Wales

Cymru (velska)
Wales (enska)
Fáni Wales Skjaldarmerki Wales
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Cymru am byth (velska)
Wales að eilífu
Þjóðsöngur:
Hen Wlad Fy Nhadau
Land feðra minna
Staðsetning Wales
Höfuðborg Cardiff
Opinbert tungumál Velska, enska
Stjórnarfar Þingbundið konungsvald

Konungur Karl 3.
Fyrsti ráðherra Vaug­h­an Get­hing
Hluti Bretlands
 • Sameinað af Gruffudd ap Llywelyn 1056 
 • Rhuddlan-samþykktin 3. mars 1284 
 • Laws in Wales 1535 
 • Valddreifing 31. júlí 1998 
Flatarmál
 • Samtals
47. sæti
20.779 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar

3.267.501
150/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 103,9 millj. dala
 • Á mann 33.077 dalir
VÞL (2019) 0.901
Gjaldmiðill Sterlingspund
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .uk
Landsnúmer +44

Wales er land í Evrópu og eitt af þeim fjórum löndum sem mynda Bretland.[1] England liggur að því í austri og Atlantshaf og Írlandshaf í vestri. Íbúatala Wales er um það bil þrjár milljónir manna. Það er tvítyngt land, velska er studd til jafns við ensku, en flestir tala ensku sem móðurmál.

Einu sinni var Wales keltneskt ríki og í dag eru íbúar landsins taldir ein af keltnesku þjóðunum sex. Á 5. öld varð til sérstök velsk þjóðarvitund þegar Rómverjar hörfuðu frá Bretlandi.[2] Llewelyn mikli stofnaði furstadæmið Wales árið 1216. Á 13. öld sigraði Játvarður 1. Llewelyn síðasta og Wales var síðan undir stjórn Englands í nokkrar aldir. Prinsinn af Wales er staða sem búin var til fyrir ríkisarfa ensku krúnunnar og núverandi prins af Wales er Vilhjálmur Bretaprins. Seinna varð Wales hluti Englands með Sambandslögunum 1535–1542 og þannig myndað land sem hét England og Wales. Á 19. öldinni þróuðust stjórnmál í Wales og árið 1881 voru lög sett um verslun á sunnudögum, en það voru fyrstu lög sem giltu sérstaklega fyrir Wales. Árið 1955 var Cardiff gerð að höfuðborg landsins. Árið 1999 var Velska þingið stofnað. Það sér m.a. um öll mál sem Wales fær til umfjöllunar frá ríkisstjórn Bretlands.

Höfuðborgin Cardiff (velska: Caerdydd) er stærsta borg Wales og þar búa 362.400 manns. Einu sinni var hún stærsta kolahöfn í heimi[3] og fleiri kolafarmar fóru í gegnum Cardiff en London eða Liverpool.[4] Um það bil tveir þriðju íbúanna búa í Suður-Wales. Einnig eru margir íbúar í Norður-Wales austan til. Wales er vinsælt ferðamannaland vegna fjalllendis og fagurra sveita. Síðan á 19. öld hefur Wales verið þekkt sem „söngvalandið“.[5] Margir leikarar og söngvarar frá Wales eru þekktir um allan heim.[6] Í Cardiff er stærsta fjölmiðlamiðstöð á Bretlandi utan London.[7]

Heiti

Enska heitið Wales er germönsk útgáfa af ættbálkaheitinu Volcae sem í Rómaveldi var síðar notað yfir alla keltneskar þjóðir. Landaheitin Valland og Vallakía eru af sömu rót runnin. Fornenskumælandi Engilsaxar notuðu heitið Wælisc yfir Breta almennt og Wēalas yfir lönd þeirra. Upphaflega voru þessi heiti ekki bundin við Wales heldur áttu við um alla breskumælandi Breta, eins og sést í heitunum Cornwall, Walton og Walworth.

