Keflavíkurgöngur fóru þannig fram að þátttakendur héldu snemma að morgni að hliðum herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Þar var haldinn stuttur upphafsfundur en síðan var gengið undir fánum og kröfuspjöldum til Reykjavíkur, hátt í 50 km leið. Jafnt og þétt fjölgaði í göngunni eftir því sem nær dró Reykjavík. Stuttir fundir voru haldnir á hvíldarstöðum á leiðinni, oft í Kúagerði og Straumsvík. Aðgerðirnar enduðu svo með fjöldafundi í miðborginni, oftast á Lækjartorgi. Ýmis félagasamtök hernáms- og herstöðvaandstæðinga (þar á meðal Samtök herstöðvaandstæðinga) stóðu fyrir samanlagt ellefu Keflavíkurgöngum.
Sögusýning sem tengist Keflavíkurgöngum var opnuð í Þjóðarbókhlöðunni 30. mars 2010 á fimmtugasta afmælisári fyrstu göngunnar. Þar var greint frá hverri göngu fyrir sig í máli og myndum og sýnd kröfuspjöld, borðar og merki sem tengjast aðgerðunum hverju sinni. Einnig var þar sýnt mikið af útgefnu efni, blöðum, bókum, hljómplötum og diskum.