London

London
Lundúnir
Efst: Sjóndeildarhringur Lundúnaborgar; Miðja: Westminster-höll; Neðst til vinstri: Tower-brúin; Neðst til hægri: Lundúnaturn.
Efst: Sjóndeildarhringur Lundúnaborgar; Miðja: Westminster-höll; Neðst til vinstri: Tower-brúin; Neðst til hægri: Lundúnaturn.
Viðurnefni: 
The Great Smoke, The Global Village, LDN
London er staðsett í Bretlandi
London
London
Staðsetning í Bretlandi
Hnit: 51°30′26″N 0°7′39″V / 51.50722°N 0.12750°V / 51.50722; -0.12750
Ríki Bretland
Land England
SýslaStór-Lundúnasvæðið
Stofnun50 e.Kr. sem Londinium
UndirskiptingarLundúnaborg og 32 borgarhlutar
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriSadiq Khan (L)
Flatarmál
 • Heild1.572,03 km2
 • Þéttbýli
1.737,9 km2
 • Stórborgarsvæði
8.382 km2
 • Lundúnaborg2,89 km2
Hæð yfir sjávarmáli11 m
Mannfjöldi
 (2021)
 • Heild8.799.800[1]
 • Þéttleiki5.598/km2
 • Þéttbýli9.787.426
 • Stórborgarsvæði14.800.000
 • Lundúnaborg
8.600[1]
TímabeltiUTC+00:00 (GMT)
 • SumartímiUTC+01:00 (BST)
Vefsíðawww.london.gov.uk Breyta á Wikidata

London (eða Lundúnir á íslensku) er höfuðborg Englands og Bretlands. London er þriðja fjölmennasta borg Evrópu á eftir Moskvu og Istanbúl. Í London búa um 8,8 milljónir (2021). Allt að 14,8 milljónir manna búa á stórborgarsvæði London (2023) sem er það fjölmennasta í Vestur-Evrópu. Borgin stendur við endann á 80 km löngum árósum á bökkum árinnar Thames í suðausturhluta Englands á Stóra-Bretlandi. Þar hefur verið byggð í meira en tvö þúsund ár. Lundúnaborg er heiti á hinni fornu miðborg London þar sem nú er miðja fjármálahverfisins. Lundúnaborg var stofnuð af Rómverjum í kringum árið 50 og fékk nafnið Londinium. Ríkisstjórn og þing Bretlands (og áður Englands) hefur um aldir verið í Westminster, vestan við Lundúnaborg. Frá 19. öld hefur heitið „London“ vísað til stórborgarsvæðisins sem óx í kringum þessa tvo borgarkjarna og skiptist sögulega milli fimm sýslna: Middlesex, Essex, Surrey, Kent og Hertfordshire.

London er heimsborg í þeim skilningi að hún er ein af helstu viðskipta-, stjórnmála- og menningarborgum heimsins og hefur verið um árabil.[5][6][7] Borgin hefur mjög mikil áhrif á heimsvísu og er þekkt fyrir fjármálastarfsemi, næturlíf, tísku og listir, menntun, heilsugæslu, vísindi, tækni, samgöngur, fjölmiðlun og ferðaþjónustu.[8][9] London er ein af stærstu fjármálamiðstöðvum heims og öflugasta efnahagslega miðstöð Evrópu.[10] Í London er hlutfallslega mestur fjöldi menntastofnana á háskólastigi[11] og þar eru nokkrir af hæst metnu skólum heims, eins og Imperial College London og University College London.[12][13][14][15] London er sú borg í Evrópu sem flestir ferðast um og hefur fjölsóttasta safn flugvalla í heimi.[16] Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar er elsta neðanjarðarlestakerfi heims.[17]

Í London er sannkallað fjölmenningarsamfélag: yfir 300 mismunandi tungumál eru töluð þar.[18][19] Rétt innan við 10 milljónir búa innan marka Stór-Lundúnasvæðisins sem gerir borgina þá þriðju stærstu í Evrópu miðað við íbúa innan borgarmarka.[20] Í borginni búa 13,4% íbúa Bretlands og 16% íbúa Englands.[21] Samkvæmt Eurostat var London með stærsta stórborgarsvæði (samanlögð samfelld byggð og atvinnusóknarsvæði) Evrópusambandsins fyrir útgöngu Breta árið 2019.[22]