Velska heitið yfir Wales er Cymru og þjóðarheitið Cymry sem eru dregin af breska orðinu combrogi sem merkir „samlandar“. Upphaf notkunar þessa orðs má rekja til þess þegar íbúar Wales tóku að greina sig frá öðrum breskumælandi ættbálkum á Stóra-Bretlandi eftir að Rómverjar fóru frá landinu. Orðið Cymry kemur þannig fyrir í textum frá 7. öld þótt á miðöldum hafi verið algengara að nota almenna orðið yfir Breta, Brythoniaid. Latnesk útgáfa Cymru er Cambria sem er notað sem latneskt heiti Wales og kemur fyrir í örnefnum eins og Kambríufjöll sem kambríumtímabilið dregur nafn sitt af.

Saga

Forsögulegur uppruni

Bryn Celli Ddu er grafhýsi á Anglesey frá nýsteinöld.
Caradog eftir Thomas Prydderch. Caradog var leiðtogi keltneska ættbálksins Ordovices.
Kort af herförum Rómverja inn í Wales.

Nútímamenn hafa búið í Wales í að minnsta kosti 29.000 ár.[8] Samfelld mannabyggð nær frá lokum síðustu ísaldar, milli 12.000 og 10.000 f.o.t. þegar veiðimenn og safnarar fluttust frá Mið-Evrópu til Stóra-Bretlands á miðsteinöld. Á þeim síma var sjávarborð mun lægra en nú. Síðustu jöklar Wales hörfuðu um 10.250 f.o.t. og heitara loftslag leiddi til þess að skógar þöktu landið. Hækkun sjávarborðs í kjölfar hops jöklanna skildi Wales frá Írlandi og myndaði Írlandshaf. Um 8.000 f.o.t. var Bretlandsskagi orðinn að eyju.[9] Við upphaf nýsteinaldar (um 6.000 f.o.t.) var sjávarborð í Bristolsundi enn um 11 metrum lægra en það er í dag.[10] Sagnfræðingurinn John Davies setti fram þá tilgátu að sagan um drukknun Cantre'r Gwaelod og sögur í Mabinogion um að sjórinn milli Wales og Írlands hafi verið grynnri og minni, gætu byggst á munnlegri geymd frá þessum tíma.[11]

Á nýsteinöld blönduðust landnemar frumbyggjum landsins og íbúar tóku upp staðbundinn landbúnað í stað hirðingjalífs um 6.000 f.o.t. (nýsteinaldarbyltingin).[11][12] Íbúarnir ruddu skóginum burt til að búa til beitiland og ræktarland, þróuðu nýja tækni við leirkeragerð og vefnað, og reistu grafhauga úr jötunsteinum, eins og Pentre Ifan, Bryn Celli Ddu og Parc Cwm-hauginn milli um 5.800 f.o.t. og 5.500 f.o.t.[13] Næstu aldirnar tóku þeir upp nýja tækni sem fylgdi bronsöld og járnöld hjá Keltum. Sumir sagnfræðingar, eins og John T. Koch, líta svo á að á síðbronsöld hafi Wales verið hluti af verslunarleiðum á sjó sem tengdu Keltaþjóðirnar saman.[14] Þessi Atlantshafskenning er gagnrýnd af þeim sem vilja rekja keltnesku málin til Hallstatt-menningarinnar.[15] Þegar innrás Rómverja í Bretland hófst hafði landið sem nú er Wales skipst milli ættbálkanna Deceangli (norðausturhluti), Ordovices (norðvesturhluti), Demetae (suðvesturhluti), Silures (suðausturhluti) og Cornovii (austurhluti).[11][16]

Leiðtoga Ordovices, Caratacus eða Caradog, tókst að verjast árásum Rómverja um skeið.[17] Að lokum var hann sigraður og fluttur til Rómar. Eftir fræga ræðu í öldungadeild Rómar fékk hann að halda lífinu og lifði eftir það í friði í Róm.[18]

