Keflavíkurganga

Keflavíkurgöngur voru mótmælaaðgerðir sem Samtök hernámsandstæðinga og síðar Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu fyrir í baráttu sinni gegn veru bandaríska setuliðsins á Íslandi á árabilinu 1951 til 2006. Margar þeirra voru með mestu fjöldaaðgerðum 20. aldar á Íslandi. Fyrsta Keflavíkurgangan var gengin 19. júní 1960.

Keflavíkurgöngur fóru þannig fram að þátttakendur héldu snemma að morgni að hliðum herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Þar var haldinn stuttur upphafsfundur en síðan var gengið undir fánum og kröfuspjöldum til Reykjavíkur, hátt í 50 km leið. Jafnt og þétt fjölgaði í göngunni eftir því sem nær dró Reykjavík. Stuttir fundir voru haldnir á hvíldarstöðum á leiðinni, oft í Kúagerði og Straumsvík. Aðgerðirnar enduðu svo með fjöldafundi í miðborginni, oftast á Lækjartorgi. Ýmis félagasamtök hernáms- og herstöðvaandstæðinga (þar á meðal Samtök herstöðvaandstæðinga) stóðu fyrir samanlagt ellefu Keflavíkurgöngum.

Sögusýning sem tengist Keflavíkurgöngum var opnuð í Þjóðarbókhlöðunni 30. mars 2010 á fimmtugasta afmælisári fyrstu göngunnar. Þar var greint frá hverri göngu fyrir sig í máli og myndum og sýnd kröfuspjöld, borðar og merki sem tengjast aðgerðunum hverju sinni. Einnig var þar sýnt mikið af útgefnu efni, blöðum, bókum, hljómplötum og diskum.

Keflavíkurgöngur

Fagnandi herstöðvaandstæðingar eftir brottför setuliðsins haustið 2006