Simbabve

Lýðveldið Simbabve
Republic of Zimbabwe
Fáni Simbabve Skjaldarmerki Simbabve
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unity, Freedom, Work
(enska: Eining, frelsi, vinna)
Þjóðsöngur:
Kalibusiswe Ilizwe leZimbabwe
Staðsetning Simbabve
Höfuðborg Harare
Opinbert tungumál chewa, chibarwe, enska, kalanga, koisan (tsoa), nambya, ndau, ndebele, shangani, shona, táknmál, sotho, tonga, tswana, venda, xhosa
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Emmerson Mnangagwa
Varaforseti Constantino Chiwenga
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Yfirlýst (Ródesía) 11. nóvember, 1965 
 • Viðurkennt (Simbabve) 18. apríl, 1980 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
59. sæti
390.757 km²
1
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
79. sæti
16.159.624
26/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 41,031 millj. dala (119. sæti)
 • Á mann 2.621 dalir (160. sæti)
VÞL (2018) 0.563 (150. sæti)
Gjaldmiðill simbabveskur dalur (Z$)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .zw
Landsnúmer +263

Simbabve er landlukt land í sunnanverðri Afríku á milli ánna Sambesí og Limpopo. Það á landamæri að Suður-Afríku í suðri, Botsvana og Namibíu í vestri, Sambíu í norðri og Mósambík í austri. Landið var áður kallað Suður-Ródesía og síðan aðeins Ródesía frá 1965 til 1980 þegar það var nefnt Simbabve eftir fornri höfuðborg Monomotapaveldisins á 15., 16. og 17. öld. Höfuðborg Simbabve og stærsta borgin er Harare en næststærsta borgin er Bulawayo. Um 15 milljónir manna búa í Simbabve og þar eru 16 opinber tungumál, en enska, sjóna og ndebele eru algengust.

Frá 11. öld hefur þetta landsvæði verið hluti af ýmsum ríkjum, þar á meðal Rozvi og Mthwakazi, auk þess að vera þjóðleið fyrir verslun og fólksflutninga. Núverandi land Simbabve var fyrst afmarkað 1890 af Breska Suður-Afríkufélaginu undir stjórn Cecil Rhodes þegar félagið lagði undir sig Mashonaland og síðan Matabeleland 1893 eftir stríðsátök sem nefndust Fyrsta Matabelestríðið. Félagsræði í Ródesíu lauk 1923 þegar Suður-Ródesía var stofnuð sem bresk nýlenda með heimastjórn. Árið 1965 lýsti hvít minnihlutastjórn nýlendunnar einhliða yfir sjálfstæði sem Ródesía. Landið var einangrað á alþjóðavettvangi auk þess sem þar stóð yfir borgarastyrjöld milli stjórnarhersins og skæruliðahreyfinga þeldökkra þjóðernissinna. Átökunum lauk eftir 15 ár með friðarsamkomulagi sem kom á almennum kosningarétti og viðurkenningu á sjálfstæði landsins 1980. Simbabve gerðist aðili að Breska samveldinu en var rekið þaðan 2002 fyrir brot stjórnar Robert Mugabe á alþjóðalögum.

Í dag telst Simbabve lýðveldi með forsetaræði. Fyrsti forsætisráðherra og síðar annar forseti landsins var Robert Mugabe sem var við völd allt frá því borgarastyrjöldinni lauk til ársins 2017. Stjórn Mugabes einkenndist hin síðari ár af bágum efnahag og óðaverðbólgu. Hún lá einnig undir ámæli fyrir mannréttindabrot. Óánægja vegna hruns hagkerfis þjóðarinnar, útbreiddrar fátæktar og atvinnuleysi leiddi til aukins stuðnings við Lýðræðishreyfingu Morgan Tsvangirai og samþykkt var í kjölfar kosninga árið 2008 að hann myndi deila völdum með Mugabe sem forsætisráðherra, sem hann gerði á árunum 2009 til 2013. Mugabe var að endingu steypt af stóli árið 2017 og Emmerson Mnangagwa gerður að forseta í hans stað.[1]

Simbabve er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Þróunarbandalagi sunnanverðrar Afríku, Afríkusambandinu og efnahagsbandalaginu COMESA.