Rómverskur tími

Innrás Rómverja í Wales hófst árið 48 e.o.t. og tók 30 ár. Hernámið stóð síðan í yfir 300 ár. Tveir ættbálkar stóðu einkum í veginum fyrir herförunum, Silures og Ordovices. Yfirráð Rómar í Wales byggðust á hernámi, fyrir utan strandhéruðin í Suður-Wales þar sem byggðist upp rómverskt samfélag.[19] Eini bærinn í Wales sem Rómverjar stofnuðu, Caerwent, er í Suðaustur-Wales.[20] Bæði Caerwent og Carmarthen (líka í Suður-Wales) urðu rómverskir bæir (civitates).[21] Wales bjó yfir verðmætum jarðefnum og Rómverjar notuðu rómverska verkfræði og tækni til að vinna þar mikið magn gulls, kopars og blýs, auk sinks og silfurs í minna mæli.[22] Enginn mikilvægur iðnaður var í Wales á þessum tíma[22] sem stafaði aðallega af aðstæðum, þar sem þar voru ekki til staðar nauðsynleg úrræði í réttum hlutföllum og skógi vaxin og fjalllend sveitin hentaði ekki fyrir iðnvæðingu. Latína varð opinbert mál í Wales, þótt alþýðan héldi áfram að tala bresku. Efri stéttirnar tóku að líta á sig sem Rómverja, sérstaklega eftir útgáfu Constitutio Antoniana árið 212 sem kvað á um að allir frjálsir menn í Rómaveldi teldust rómverskir borgarar.[23] Rómversk áhrift styrktust enn með útbreiðslu kristni, sem aflaði margra fylgismanna þegar þeir fengu að stunda trú sína opinberlega árið 313.[23]

Elstu sagnaritarar, þar á meðal 6. aldar presturinn Gildas, nefndu að árið 383 hefði verið vendipunktur í sögu Wales.[24] Það ár dró rómverski herforinginn Magnus Maximus, eða Macsen Wledig, allt rómverskt herlið frá Bretlandi til að reyna að vinna keisaratign, ríkti áfram yfir Bretlandi frá Gallíu sem keisari, og færði breskum höfðingjum völd yfir íbúum.[25] Elstu velsku ættartölin nefna Maximus sem stofnanda nokkurra konungsætta.[26] Hann er líka nefndur faðir velsku þjóðarinnar.[24] Hann er talinn forfaðir velsks konungs á Eliseg-súlunni sem var reist nærri 500 árum eftir að hann yfirgaf Bretland og kemur auk þess fyrir í listum yfir fimmtán ættbálka Wales.[27]

Ármiðaldir

Bretland árið 500. Bleiku svæðin sem byggð voru Bretum voru nefnd „Wales“. Ljósbláu svæðin í austri voru byggð Germönum, meðan ljósgrænu svæðin í norðri voru byggð Gelum og Piktum.

Erfitt er að átta sig á sögu Wales næstu 400 árin eftir endalok rómverskra yfirráða.[23] Þegar Rómverjar hurfu frá Bretlandi árið 410 réðust ýmsir germanskir þjóðflokkar inn á láglendishéruð Bretlands og urðu þekktir sem Engilsaxar. Sett hefur verið fram tilgáta um að Engilsaxar hafi rekið aðskilnaðarstefnu sem bitnaði á breskum íbúum.[28] Um árið 500 skiptist landið sem síðar varð Wales milli nokkurra ríkja sem voru sjálfstæð frá Engilsöxum.[23] Þarna urðu til konungsríkin Gwynedd, Powys, Dyfed, Ceredigion, Morganwg, Ystrad Tywi og Gwent.[23] Fornminjar á láglendinu sem varð síðan England sýna að fyrsta innreið Engilsaxa hefur hopað milli 500 og 550, sem kemur heim við frásagnir frankverskra annála.[29] John Davis nefnir að þetta passi við sigur keltneskra Breta í orrustunni við Mons Badonicus gegn Söxum, sem var eignaður Artúri konungi í frásögn Nenniusar.[29]

