Keflavíkurgangan 1968 var haldin af Samtökum hernámsandstæðinga þann 23. júní árið 1968. Þetta var fimmta Keflavíkurgangan og sú seinasta sem samtökin héldu á líftíma sínum. Gangan fór fram daginn áður en ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins var settur í Reykjavík.
Aðdragandi og skipulag
Talsvert hafði dofnað yfir starfsemi Samtaka hernámsandstæðinga misserin á undan og frumkvæðið í herstöðvabaráttunni færst til annarra róttækra hópa á borð við Æskulýðsfylkinguna sem hafði sig mjög í frammi.[1] Fráleitt var þó talið annað en að samtökin efndu til Keflavíkurgöngu þegar ljóst var að NATÓ-ráðherrar myndu funda í Reykjavík. Var meginkrafa göngunnar tafarlaus úrsögn Íslands úr hernaðarbandalaginu, en jafnframt var hamrað á framferði Bandaríkjamanna í Víetnam en einnig mannréttindabrotum í NATÓ-ríkjunum Portúgal og Grikklandi. Kom hópur grískra útlaga sérstaklega til landsins til að taka þátt í mótmælaaðgerðum gegn NATÓ-fundinum.
Fjöldi ræðufólks lét til sín taka í tengslum við gönguna og útifundinn á eftir. Skúli Thoroddsen læknir og Hjördís Hákonardóttir laganemi höfðu framsögu í göngubyrjun. Jón Hafsteinn Jónsson menntaskólakennari flutti ávarp í Kúagerði, sem og Jón Sigurðsson (síðar formaður Framsóknarflokksins) en Hannes Sigfússon las ljóð. Í Straumsvík las Þorsteinn frá Hamri hvatningu til göngufólks. Við Miðbæjarskólann voru Heimir Pálsson og Stefán Jónsson ræðumenn en Jónas Árnason fundarstjóri.
Gangan og útifundurinn þóttu hvort tveggja fjölsótt, en féllu nokkuð í skuggann af harðvítugum átökum við setningu NATÓ-fundarins daginn eftir.
Tilvísanir