Mið-Afríkulýðveldið

Mið-Afríkulýðveldið
Republique Centrafricaine
Ködörösêse tî Bêafrîka
Fáni Mið-Afríkulýðveldisins Skjaldarmerki Mið-Afríkulýðveldisins
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unité, Dignité, Travail
(franska: Eining, reisn, vinna)
Þjóðsöngur:
La Renaissance
Staðsetning Mið-Afríkulýðveldisins
Höfuðborg Bangví
Opinbert tungumál sangó og franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Faustin-Archange Touadéra
Forsætisráðherra Félix Moloua
Sjálfstæði
 • frá Frakklandi 13. ágúst, 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

622.984 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
113. sæti
5.990.855
10/km²
VLF (KMJ) áætl. 2017
 • Samtals 3,454 millj. dala (162. sæti)
 • Á mann 693 dalir (184. sæti)
VÞL (2019) 0.379 (188. sæti)
Gjaldmiðill CFA-franki (XAF)
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .cf
Landsnúmer +236

Mið-Afríkulýðveldið er landlukt land í Mið-Afríku, með landamæri að Tjad í norðri, Súdan í norðaustri, Suður-Súdan í austri, Austur-Kongó og Vestur-Kongó í suðri og Kamerún í vestri. Landið liggur rétt norðan við miðbaug, á milli vatnasviðs Kongófljóts, Tjadvatns og vatnasviðs Hvítu Nílar. Áður var það frönsk nýlenda sem hét Oubangui-Chari og var stjórnað út frá hagsmunum franskra plantekrueigenda. Fyrstu þrjá áratugina eftir að landið fékk sjálfstæði 1960 var það undir herforingjastjórnum. Borgaraleg stjórn tók við 1993 en hún hraktist frá völdum árið 2013.

Frakkar stofnuðu nýlenduna Oubangui-Chari á bökkum ánna Ubangi og Chari. Frá 1910 til 1960 var landið hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Það fékk heimastjórn árið 1958 og fullt sjálfstæði árið 1960. Frá því sjálfstæði fékkst hefur stjórnarfarið ýmist verið flokksræði, einræði eða herforingjastjórn. Árið 1972 lýsti forsetinn Jean-Bédel Bokassa sig keisara og nefndi landið Mið-Afríkukeisaradæmið. Frakkar áttu þátt í að steypa honum af stóli árið 1979. Frá aldamótunum 2000 hafa reglulega blossað upp átök milli stjórnarinnar og uppreisnarhópa. Í nóvember 2012 náðu uppreisnarmenn norðurhluta landsins á sitt vald. Síðan þá hafa vopnaðir hópar kristinna og múslima átt í blóðugum átökum um yfirráð í landinu.

Staðan í mannréttindamálum er mjög slæm. Mansal, þrælahald, og ofbeldi gagnvart konum og börnum er landlægt.

Mestur hluti Mið-Afríkulýðveldisins er grasslétta með eyðimerkurjaðar í norðri og regnskóga í suðri. Tveir þriðju hlutar landsins eru á vatnasviði árinnar Ubangi sem rennur suður í Kongófljót en þriðjungurinn á vatnasviði Chari sem rennur norður í Tjadvatn. Mið-Afríkulýðveldið býr yfir miklum náttúruauðlindum, úrannámum, olíulindum, gull- og demantanámum og timbri, en er engu að síður eitt af fátækustu löndum heims. Mið-Afríkulýðveldið er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Efnahagsbandalagi Mið-Afríkuríkja, Samtökum frönskumælandi ríkja og Samtökum hlutlausra ríkja.

Landfræði

Mið-Afríkulýðveldið er landlukt land um miðbik afríska meginlandsins. Það á landamæri að Kamerún, Tjad, Súdan og Suður-Súdan, Austur- og Vestur-Kongó. Landið liggur milli 2. og 11. breiddargráðu suður og 14. og 28. lengdargráðu austur. Mið-Afríkulýðveldið er 44. stærsta land heims. Það er svipað að stærð og Úkraína.