Snemma á 6. og 7. öld hafði Powys misst mikið af því sem í dag er héraðið West Midlands til konungsríkisins Mersíu, en stóð gegn frekari stækkun þess. Aðalbaldur af Mersíu sem vildi verja lönd sín, byggði þá Skurð Wats. Samkvæmt Davies var þetta gert með samþykki Elisedd ap Gwylog, konungs Powys þar sem þessi landamæri, sem náðu frá árdal Severn að árósum Dee, tryggðu honum yfirráð yfir Oswestry.[30] Eftir kolefnisgreiningu sem benti til að skurðurinn væri 300 árum eldri, var sett fram tilgáta um að rómverskir foringjar í Wroxeter hefðu byggt hann.[31] Þessi skurðagröftur hélt áfram í valdatíð Offa af Mersíu sem gerði enn stærri varnarvirki sem í dag er nefnt Skurður Offa (Clawdd Offa).[32]

Árið 853 réðust víkingar á Anglesey, en árið 856 tókst Rhodri Mawr að sigra og drepa Gorm, foringja þeirra.[33] Keltnesku Bretarnir í Wales sömdu um frið við víkinga og Anarawd ap Rhodri gerði bandalag við víkinga í Norðymbralandi,[34] en rauf það svo og gerði samkomulag við Alfreð mikla, konung í Wessex, gegn vesturríkjum Wales. Samkvæmt Annales Cambriae kom Anarawd með Englum árið 894 og lagði Ceredigion og Ystrax Tywi í rúst.[35]

Kort af velsku ríkjunum á miðöldum.
Hywel Dda á hásæti.

Suður- og austurhluti Stóra-Bretlands sem Englendingar lögðu undir sig urðu þekkt í Wales sem Lloegyr sem gæti upprunalega hafa átt við konungsríkið Mersíu, en náði síðan yfir allt England. Elstu vísunina í Lloegyr er að finna í spákvæðinu Armes Prydein frá byrjun 10. aldar. Sem staðarheiti virðist það fremur nýlegt, en fleirtalan Lloegrwys („menn Lloegr“) er eldri og algengari. Í miðaldakvæðum eru Englendingar stundum nefndir Sacson í heild (eins og í dag) en líka Eingl (Englar), Iwys (Wessex-búar) o.s.frv. Seinna, þegar England varð eitt ríki, varð algengast að nota Lloegr eða Sacson. Wales-búar héldu áfram að nefna sig Brythoniaid (Bretóna) langt fram á miðaldir, þótt fyrsta dæmið um nafnið Cymru sé að finna í lofkvæði handa Cadwallon ap Cadfan eftir Afan Ferddig frá um 633.[36] Í kvæðinu Armes Prydain, sem er talið ritað um 930–942, eru orðin Cymry og Cymro notuð 15 sinnum.[37] Frá innrás og landnámi Engilsaxa tók fólk í Wales smám saman upp nafnið Cymry í stað Brythoniad.[38]

Frá 800 varð röð giftinga milli konungsætta til þess að Rhodri Mawr erfði bæði Gwynedd og Powys. Synir hans stofnuðu þrjár konungsættir: Aberffraw í Gwynedd, Dinefwr í Deheubarth og Mathrafal í Powys. Barnabarn Rhodris, Hywel Dda, stofnaði Seisyllwg árið 930 með sameiningu Dyfed og Seisyllwg, hrakti Aberffraw-ættina frá Gwynedd og Powys og setti svo velsk lög á 5. áratug 10. aldar.[39] Maredudd ab Owain (r. 986–99) frá Deneubarth, barnabarn Hywels, hrakti Aberffraw-ættina tímabundið frá Gwynedd og Powys. Barnabarn Maredudds (sonur dóttur hans, Angharad) Gruffydd ap Llywelyn (r. 1039-63) náði að leggja ríki frænda sinna undir sig og stækkaði lönd sín inn í England.

