Úganda

Republic of Uganda
Fáni Úganda Skjaldarmerki Úganda
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
For God and My Country (enska)
Fyrir guð og land mitt
Þjóðsöngur:
Oh Uganda, Land of Beauty
Staðsetning Úganda
Höfuðborg Kampala
Opinbert tungumál enska, svahílí
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Yoweri Museveni
Forsætisráðherra Robinah Nabbanja
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 9. október 1962 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
79. sæti
241.038 km²
15,39
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
35. sæti
42.729.036
157,1/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 30,765 millj. dala (90. sæti)
 • Á mann 956 dalir (203. sæti)
VÞL (2019) 0.544 (159. sæti)
Gjaldmiðill úgandískur skildingur
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .ug

Úganda er landlukt land í Austur-Afríku með landamæriKenía í austri, Suður-Súdan í norðri, Lýðveldinu Kongó í vestri, Rúanda í suðvestri og Tansaníu í suðri. Suðurhluti landsins nær yfir stóran hluta Viktoríuvatns og liggur því að Stóru vötnunum. Landið er líka á vatnasviði Nílar.

Nafn Úganda er dregið af konungsríkinu Búganda sem er eitt hinna fimm fornu konungsríkja landsins (hin eru Toro, Nkore, Busoga og Bunyoro). Höfuðborgin Kampala er í suðurhluta landsins, í Búganda.

Bretar lögðu hluta landsins undir sig á síðari hluta 19. aldar og árið 1888 var Úganda lagt undir Breska Austur-Afríkufélagið. Landið fékk sjálfstæði árið 1962 og fyrsti forsætisráðherra þess var Milton Obote. Árið 1967 voru gömlu konungsríkin lögð niður og landið lýst lýðveldi. Obote gerðist þá forseti. Árið 1971 var gerð herforingjauppreisn og Idi Amin náði völdum. Hann ríkti sem einræðisherra til 1979 þegar Tansaníuher réðist inn í landið og kom Obote aftur til valda. Obote var aftur steypt af stóli í herforingjauppreisn 1985 en herforinginn Tito Okello ríkti aðeins í hálft ár þar til uppreisnarhópar undir stjórn núverandi forseta, Yoweri Museveni, steyptu honum af stóli. Stjórn hans hefur átt í átökum við Andspyrnuher Drottins sem hefur stundað skæruhernað í norðurhluta landsins frá 1987.

Enska og svahílí eru opinber tungumál landsins, en heimilt er að nota „hvaða annað mál sem er“ sem kennslumál eða í stjórnsýslunni. Tungumálið luganda er algengt í mið- og suðausturhluta landsins og önnur mál sem eru víða töluð eru lango, acholi, runyoro, runyankole, rukiga, luo, rutooro, samia, jopadhola og lusoga.

Landfræði

Kort sem sýnir helstu náttúruverndarsvæði í Úganda.

Úganda er í Austur-Afríku, milli 1°N og 4°N og 30°A og 35°A. Landslag er fjölbreytt og þar er að finna eldgíga, fjöll og stöðuvötn. Landið er að meðaltali í 900 metra hæð yfir sjávarmáli. Bæði austur- og vesturlandamæri Úganda liggja meðfram fjallgörðum. Í Ruwenzori-fjöllum er hæsti tindur Úganda, Alexandra, sem er 5.094 metrar á hæð.

Úganda er landlukt en liggur að mörgum stórum vötnum, eins og Albertsvatni, Játvarðsvatn og Georgsvatni.[1] Kyoga-vatn liggur í miðju mýrlendi í miðhluta landsins. Suðurhluti landsins liggur að Viktoríuvatni, sem er eitt af stærstu stöðuvötnum heims. Þar eru nokkrar eyjar sem tilheyra Úganda. Helstu borgir landsins eru í suðurhlutanum, nálægt vatninu, þar á meðal höfuðborgin Kampala og Entebbe.[1]

