Hvíta Níl er fljót í Afríku og önnur aðalþverá Nílar (hin er Bláa Níl).
Áin á upptök sín í Viktoríuvatni og heitir þar Viktoríu-Níl. Hún rennur í vestur í gegnum Úganda, Kyogavatn og Albertsvatn þar sem nafn hennar breytist í Alberts-Níl. Þaðan rennur hún norður til Nimule þar sem hún rennur inn í Súdan. Þar er hún kölluð Fjalla-Níl þar sem hún rennur yfir flúðir og inn á sléttuna, í gegnum fenin í Sudd og um No-vatn þar til hún mætir Bláu Níl við Kartúm og myndar Níl. Leiðin frá Viktoríuvatni að Kartúm er um 3.700 km löng.