Hámiðaldir og síðmiðaldir

Gruffydd ap Llywelyn var sá eini sem tókst að sameina allt Wales undir sinni stjórn og verða konungur Wales. Árið 1055 drap Gruffydd ap Llywelyn keppinaut sinn, Gruffudd ap Rhydderch í orrustu og endurheimti Deheubarth.[40] Hann ríkti yfir Wales og lagði undir sig hluta Englands við landamærin.[41] Löndum hans var aftur skipt milli hinna hefðbundnu konungdæma eftir dauða hans.[42] John Davies segir að Gruffydd hafi verið eini konungurinn sem ríkti yfir öllu Wales, sem í um sjö ár var sameinað undir einum einvaldi, í fyrsta og síðasta sinn.[43] Owain Gwynedd (1100–70) af Aberffraw-ætt var hins vegar fyrsti velski lávarðurinn sem tók upp titilinn princeps Wallensium (fursti af Wales) eftir sigur hans í Berwyn-fjöllum, samkvæmt Davies.[44] Á þessum tíma, milli 1053 og 1063 ríkti friður í Wales og innanlandsátökum linnti.[45]

Fjórum árum eftir orrustuna við Hastings (1005) höfðu Normannar lagt allt England undir sig.[43] Vilhjálmur sigursæli stofnaði röð lávarðsdæma sem hann veitti foringjum í her sínum, meðfram landamærum Wales. Mörk þeirra voru aðeins sett í austri þar sem þau mættu öðrum lénum í Englandi.[46] Frá 8. áratug 11. aldar tóku þessir lávarðar að leggja undir sig lönd í Suður- og Austur-Wales, vestan við Wye-á. Landamærahéruðin og ensku lávarðsdæmin í Wales urðu þekkt sem Marchia Wallie, Velska Mörkin, þar sem velsku markgreifarnir heyrðu hvorki undir velsk lög né ensk.[47] Stærð Merkurinnar breyttist með stríðsgæfu markgreifanna í bardögum gegn velsku furstunum.[48]

Barnabarn Owain Gwynedd, Llywelyn mikli (1173-1240), tók við trúnaðareiðum annarra velskra lávarða á þingi í Aberdyfi árið 1216 og varð þá í reynd fyrsti furstinn af Wales.[49] Barnabarn hans, Llywelyn ap Gruffudd tryggði viðurkenningu Hinriks 3. á titlinum með Montgomery-samningnum 1267.[50] Deilur sem á eftir fylgdu og leiddu meðal annars til handtöku eiginkonu Llywelyns, Eleanor af Montfort, enduðu með innrás Játvarðs 1.[51] Eftir ósigur gegn enska hernum sór Llywelyn Englandi trúnaðareið árið 1277.[51] Friðurinn stóð stutt og með hernámi Wales 1282 batt Játvarður enda á yfirráð velsku furstanna. Eftir lát Llywelyns og aftöku bróður hans, Dafydd ap Gruffydd, sóru þeir velsku lávarðar sem eftir voru Játvarði trúnaðareiða.[52] Rhuddlan-lögin frá 1284 voru undirstaða undir stjórn furstadæmisins í Norður-Wales eftir hernámið, frá 1284 til 1535/36.[53] Í lögunum var Wales skilgreint sem „innlimað og sameinað“ ensku krúnunni, aðskilið frá Englandi en undir sama konungi. Með lögunum var norðurhlutanum skipt milli dómara í Chester og dómara í Norður-Wales, en suðurhlutinn heyrði undir dómara í Suður-Wales. Lávarðsdæmin Montgomery og Builth héldust óbreytt.[54] Játvarður reisti röð kastala til að tryggja yfirráð sín í landinu: Beumaris-kastala, Caernarfon-kastala, Harlech-kastala og Conwy-kastala. Sonur hans, sem síðar varð Játvarður 2. Englandskonungur, fæddist í Caernarfon árið 1284.[55] Hann varð fyrsti prinsinn af Wales árið 1301, sem á þeim tíma gaf tekjur frá norðvesturhluta Wales.[56]

Stytta af Owain Glyndŵr í ráðhúsi Cardiff.

