Keflavíkurgangan 1991 var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 10. ágúst árið 1991. Þetta var ellefta Keflavíkurgangan og beindist gegn bandarískri hersetu og jafnframt sú síðasta.
Aðdragandi og skipulag
Yfirskrift göngunnar var Í átt til afvopnunar og var hún haldin við sérkennilegar aðstæður í heimsmálunum. Við fall Sovétríkjanna töldu margir að þörfin fyrir friðarbaráttu hefði snarminnkað, þar sem Kalda stríðinu væri sjálfhætt. Fjöldi fólks hætti þátttöku í friðarhreyfingunni og sneri sér að öðrum verkefnum, svo sem á sviði umhverfismála. Á Íslandi var hins vegar enn starfrækt bandarísk herstöð og heræfingar undir heitinu Norðurvíkingur voru haldnar með reglubundnu millibili. Fyrr um sumarið var ein af þessum Norðurvíkingsæfingum haldin og mótmæltu herstöðvaandstæðingar henni kröftuglega og með ýmsum hætti.
Um 200 göngumenn lögðu af stað frá herstöðvarhliðinu þar sem Steingrímur J. Sigfússon og Árni Hjartarson fluttu ávörp. Á áningarstöðum var meiri áhersla lögð á tónlistarflutning en ræðuhöld. Meðal þeirra sem spiluðu voru Hörður Torfason, Bubbi Morthens, Gildran og Bjartmar Guðlaugsson. Á fundinum á Lækjartorgi í göngulok flutti Sigþrúður Gunnarsdóttir menntaskólanemi ræðu. Áætlað var að um 1.500 manns hefðu sótt fundinn. Þótti sú mæting ekki nægilega góð, auk þess sem fjárhagur samtakanna var afar bágborinn. Var því fallið frá öllum hugmyndum um frekari Keflavíkurgöngur á næstu árum.
Tilvísanir