Úganda er allt innan vatnasviðs Nílar. Viktoríu-Níl rennur úr Viktoríuvatni í Kyoga-vatn og þaðan í Albertsvatn við landamærin að Kongó. Þaðan rennur áin í norður inn í Suður-Súdan. Lítið landsvæði í austurhluta Úganda er á vatnasviði Turkwel-ár, sem rennur í Turkana-vatn, og brot af norðausturhlutanum er á vatnasviði Lotikipi í Kenía.[1]

Í Úganda eru 60 náttúruverndarsvæði, þar á meðal 10 þjóðgarar: Bwindi-þjóðgarðurinn og Rwenzori-þjóðgarðurinn (sem eru báðir á Heimsminjaskrá UNESCO[2]), Kibale-þjóðgarðurinn, Kidepo-þjóðgarðurinn, Mburo-vatns-þjóðgarðurinn, Mgahinga-þjóðgarðurinn, Elgon-þjóðgarðurinn, Murchison-fossa-þjóðgarðurinn, Elísabetarþjóðgarðuinn og Semuliki-þjóðgarðurinn.

Í Úganda er að finna mikinn fjölda dýrategunda, þar á meðal fjallagórillur í Bwindi-þjóðgarðinum, górillur og gullapa í Mgahinga-þjóðgarðinum og flóðhesta í Murchison-fossa-þjóðgarðinum]].[3]

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Úganda skiptist í fjóra landshluta; norðurhluta, austurhluta, miðhluta (Búganda) og vesturhluta. Hver landshluti skiptist í umdæmi sem nú eru fleiri en 100 talsins. Hvert umdæmi skiptist aftur í sýslur, undirsýslur, sóknir og þorp. Hvert umdæmi heitir eftir sínum höfuðstað.

Að auki eru sögulegu konungsríkin, Toro, Busoga, Bunyoro, Búganda og Rwenzururu enn viðurkennd. Tilraunir til að endurvekja sögulega konungdæmið Ankole hafa ekki borið árangur.

Íbúar

Íbúafjöldi Úganda var 9,5 milljónir árið 1969 en var orðinn 34,9 milljónir árið 2014. Íbúafjöldinn ókst um 10,6 milljónir milli manntalanna 2002 og 2014.[4] Miðaldur í Úganda er aðeins 15 ár, sem er með því lægsta sem gerist í heiminum.[5] Úganda er í fimmta sæti yfir lönd eftir frjósemishlutfalli. Nær 6 börn fæðast að meðaltali fyrir hverja konu (m.v. 2014).[5]

Um 80.000 íbúar af indverskum uppruna bjuggu í Úganda þar til Idi Amin hóf að hrekja Úgandabúa af asískum uppruna úr landinu árið 1972, sem varð til þess að fjöldinn minnkaði í um 7.000. Margt af því fólki sneri aftur eftir að Amin var steypt af stóli árið 1979. Langflestir úgandískir Indverjar búa í Kampala.[6]

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna voru 1,1 milljón flóttamenn í Úganda í nóvember 2018.[7] Flestir þeirra hafa komið frá nágrannalöndum, sérstaklega Suður-Súdan (68%) og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (24,6%).[7]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 „Maps“. Data Basin.
  2. „World Heritage List“. Sótt 4 júní 2013.
  3. Watching Wildlife: East Africa, Kenya, Tanzania, Uganda, Rwanda. Lonely Planet. 2009.
  4. Uganda Bureau Of Statistics (UBOS) (nóvember 2015). National Population and Housing Census 2014. Provisional Results (PDF) (Revised. útgáfa). Kampala, Uganda. bls. 6. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10 janúar 2017. Sótt 29. mars 2015.
  5. 5,0 5,1 Central Intelligence Agency (2009). „Uganda“. The World Factbook. Sótt 23 janúar 2010.
  6. „Uganda: Return of the exiles“. Independent.co.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 11 júní 2010. Sótt 19 maí 2010.. The Independent, 26 August 2005
  7. 7,0 7,1 „Uganda Comprehensive Refugee Response Portal“. Operational Data Portal. UNHCR. Afrit af upprunalegu geymt þann 27 ágúst 2018. Sótt 22 nóvember 2018.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.