Fjórir staðir í London eru á heimsminjaskrá UNESCO: Lundúnaturn, söguleg byggð í Greenwich, Konunglegi grasagarðurinn og svæðið umhverfis Westminsterhöll, Westminster Abbey og kirkja heilagrar Margrétar. Konunglega stjörnuathugunarstöðin í Greenwich er sá staður sem núllbaugur jarðar miðast við og staðaltími Greenwich.[23] Í borginni eru margir frægir ferðamannastaðir eins og Buckingham-höll, London Eye, Piccadilly Circus, Dómkirkja heilags Páls, Tower-brúin og Trafalgar-torg. Í London eru mörg söfn, gallerí, bókasöfn og menningarmiðstöðvar eins og Þjóðminjasafn Bretlands, Listasafn Bretlands, Náttúrugripasafnið í London, Tate Modern, Þjóðbókasafn Bretlands og fjölmörg leikhús í West End.[24] Stórir íþróttaviðburðir sem fara reglulega fram í London eru meðal annars úrslitaleikur enska bikarsins, Wimbledon-mótið í tennis og Lundúnamaraþonið. Árið 2012 varð London fyrsta borgin sem hélt sumarólympíuleikana í þriðja sinn.[25]

Saga

Rómverjar

Talið er að Rómverjar hafi sest að þar sem nú er London um 43 e.Kr., í kjölfar innrásarinnar í Bretland, og nefnt byggðina Londinium. Þó er talið að uppruni nafnsins sé keltneskur, en Keltar voru fyrir í landinu þegar Rómverjar komu.[26]

Árið 61 réðist keltneski ættbálkurinn Íkenar, undir stjórn Bóadíkeu drottningar, á borgina og brenndi hana til kaldra kola. Upp úr árinu 100 hafði borgin vaxið töluvert og var London þá orðin stærri en Colchester, annað helsta vígi Rómverja á Englandi. Næstu aldirnar stækkaði London og náði 60 þúsund manna íbúatölu áður en borginni tók að hnigna samfara hnignun Rómaveldis. Á 5. öld var hún nánast yfirgefin.

Engilsaxar og víkingar

Um 600 höfðu Engilsaxar stofnað þar nýtt aðsetur sem þeir nefndu Lundenwic, í um það bil 1 km fjarlægð frá gamla rómverska virkinu, á svipuðum slóðum og þar sem nú er Covent Garden. Þar var líklegast höfn við mynni Fleet-árinnar fyrir fiskveiðar og verslun. Verslun blómstraði þar til hrikalegt bakslag kom árið 851. Það ár brugðust varnir nýju borgarinnar algerlega gegn víkingum sem rændu byggðina og brenndu hana svo til grunna. Víkingatíminn stóð stutt. Tuttugu árum síðar samdi Alfreð mikli, nýr Englandskonungur, um frið við víkinga og færði borgina aftur á sinn upprunalega stað, inn fyrir rómversku virkisveggina. Hann kallaði borgina „Lundúnaborg“ (Lundenburgh). Upprunalega borgin fékk nafnið Ealdwīc („gamla borg“), sem í dag er Aldwych.

Eftir þetta dafnaði London undir stjórn ýmissa konunga og varð mikilvæg alþjóðleg verslunarborg og stjórnmálamiðstöð. Árásir víkinga hófust aftur seint á 10. öldinni og náðu hámarki um 1013 þegar þeir settust um borgina undir stjórn danska konungsins Knúts ríka. Víkingar neyddu enska konunginn Aðalráð til að flýja. Í annarri árás skömmu síðar, náði her Aðalráðs að vinna sigur á víkingum með því að rífa niður Tower-brú með danska setuliðinu á henni. Enn einu sinni var London komið á réttan kjöl.

