Belís er land á austurströnd Mið-Ameríku við Karíbahaf, með landamæri að Mexíkó í norðvestri og Gvatemala í vestri og suðri. Það nær yfir 22.970 ferkílómetra og íbúar eru rúmlega 400.000. Meginlandshluti landsins er um 290 km langur og 110 km breiður. Belís er fámennasta og dreifbýlasta land Mið-Ameríku, en fólksfjölgun (áætluð 1,87% á ári 2018) er þar önnur mest í heimshlutanum og með því mesta á Vesturlöndum.
Menning Maja náði til Belís milli 1500 f.Kr. og 300 e.Kr. og blómstraði til um 1200. Fyrstu Evrópumennirnir komu árið 1502 þegar Kristófer Kólumbus sigldi inn í Hondúrasflóa. Landkönnun og landnám Evrópumanna hófust árið 1638. Á þeim tíma gerðu bæði Spánn og Bretland tilkall til landsins þar til Bretar sigruðu Spánverja í orrustunni um St. George's Caye undan ströndum landsins 1798. Nýlendan Breska Hondúras var stofnuð 1840 og varð krúnunýlenda árið 1862. Landið fékk sjálfstæði 1981.
Nafn landsins, og fyrri höfuðborgarinnarBelísborgar, er dregið af Belísá. Í Belís þrífst fjölbreytt menning og mörg tungumál. Enska er opinbert tungumál landsins en belískreólska er þjóðtunga þriðjungs íbúa. Spænska er annað mest talaða mál landsins. Innan Mið-Ameríku hefur Belís mikla sérstöðu og er skyldara ríkjum Karíbahafsins sem einnig eru fyrrum nýlendur Breta. Höfuðborg Belís er Belmópan en Belís er þéttbýlasta borgin og helsta hafnarborg landsins.
Elsta ritaða heimildin sem getur um orðið „Belís“ er dagbók dóminíkanamunksins José Delgado frá 1677.[1] Delgado skráði nöfn ánna sem hann fór yfir á ferð sinni norður eftir strönd Karíbahafsins sem Rio Soyte, Rio Xibum og Rio Balis. Nöfn ánna, sem samsvara Sittee-á, Sibun-á og Belísá, fékk hann frá túlki sínum.[1] Stungið hefur verið upp á því að „Balis“ sé Majaorðið belix (eða beliz) sem merkir drullugt vatn.[1] Nýlega hefur verið stungið upp á því að það gæti komið frá setningunni bel Itza eða „vegurinn til Itza“.[2]
Á 3. áratug 19. aldar komst sú alþýðuskýring á nafninu í umferð meðal yfirstétta Belís að heitið væri spænsk útgáfa nafns breska sjóræningjans Peter Wallace, sem hafi stofnað nýlendu við ósa Belísár 1638.[3] Engar heimildir eru til um stofnun sjóræningjanýlendu á því svæði og jafnvel Wallace sjálfur er talinn vera skáldsagnapersóna.[1][2] Sagnfræðingar og rithöfundar hafa komið með ýmsar aðrar skýringar á uppruna heitisins í gegnum tíðina, meðal annars að það sé úr afrískum málum eða frönsku.[1]
Umdæmin skiptast aftur í 31 kjördæmi. Staðbundin stjórnvöld í Belís eru á fjórum stjórnsýslustigum: borgarráð, bæjarráð, þorpsráð og byggðaráð. Tvö borgarráð (Belísborg og Belmópan) og sjö bæjarráð ná yfir þéttbýlisstaði landsins, meðan þorps- og byggðaráð eru yfir dreifbýli[6]
Íþróttir
Vinsælustu íþróttagreinarnar í Belís eru knattspyrna, körfuknattleikur, blak og hjólreiðar. Árviss víðavangskeppni í hjólreiðum, sem fram fer um páskahelgina, er kunnasti íþróttaviðburður landsins og laðar að sér fjölda útlendra keppenda.
Þótt knattspyrna sé sú íþrótt sem flestir landsmenn fylgjast með hefur Belís ekki unnið nein stórafrek á fótboltasviðinu. Landsliðið komst í úrslitakeppni Norður- og Miðameríkukeppninnar árið 2013 í fyrsta og eina sinn, en tapaði öllum sínum leikjum. Sama ár hafnaði liðið í fjórða sæti á Mið-Ameríkuleikunum sem er langbesti árangur landsins í keppninni.
Hondúras sendi fyrst íþróttafólk til keppni á Ólympíuleikunum á leikunum í Mexíkóborg 1968 og hefur tekið þátt í öllum leikum frá því í Los Angeles 1984. Enginn íþróttamaður frá Belís hefur enn komist á verðlaunapall á leikunum.
Tilvísanir
↑ 1,01,11,21,31,4Twigg, Alan (2006). Understanding Belize: A Historical Guide. Madeira Park, BC: Harbour Publishing. bls. 9–10, 38–45. ISBN978-1550173253.