Stór hluti landsins er hæðótt gresja um 500 metra yfir sjávarmáli. Mikið af norðurhlutanum er innan vistsvæðis sem World Wildlife Fund hefur skilgreint sem Austursúdönsku gresjuna. Auk Fertit-hæða í norðausturhluta landsins eru dreifðar hæðir í suðvesturhlutanum. Í norðvestri eru Karrefjöll, 348 metra há granítháslétta.

Suðurmörk landsins markast af Kongófljóti. Í austri rennur Mbomou-á saman við Uele-á og mynda Ubangifljót sem líka myndar hluta suðurlandamæranna. Sangha-fljót rennur um vesturhéruð landsins en austurlandamærin markast af vatnasviði Nílar.

Talið er að um 8% landsins séu þakin skógi. Þéttustu skógana er að finna í suðurhlutanum. Skógar í Mið-Afríkulýðveldinu eru fjölbreyttir og þar er að finna efnahagslega mikilvægar trjátegundir eins og spjaldvið, sapelimahóní og sipomahoní. Skógeyðing nemur um 0,4% árlega og trjáþjófnaður er algengur.

Árið 2008 var Mið-Afríkulýðveldið það land heims sem bjó við minnsta ljósmengun.

Bangvísegulfrávikið er eitt stærsta og öflugasta segulsviðsfrávik yfirborðs jarðar og nær yfir nær allt landið.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Umdæmi Mið-Afríkulýðveldisins

Mið-Afríkulýðveldið skiptist í 16 umdæmi (préfectures), þar sem tvö eru efnahagsumdæmi og eitt er sjálfstætt sveitarfélag. Umdæmin skiptast svo í 71 undirumdæmi.

Umdæmin eru Bamingui-Bangoran, Basse-Kotto, Haute-Kotto, Haut-Mbomou, Kémo, Lobaye, Mambéré-Kadéï, Mbomou, Nana-Mambéré, Ombella-M'Poko, Ouaka, Ouham, Ouham-Pendé og Vakaga. Efnahagsumdæmin eru Nana-Grébizi og Sangha-Mbaéré, en sjálfstæða sveitarfélagið er höfuðborgin Bangví.

Efnahagslíf

Útflutningsafurðir Mið-Afríkulýðveldisins

Tekjur á mann í Mið-Afríkulýðveldinu eru oft metnar í kringum 400$ á ári, sem er með því lægsta sem gerist í heiminum. Sú upphæð er að mestu byggð á skráðum viðskiptum landsins, en tekur ekki tillit til óskráðrar verslunar með áfengi, fílabein, demanta, villidýrakjöt og alþýðulyf.

Gjaldmiðill landsins er miðafrískur CFA-franki sem einnig gildir í öðrum ríkjum sem áður voru hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Hann er festur við evruna. Mikilvægasta útflutningsafurð landsins eru demantar sem skapa milli 45 og 55% útflutningstekna. Talið er að milli 30 og 50% af heildarútflutningnum sé með ólöglegum leiðum.

Landbúnaður snýst aðallega um ræktun og sölu matjurta, eins og kassava, jarðhneta, maís, dúrru, hirsis, sesamfræja og mjölbanana. Hagvöxtur er rétt yfir 3%. Mikilvægi matarafurða umfram söluafurðir sést af því að framleiðsla á kassava, sem er uppistaða í mat flestra Mið-Afríkubúa, er milli 200.000 og 300.000 tonn á ári, meðan framleiðsla á bómull er aðeins um 25.000 til 45.000 tonn á ári. Flestir miðafrískir bændur fá tekjur sínar frá sölu á umframafurðum af matvælum, fremur en sölu á útflutningsafurðum. Stórir hlutar landsins framleiða næg matvæli til eigin nota en tsetsefluga stendur kvikfjárrækt fyrir þrifum.

Helsta innflutningsland Mið-Afríkulýðveldisins er Holland (19,5%), en þar á eftir koma Kamerún (9,7%), Frakkland (9,3%) og Suður-Kórea (8,7%). Helstu útflutningslönd eru Belgía (31,5%), Alþýðulýðveldið Kína (27,7%), Austur-Kongó (8,6%), Indónesía (5,2%) og Frakkland (4,5%).


Kort af Mið-Afríkulýðveldinu
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.