Knútur tók við ensku krúnunni árið 1017 og stjórnaði borg og landi allt til 1042. Við lát hans komst krúnan aftur í hendur Engilsaxa þegar stjúpsonur hans, Játvarður góði, tók við völdum. Játvarður endurreisti Westminster Abbey og stækkaði höllina í Westminster. Á þessum tíma var London stærsta og auðugasta borgin á öllu Englandi, en þrátt fyrir það var aðalaðsetur stjórnarinnar í Winchester.

Normannar og miðaldaborgin

Lundúnaborg árið 1300.

Í kjölfar sigurs Normanna í orrustunni við Hastings var Vilhjálmur bastarður, þáverandi hertogi af Normandy, krýndur konungur Englands. Krýningin fór fram í nýbyggðu Westminster-klaustri, á jóladag árið 1066. Vilhjálmur veitti borgurum London ákveðin forréttindi á meðan á byggingu kastala í suðvesturhorni borgarinnar stóð, til að halda þeim góðum. Þessi kastali var síðar stækkaður af öðrum konungum sem Lundúnaturn og gegndi fyrst hlutverki konungshallar, en varð síðar fangelsi.

Árið 1097 hóf Vilhjálmur 2. að byggja Westminster-salinn, nálægt klaustri með sama nafni. Salurinn varð grunnurinn að nýrri höll í Westminster, sem var aðalaðsetur konungshirðarinnar á miðöldum. Westminster varð fljótlega aðsetur hirðdómsstólsins og stjórnvalda og er það enn þann dag í dag. Á meðan var nágrannaborgin, Lundúnaborg, miðstöð viðskipta og verslunar og dafnaði undir eigin stjórn. Á endanum uxu borgirnar saman og mynduðu London nútímans. London tók við af Winchester sem höfuðborg Englands á 12. öld.

Hörmungar riðu yfir þegar svarti dauði geisaði um miðja 14. öldina, en þriðjungur borgarbúa lét lífið í farsóttinni.[27] London slapp að mestu við innrásir og borgarastríð á miðöldum, ef frá er skilin enska bændabyltingin árið 1381.

Árnýöld

Eftir að England vann sigur á spænska sjóhernum árið 1588, gerði stjórnarfarslegur stöðugleiki London kleift að stækka og dafna enn frekar. Árið 1603, varð Jakob 6. konungur bæði Englands og Skotlands. Andkaþólsk stefna hans gerði hann afar óvinsælan meðal kaþólskra Englendinga. Þann 5. nóvember 1605 var gerð tilraun til að ráða hann af dögum sem enn er minnst á Guy Fawkes-nótt.

Lundúnaplágan mikla sem stóð frá 1665 til 1666 olli miklum usla í London á 17. öldinni. Þetta var síðasta stóra plágan af völdum kýlapestar í Evrópu. Strax í kjölfarið kom Lundúnabruninn mikli þar sem stór hluti borgarinnar brann. Líklega hefur bruninn valdið dauða smitberandi rotta og þannig átt þátt í að binda enda á pláguna. Endurreisn borgarinnar tók yfir tíu ár.

Nútíminn

Á 18. öld einkenndist líf í borginni af glæpum og fátækt. Löggæsla var efld og refsingar voru þungar; Yfir 200 brot vörðuðu dauðarefsingu. Frá 1835 til 1925 var London stærsta borg heims og jafnframt stærsta fjármálamiðstöðin. Borgin varð fyrir sprengjuárásum Þjóðverja í fyrri og seinni heimsstyrjöld þar sem 30.000 létu lífið. Stuttu eftir stríð voru þó sumarólympíuleikarnir haldnir í borginni. Innflytjendum frá Breska samveldinu fjölgaði.

Á 7. og 8. áratugnum varð borgin miðstöð fyrir ýmsar menningarbyltingar ungmenna. Pönkið varð til þar um miðjan 8. áratuginn. Í tilefni af aldamótunum 2000 voru reistar ýmsar stórbyggingar eins og Þúsaldarhvelfingin og London Eye.

Þann 6. ágúst 2011 brutust óeirðir út í mörgum hverfum í London vegna dauða Mark Duggan, manns sem var skotinn til bana af lögreglunni.

Sumarólympíuleikarnir voru á ný haldnir í borginni árið 2012. Borgarbúum hefur fjölgað frá 9. áratugnum þegar þeir voru um 6,8 milljónir. Árið 2021 voru þeir tæplega 9 milljónir.