Heiti

Heitið „Simbabve“ er dregið af sjónaheiti Simbabve miklu, fornrar borgar í suðausturhluta landsins. Leifar hennar eru nú varðveittar sem menningarminjar. Til eru tvær kenningar um merkingu nafnsins. Ýmsir telja að „Zimbabwe“ sé dregið af dzimba-dza-mabwe, sem í karanga-mállýsku sjónamáls merkir „steinhús“ (dzimba = „hús“ (ft.) og mabwe = „steinar“).[2][3][4] Sjónar sem tala karanga búa í nágrenni við Simbabve miklu í Masvingo-héraði. Fornleifafræðingurinn Peter Garlake setti fram þá tilgátu að „Zimbabwe“ sé stytting á dzimba-hwe, sem merkir „virðuleg hús“ á zezuru-mállýskunni og vísar oftast til heimila eða grafa höfðingja.[5]

Simbabve var áður þekkt sem Suður-Ródesía (1898), Ródesía (1965) og Simbabve Ródesía (1979). Simbabve var fyrst notað sem tilvísun í landið af þjóðernissinnanum Michael Mawema árið 1960,[6] en flokkur hans, Þjóðarflokkur Simbabve, tók fyrstur að nota nafnið opinberlega árið 1961.[7] „Ródesía“ var aftur dregið af ættarnafni Cecil Rhodes sem átti upptökin að nýlendustofnun Breta á svæðinu seint á 19. öld, og þjóðernissinnum þótti þannig óviðeigandi.[6]

Samkvæmt Mawema héldu þjóðernissinnar fund árið 1960 til að velja landinu nýtt nafn. Þar komu fram uppástungur eins og „Matshobana“ og „Monomotapa“ áður en „Zimbabwe“ varð ofan á.[8] Þjóðernissinnar í Matabelelandi höfðu líka sett fram tillöguna „Matopos“ eftir Matopos-hæðum sunnan við Bulawayo.[7]

Í byrjun var óljóst hvernig ætti að nota nýja heitið. Í bréfi frá Mawema frá 1961 er talað um „Zimbabweland“[7]. Árið 1962 var „Zimbabwe“ orðið það viðurkennt að það var almennt notað af þjóðernishreyfingu þeldökkra íbúa landsins.[6] Í viðtalið árið 2001 minntist Edson Zvobgo þess að Mawema hafi nefnt þetta heiti á baráttufundi „og það hélst, og þannig var það“.[6] Hinar ýmsu þjóðernishreyfingar notuðu nafnið í framhaldinu í seinni herförum gegn stjórn Ródesíu í Kjarrstríðinu 1964 til 1979. Helstu flokkarnir á því stigi voru Zimbabwe African National Union (ZANU), sem Robert Mugabe leiddi, og Zimbabwe African People's Union (ZAPU), sem Joshua Nkomo leiddi.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Héruð Simbabve.

Simbabve er miðstýrt ríki sem skiptist í átta héruð og tvær borgir með stjórnsýslulega stöðu héraðs. Hvert hérað er með héraðshöfuðborg þar sem stjórnsýsla héraðsins er venjulega staðsett.[9]

Hérað Höfuðstaður
Bulawayo Bulawayo
Harare Harare
Manicaland Mutare
Mið-Mashonaland Bindura
Austur-Mashonaland Marondera
Vestur-Mashonaland Chinhoyi
Masvingo Masvingo-borg
Norður-Matabeleland Lupane-umdæmi
Suður-Matabeleland Gwanda
Midlands Gweru

