1. apríl - Taílensk-austurríski orkudrykkurinn Red Bull kom á markað í Austurríki.
12. apríl - V. P. Singh, varnarmálaráðherra Indlands, sakaði Bofors um að hafa greitt 145 milljónir sænskra króna í mútur vegna vopnasölu til Indlands.
13. apríl - Portúgal og Alþýðulýðveldið Kína undirrituðu samkomulag um að stjórn Maká gengi til Kína árið 1999.
25. apríl - Alþingiskosningar voru haldnar, þær fyrstu samkvæmt nýjum kosningalögum sem var ætlað að jafna hlut flokka með uppbótarþingmönnum þrátt fyrir misvægi atkvæða eftir kjördæmum.
13. ágúst - Verslunarmiðstöðin Kringlan var opnuð í Reykjavík, en hún var reist þar sem áður hét Kringlumýri. Um 40 þúsund manns komu þangað fyrsta daginn.
13. september - Skransafnarar fundu geislavirk efni í yfirgefnum spítala í Goiânia í Brasilíu. Í kjölfarið létust fjórir vegna geislaeitrunar og hundruð reyndust hafa orðið fyrir geislun.
6. október - Sænski njósnarinn Stig Bergling slapp úr fangelsi og flúði frá Svíþjóð með eiginkonu sinni. Í kjölfarið sagði dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Sten Wickbom, af sér.
13. október - Kýrin Harpa synti yfir Önundarfjörð frá Flateyri að Kirkjubóli í Valþjófsdal á flótta þegar leiða átti hana til slátrunar. Eftir sundafrekið var hún nefnd Sæunn og fékk að lifa lengur.