Landafræði

Vestur- og Mið-London séð frá gervihnetti.

Afmörkun London er óljós vegna þess hvernig borgin hefur vaxið. Miðborgin í London er nefnd Lundúnaborg (City of London) sem í daglegu tali er oft nefnd „the City“ („borgin“) eða „the Square Mile“ („fermílan“). Borgin margfaldaðist að stærð á Viktoríutímabilinu og aftur á millistríðsárunum, en stöðvaðist á fimmta áratugnum vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Seinna stöðvaðist uppbygging borgarinnar vegna takmarkana sem borgarstjórnin setti á útþenslu hennar út í nærliggjandi sveitir.

Lundúnaborg liggur í miðju Stór-Lundúnasvæðisins og er umkringd mörgum borgarhlutum. Þetta svæði heyrir undir stjórn Stór-Lundúnasvæðisins. Stórborgarsvæði Stór-Lundúnasvæðisins nær yfir svæði sem er stærra en Stór-Lundúnasvæðið. Utan við þetta svæði eru margar borgir, bæir og þorp sem eru hluti af atvinnusvæði Lundúna.

Fjörutíu prósent Stór-Lundúnasvæðisins eru í póstumdæmi London þar sem orðið „London“ kemur fyrir í heimilisföngum. Símanúmerasvæði London nær yfir svipað svæði, enda þótt sumir hlutar Stór-Lundúnasvæðisins noti ekki London-númer. Stundum er M25-hraðbrautin notuð til að afmarka Lundúnasvæðið og formleg landamæri Stór-Lundúnasvæðisins fara saman við hraðbrautina á nokkrum stöðum. Stór-Lundúnasvæðinu er skipt í Innri London og Ytri London fyrir utanumhald um tölfræði. Oft er líka talað um svæðin Norður-London, Suður-London, Austur-London og Vestur-London í almennu tali.

Lögregluumdæmi Metropolitan-lögreglunnar nær yfir Stór-Lundúnasvæðið. Miðpunktur borgarinnar í nútímanum er Charing Cross, en Rómverjar merktu miðpunkt rómversku borgarinnar Londinium með steini sem enn er hægt að sjá í Cannon Street.

Borgarhlutar

Mörg hefðbundin hverfi eru á Lundúnasvæðinu og ýmis heiti notuð yfir þau (til dæmis Bloomsbury, Knightsbridge, Mayfair, Whitechapel og Fitzrovia). Þetta eru annaðhvort óformleg heiti eða gömlu heiti þorpanna og bæjanna sem eru núna orðin hluti af borginni. Þessi heiti hafa verið í notkun samkvæmt venju án formlegrar afmörkunar.

Frá 1965 skiptist Stór-Lundúnasvæðið í þrjátíu og tvo borgarhluta. Raunar skiptist svæðið í 33 hluta, en Lundúnaborg í miðju svæðisins er hefðarsýsla og ekki formlegur borgarhluti.

  1. Lundúnaborg
  2. Westminsterborg
  3. Kensington og Chelsea*
  4. Hammersmith og Fulham
  5. Wandsworth
  6. Lambeth
  7. Southwark
  8. Tower Hamlets
  9. Hackney
  10. Islington
  11. Camden
  12. Brent
  13. Ealing
  14. Hounslow
  15. Richmond
  16. Kingston*
  17. Merton
  1. Sutton
  2. Croydon
  3. Bromley
  4. Lewisham
  5. Greenwich
  6. Bexley
  7. Havering
  8. Barking og Dagenham
  9. Redbridge
  10. Newham
  11. Waltham Forest
  12. Haringey
  13. Enfield
  14. Barnet
  15. Harrow
  16. Hillingdon
†† ekki borgarhluti
* konunglegur borgarhluti


Menning

Verslun, menning og afþreying

Piccadilly Circus

Margir skemmtistaðir í London eru staðsettir á West End-svæðinu í Westminsterborg. Leicester Square er torg í West End sem mörg kvikmyndahús standa við og þar eru haldnar alþjóðlegar frumsýningar kvikmynda. Nálægt torginu er Piccadilly Circus sem er þekkt fyrir stórar neonljósaauglýsingar.[28] Þar eru mörg leikhús og barir, krár, næturklúbbar og veitingahús. Í grenndinni er Chinatown, kínverska hverfið í London, og austan við það er Covent Garden, verslunarhverfi þar sem eru margar sérverslanir.