Nöfnin á flestum héruðunum miðast við skiptinguna milli Mashonalands og Matabelelands á nýlendutímanum: Mashonaland var fyrsta landsvæðið sem Breska Suður-Afríkufélagið lagði undir sig, og Matabeleland er svæðið sem það náði eftir Fyrsta Matabelestríðið. Þessi landsvæði svara nokkurn veginn til landa Sjóna og Matabelea, þótt aðrar þjóðir búi líka í þessum héruðum. Yfir hverju héraði er héraðslandstjóri sem er skipaður af forseta landsins. [10]

Héraðsstjóri leiðir héraðsstjórnina. Hann er skipaður af nefnd um almannaþjónustu. Önnur stjórnsýsla á héraðsstigi fer fram gegnum héraðsskrifstofur ríkisstofnana.[11]

Héruðin skiptast í 59 umdæmi og 1.200 sveitarfélög. Héraðsstjóri er skipaður af nefnd um almannaþjónustu. Auk þess er dreifbýlisráð sem skipar framkvæmdastjóra. Dreifbýlisráðið er skipað kjörnum sveitarstjórnarmönnum, héraðsstjóra og einum fulltrúa hefðbundinna ættbálkahöfðingja samkvæmt hefðarrétti.[12]

Á sveitarstjórnarstigi er þróunarnefnd sveitarfélagsins, sem skipuð er kjörnum sveitarstjóra, höfðingjum (hefðbundum leiðtogum) og fulltrúum þróunarnefnda þorpanna. Sveitarfélögin skiptast í þorp, og í hverju þorpi er þróunarnefnd og höfuðsmaður (hefðbundinn leiðtogi sem heyrir undir höfðingja).[13]

Tilvísanir

  1. McKenzie, David; McKirdy, Euan; Dewan, Angela (24. nóvember 2017). Zimbabwe's 'Crocodile' Emmerson Mnangagwa sworn in as leader. CNN. Sótt 27. nóvember 2017.
  2. „Zimbabwe – big house of stone“. Somali Press. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. maí 2011. Sótt 14. desember 2008.
  3. Lafon, Michel (1994). „Shona Class 5 revisited: a case against *ri as Class 5 nominal prefix“ (PDF). Zambezia. 21: 51–80.
  4. Vale, Lawrence J. (1999). „Mediated monuments and national identity“. Journal of Architecture. 4 (4): 391–408. doi:10.1080/136023699373774.
  5. Garlake, Peter (1973). Great Zimbabwe: New Aspects of Archaeology. London, UK: Thames & Hudson. bls. 13. ISBN 978-0-8128-1599-3.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 Fontein, Joost (september 2006). The Silence of Great Zimbabwe: Contested Landscapes and the Power of Heritage (First. útgáfa). London: University College London Press. bls. 119–20. ISBN 978-1844721238.
  7. 7,0 7,1 7,2 Ndlovu-Gatsheni, Sabelo J. (2009). Do "Zimbabweans" Exist? Trajectories of Nationalism, National Identity Formation and Crisis in a Postcolonial State (First. útgáfa). Bern: Peter Lang AG. bls. 113–14. ISBN 978-3-03911-941-7.
  8. „What's in a Name? Welcome to the 'Republic of Machobana'“. Read on. Harare: Training Aids Development Group: 40. 1991.
  9. „The World Factbook – Zimbabwe“. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. apríl 2020. Sótt 4. desember 2020.
  10. „Constitution of the Republic of Zimbabwe“ (PDF). Parliament of Zimbabwe. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 21. desember 2008. Sótt 19. desember 2008.
  11. „Provincial Councils and Administration Act (Chapter 29:11)“ (PDF). Parliament of Zimbabwe. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. desember 2013. Sótt 19. desember 2008.
  12. „Rural District Councils Act (Chapter 29:13)“ (PDF). Parliament of Zimbabwe. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. desember 2013. Sótt 19. desember 2008.
  13. „Traditional Leaders Act (Chapter 29:17)“ (PDF). Parliament of Zimbabwe. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4. september 2015. Sótt 19. desember 2008.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.