (20. febrúar 2014). „Montserrat: a modern-day Pompeii in the Caribbean“. Fox News Channel.
  4. Pilley, Kevin (29. febrúar 2016). „Bar/fly: Caribbean island of Montserrat“. The New Zealand Herald.
  5. Handy, Gemma (16. ágúst 2015). „Montserrat: Living with a volcano“. BBC News. Sótt 8. júlí 2017.
  6. Minahan, James (1. desember 2009). The Complete Guide to National Symbols and Emblems: Volume 2. Greenwood Press. bls. 724. ISBN 978-0-313-34500-5.
  7. „Encyclopaedia Britannica - Montserrat“. Sótt 28 júní 2019.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 „Central America :: Montserrat — The World Factbook - Central Intelligence Agency“. Cia.gov. Sótt 28 apríl 2019.
  9. „Montserrat Government Profile 2018“. Indexmundi.com. Sótt 28 apríl 2019.
  10. Kowalski, Jeff (11. september 2009). „Central America and Caribbean: Monserrat“. Sótt 26 október 2009.
  11. Wittebol, Hans. „The Parishes of Montserrat“. Statoids.com. Sótt 26 október 2009.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.