Konunglegi breski ballettinn (Royal Ballet), Enski þjóðarballettinn (English National Ballet), Konunglega breska óperan (Royal Opera) og Enska þjóðaróperan (National English Opera) eru öll staðsett í London og sýna í leikhúsunum Royal Opera House, Coliseum, Sadler’s Wells og Royal Albert Hall, auk þess sem þau fara með sýningar um Bretland.[29]

Í Islington er gatan Upper Street, sem nær 1,6 km norður frá Angel og er með fleiri bari og veitingahús en nokkur önnur gata í Bretlandi.[30] Eitt fjölsóttasta verslunarhverfi Evrópu er í Oxford Street, verslunargötu sem er næstum 1,6 km að lengd og því lengsta verslunargata í heimi. Þar eru margar búðir og stórverslanir eins og Selfridges.[31] Stórverslunin Harrods er í Knightsbridge sem liggur suðvestanmegin við Oxford Street. Hönnuðirnir Vivienne Westwood, Galliano, Stella McCartney, Manolo Blahnik, Jimmy Choo og fleiri hafa aðallega starfað í London. Lista- og tískuhönnunarskólar í London eru frægir um allan heim enda er London alþjóðleg tískumiðstöð eins og París, Mílanó og New York-borg.

Minjasöfn og listasöfn

Mörg minjasöfn, listasöfn og aðrar stofnanir eru staðsett í London. Náttúrugripasafnið (um líf- og jarðfræði), Vísindasafnið og Victoria og Albert-safnið (um hönnun og tísku) eru öll í „safnahverfinu“ í South Kensington. Þjóðminjasafn Bretlands er staðsett í Bloomsbury og hýsir söfn gripa frá öllum heimshornum. Þjóðbókasafn Bretlands við St Pancras er þjóðbókasafn Bretlands og hýsir yfir 150 milljónir hluta. Í borginni eru líka stór listasöfn, sérstaklega á Listasafni Bretlands og í söfnunum Tate Britain og Tate Modern.

Íþróttir

London hefur hýst Sumarólympíuleikana þrisvar: 1908, 1948 og 2012 sem er oftar en nokkur önnur nútímaborg. Árið 2017 voru Alþjóðafrjálsíþróttaleikarnir í borginni.

Vinsælasta íþróttin í London er knattspyrna og árið 2022 átti borgin sjö lið í ensku úrvalsdeildinni: Arsenal, Brentford FC, Chelsea FC, Crystal Palace, Fulham FC, Tottenham Hotspur og West Ham United. Minni knattspyrnulið eru til dæmis A.F.C. Wimbledon, Barnet F.C., Bromley F.C., Charlton Athletic, Dagenham & Redbridge F.C., Leyton Orient, Millwall F.C., Queens Park Rangers og Sutton United. Frá 1924 hefur Wembley-leikvangurinn verið heimavöllur enska landsliðsins í knattspyrnu.

Tvö ruðningslið frá London eru í efstu deild: Harlequins og London Irish.

Wimbledon-mótið í tennis hefur verið haldið frá 1877 í Wimbledon í Suðvestur-London og er elsta og virtasta alþjóðatenniskeppni heims.

London hefur hýst fjórar heimsmeistarakeppnir í krikket. Aðrir stórviðburðir í borginni eru Lundúnamaraþonið og háskólaróðrarkeppnin á Thames.

Samgöngur

London er með viðamikið samgöngukerfi og samgöngur eru eitt af fjórum sviðum stefnumótunar sem heyra undir borgarstjórn London.[32] Fjárhagsleg völd borgarstjórnarinnar yfir lestarkerfinu eru hins vegar takmörkuð. Til dæmis stjórnar hún ekki þunglestarkerfinu, en í nóvember 2007 tók hún yfir stjórn North London Railway og London Overground.[33] Transport for London er opinbert fyrirtæki sem stjórnar almenningssamgangnakerfinu. Almenningssamgöngur í London eru eitt af mest notuðu almenningssamgöngukerfunum í heimi, en á oft erfitt með stíflur og áreiðanleika á háannatímum. Samgöngukerfið í London hefur verið kallað það besta í heimi.[34]

Járnbrautir

Westminster járnbrautarstöð í neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar.

Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar er hjarta samgöngukerfisins. Það rekur ellefu leiðir sem tengjast saman á ýmsum stöðum. Það var stofnað árið 1863 og er elsta, lengsta og mest notaða neðanjarðarlestakerfi heims. Kerfið var með fyrstu rafdrifnu brautarlínu í heimi sem hét City & South London Railway og var tekin í notkun árið 1890. Um það bil 3 milljónir manna ferðast daglega í neðanjarðarlestkerfinu, sem gera um milljarð ferða árlega. Neðanjarðarlestakerfið þjónar miðborg Lundúna og mörgum úthverfum í norðurhluta borgarinnar, en í suðurhlutanum er víðtækt úthverfalestakerfi ofanjarðar.

Annað lestakerfi, sem heitir Docklands Light Railway (eða DLR) og notar minni og léttari lestir, var tekið í notkun árið 1987. Þetta kerfi nær yfir Austur-London og Greenwich, báðum megin við Thames-ána. Vöruflutninga- og langferðalestar fara ekki í gegnum miðju borgarinnar heldur ná að einni af fjórtán endastöðvum í kringum sögulega miðju borgarinnar. Á þessu er ein undantekning: Thameslink-lestin sem First Capital Connect stjórnar, og hefur endastöðvar í Bedford, Brighton og Moorgate. Frá tíunda áratugnum gerði aukið álag á léttlestarkerfið og neðanjarðarlestkerfið að verkum að kröfur urðu háværari, sérstaklega frá viðskiptalífinu og bæjarstjórn Lundúnaborgar, um að Crossrail-verkefninu yrði hrint í framkvæmd, en það er hátíðnilestarkerfi sem liggur frá austri til vesturs (að hluta neðanjarðar) og átti að kosta um 10 milljarða breskra punda. Leyfi fékkst fyrir verkefninu í október árið 2007 og nýja lestarlínan, Elísabetarlínan, hóf starfsemi í maí 2022. Kostnaður við verkefnið stóð þá í rúmlega 18 milljörðum punda.[35]

Háhraðalestar Eurostar tengja St Pancras-lestarstöðina við borgirnar Lille og París í Frakklandi og Brussel í Belgíu.

Strætisvagnar

Tveggja hæða strætisvagn.

Strætisvagnakerfi Lundúna er eitt hið stærsta í heimi. Það starfar allan sólarhringinn, með 9.300 strætisvagna, 675 leiðir og um 5 milljónir farþega daglega.[36]

Flugvellir

London er stór alþjóðleg flugmiðstöð og hefur stærstu borgarlofthelgi heimsins. Átta flugvellir hafa „London“ í nafni sínu, en megnið af umferðinni fer um fimm flugvelli. London Heathrow-flugvöllur er einn fjölsóttasti flugvöllur í heimi og þar eru höfuðstöðvar British Airways. London Gatwick-flugvöllur hefur ámóta mikla umferð og þangað fljúga nokkur lággjaldaflugfélög. Bæði London Stansted-flugvöllur og London Luton-flugvöllur þjóna lággjaldaflugfélögum á skemmri leiðum. London City-flugvöllur er minnsti flugvöllurinn í London og er aðallega fyrir viðskiptaferðir. Stækkun flugvallanna í London er mikið ágreiningsmál.

