Tonga (áður þekkt sem „Vináttueyjar“), opinberlega Konungsríkið Tonga (tongíska: Puleʻanga Fakatuʻi ʻo Tonga), er pólýnesískt land og eyjaklasi sem nær yfir 169 eyjar, þar af 36 byggðar.[1] Samanlögð stærð eyjanna er um það bil 750 ferkílómetrar og þær dreifast um 700.000 ferkílómetra hafsvæði í Suður-Kyrrahafi. Árið 2021 voru íbúar Tonga 104.494 talsins.[2] 70% þeirra búa á eyjunni Tongatapu.
Frá 1900 til 1970 var Tonga breskt verndarríki. Bretar sáu um utanríkismál Tongverja samkvæmt vináttusamningi, en Tonga lét fullveldi sitt aldrei af hendi. Árið 2010 tók stjórn Tonga skref í átt frá hefðbundnu einveldi að þingbundinni konungsstjórn, eftir lagabreytingar sem leiddu til fyrstu þingkosninga landsins.
Árið 2022 varð gríðarstórt eldgos í Hunga Tonga-eldstöðinni sem myndaði flóð og höggbylgju út um allan heim.
Heiti
Á mörgum pólýnesískum málum, þar á meðal tongísku, er orðið tonga dregið af fakatonga sem merkir „suðurátt“. Eyjaklasinn er nefndur svo af því hann er syðsti eyjaklasinn í miðhluta Pólýnesíu.[3] Orðið tonga er skylt havaíska orðinu kona sem merkir „hléborðs“ og kemur fyrir í nafni Konaumdæmis.[4]
Tonga varð þekkt á Vesturlöndum sem „Vináttueyjar“ af því skipstjórinn James Cook hlaut vinsamlegar viðtökur þegar hann kom þangað fyrst árið 1773. Þegar hann kom stóð hin árlega inasi-hátíð yfir sem gengur út á að gefa konungi eyjanna, Tu'i Tonga, fyrstu ávextina, svo Cook fékk boð um að mæta á hátíðina. Samkvæmt rithöfundinum William Mariner hugðust leiðtogar eyjarskeggja raunar drepa Cook á hátíðinni, en hættu við því þeir gátu ekki sammælst um hernaðaráætlun.[5]
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Tonga skiptist í fimm héruð sem aftur skiptast í 23 umdæmi.
Mínervurif eru almennt talin tilheyra Tonga, en þau heyra ekki undir neitt umdæmi.
Íþróttir
Rúbbí er þjóðaríþrótt Tongabúa og hefur landslið Tonga sex sinnum komist í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í greininni frá árinu 1987. Bestur var árangurinn árin 2007 og 2011 þegar Tonga vann tvær af fjórum viðureignum sínum í riðlakeppninni en komst í hvorugt skiptið áfram.
Greinar sem sverja sig í ætt við rúbbí njóta margar hverjar vinsælda á Tonga. Má þar nefna ástralskan fótbolta, ellefu manna rúbbí (rugby league) og bandarískan ruðning, en íþróttamenn frá Tonga hafa keppt í NFL-deildinni.
Mikil hefð er fyrir bardagaíþróttum á Tonga. Súmóglíma, júdó og hnefaleikar eru allt dæmi um það.
Tonga sendi fyrst keppendur á Ólympíuleikana í Los Angeles 1984 og hefur tekið þátt síðan. Í Atlanta 1996 vann landið til sinna fyrstu og einu verðlauna þegar hnefaleikakappinn Paea Wolfgramm fékk silfurverðlaun í hnefaleikum. Hann hóf í kjölfarið atvinnumannaferil með takmörkuðum árangri. Á vetrarólympíuleikunum 2014 og 2018 tefldi Tonga fram einum keppanda, í sleðabruni. Þátttaka hans varð harðlega gagnrýnd, þar sem hann breytti nafni sínu í Bruno Banani fyrir leikana í samræmi við nafn aðalstyrktaraðila hans, nærfataframleiðanda frá Þýskalandi.
↑Mariner, William og Martin, John (1817). An account of the natives of the Tonga islands in the south Pacific Ocean: With an original grammar and vocabulary of their language. Compiled and arranged from the extensive communications of Mr. William Mariner, several years' resident in those islands, Volume 2, pp. 64–65Geymt 12 apríl 2016 í Wayback Machine. Sótt 3. nóvember 2010.