Athugasemdir

  1. Miðað við 2011.
  2. Miðað við 2023.

Heimildir

  1. 1,0 1,1 „Population and household estimates, England and Wales: Census 2021“. ons.gov.uk. Office for National Statistics. Sótt 15. október 2022.
  2. „London weather map“. The Met Office. Afrit af uppruna á 3. ágúst 2018. Sótt 26. ágúst 2018.
  3. „2011 Census – Built-up areas“. ONS. Sótt 15. október 2022.
  4. „Major agglomerations of the world“. CityPopulation.de. Sótt 20. apríl 2023.
  5. „Global Power City Index 2020“. Institute for Urban Strategies – The Mori Memorial Foundation. Sótt 25. mars 2021.
  6. Adewunmi, Bim (10. mars 2013). „London: The Everything Capital of the World“. The Guardian. London.
  7. „What's The Capital of the World?“. More Intelligent Life. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. september 2013. Sótt 4. júlí 2013.
  8. „Leading 200 science cities“. Nature. Sótt 10. júní 2022.
  9. „The World's Most Influential Cities 2014“. Forbes. 14. ágúst 2014. Sótt 25. mars 2021.; Dearden, Lizzie (8. október 2014). „London is 'the most desirable city in the world to work in', study finds“. The Independent. London. Sótt 25. mars 2021.
  10. „London is Europe's leading economic powerhouse, says new report“. London.gov.uk. Sótt 5. janúar 2024.
  11. „Number of international students in London continues to grow“ (Press release). Greater London Authority. 20. ágúst 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. nóvember 2010.
  12. „Times Higher Education World University Rankings“. 19. september 2018.
  13. „Top Universities: Imperial College London“.
  14. „Top Universities: LSE“. Sótt 21. september 2019.
  15. „QS World University Rankings 2022“. Top Universities (enska). Sótt 19. september 2022.
  16. „Revealed: The most crowded skies on the planet“. The Telegraph. Sótt 2. desember 2023. „London: Our capital's collective airport system is the busiest in the whole world. A total of 170,980,680 passengers.“
  17. „London Underground“. Transport for London (bresk enska). Sótt 6. maí 2022.
  18. „Languages spoken in the UK population“. National Centre for Language. 16. júní 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2008.
  19. „CILT, the National Centre for Languages“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. febrúar 2005. Sótt 16. ágúst 2007.
  20. „Largest EU City. Over 7 million residents in 2001“. Office for National Statistics. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. janúar 2009. Sótt 28. júní 2008.
  21. „Focus on London – Population and Migration | London DataStore“. Greater London Authority. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2010. Sótt 10. febrúar 2012.
  22. „Metropolitan Area Populations“. Eurostat. 18. júní 2019. Sótt 4. desember 2019.
  23. „Lists: United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland – Properties inscribed on the World Heritage List“. UNESCO World Heritage Centre. Sótt 26. nóvember 2008.
  24. Blackman, Bob (25. janúar 2008). „West End Must Innovate to Renovate, Says Report“. What's on Stage. London. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. apríl 2011. Sótt 15. nóvember 2010.
  25. „IOC elects London as the Host City of the Games of the XXX Olympiad in 2012“ (Press release). International Olympic Committee. 6. júlí 2005. Afrit af uppruna á 17. október 2011. Sótt 3. júní 2006.
  26. Svavar Sigmundsson. „Af hverju eru erlend borgarnöfn þýdd eða þeim breytt í íslensku máli, til dæmis Lundúnir, Kaupmannahöfn, o.s.frv.?“. Vísindavefurinn.
  27. Ibeji, Mike (10. mars 2011). „Black Death“. BBC. Sótt 12. mars 2019.
  28. „Piccadilly Lights“. Land Securities. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. maí 2011. Sótt 3. nóvember 2008.
  29. „Theatres and concert halls“. Your London. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. janúar 2008. Sótt 6. júní 2008.
  30. „2001: Public houses“. British Broadcasting Corporation. Sótt 4. júní 2008.
  31. „Oxford Street gets its own dedicated local police team“. The Londoner. september 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2007. Sótt 19. júní 2007.
  32. „Transport for London“. Transport for London. Sótt 27. apríl 2008.
  33. „London Overground“. Transport for London. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. apríl 2010. Sótt 27. apríl 2008.
  34. „London voted best for transport“. British Broadcasting Corporation News. 29. ágúst 2006. Sótt 7. júní 2008.
  35. „Cost of Crossrail“. London Assembly. 19. nóvember 2020.
  36. „Latest TfL figures show the Tube reaching 4 million journeys per day“. Transport for London. 30. nóvember 2023.