Eftir misheppnaða uppreisn Madog ap Llywelyn 1294-95 (sem kallaði sig fursta af Wales í Penmachno-skjalinu) og uppreisn Llywelyn Bren árið 1316, leiddi Owain Glyndŵr síðustu uppreisnina gegn Hinriki 4. og var krýndur fursti af Wales í viðurvist fulltrúa frá Frakklandi, Kastilíu og Skotlandi.[57] Glyndŵr hélt síðan þing í nokkrum velskum bæjum, þar á meðal í Machynlleth. Uppreisnin var brotin á bak aftur árið 1412. Owain fór í felur og ekkert er vitað um afdrif hans eftir 1413.[58][59]

Hinrik Tudor (fæddur í Wales árið 1457) náði að ræna konungdómi í Englandi af Ríkharði 3. og sameina þannig England og Wales undir einni konungsætt. Síðustu leifar velsku laganna voru afnumdar og ensk lög tóku við með lögum um lög í Wales 1535 og 1542 í valdatíð sonar Hinriks, Hinriks 8..[60] Með því að sameina England og Wales undir ein lög varð Wales hluti af konungsríkinu Englandi. Furstadæmið Wales náði nú yfir allt landið, þótt það væri í reynd aðeins furstadæmi að nafninu til.[53][61] Velsku markgreifadæmin voru afnumin og Wales-búar kusu sér fulltrúa á þingið í Westminster.[62]

Árnýöld

Dowlais Ironworks (1840) eftir George Childs (1798–1875).

Árið 1536 voru íbúar Wales um 278.000, en voru orðnir um 360.000 árið 1620. Þessi fólksfjölgun stafaði aðallega af vexti í sveitum þar sem kvikfjárrækt var undirstaða efnahagslífs Wales-búa. Aukin fjölbreytni atvinnulífs leiddi til meiri stöðugleika og verslunar, en fólksfjölgunin var meiri en hagvöxtur með þeim afleiðingum að lífskjör versnuðu.[63]

Fyrir iðnbyltinguna í Wales var smáiðnaður víðs vegar í landinu,[64] meðal annars iðnaður tengdur landbúnaði, eins og mölun og framleiðsla klæðaefnis úr ull, auk námavinnslu.[64] Landbúnaður var helsta uppspretta auðmagns.[64] Við upphaf iðnvæðingar hófst koparbræðsla í kringum Swansea, sem byggðist á aðgangi að kolanámum og höfn sem tengdi svæðið við koparnámur Cornwall í suðri og stórar koparæðar í Parys-fjalli á Angelsey. Swansea varð helsta miðstöð málmbræðslu fyrir aðra málma en járn á 19. öld.[64] Annar málmiðnaður sem byggðist á járnvinnslu óx í norður- og suðurhlutanum.[65] Í norðrinu voru járnvinnslur John Wilkinson í Bersham helsta miðstöðin, en í suðri urðu til járnvinnslur í Dowlais, Cyfarthfa, Plymouth og Penydarren[65] Á 3. áratug 19. aldar voru 40% af öllu pottjárni Bretlands framleidd í Wales.[65]

Þegar leið á 18. öld höfðu lögfræðingar, læknar, fasteignasalar og embættismenn myndað borgarastétt sem reisti stærri hús í bæjum Wales.[63] Seint á 18. öld hóf steinskífuvinnsla að vaxa hratt, sérstaklega í Norður-Wales. Penrhyn-náman var opnuð af Richard Pennant árið 1770 og var komin með 15.000 starfsmenn seint á 19. öld.[66] Ásamt Dinorwic-námunni var hún undirstaða velska steinskífuiðnaðarins. Steinskífuvinnslan hefur verið kölluð „velskasti iðnaðurinn“,[67] en það var þó kolavinnsla sem Wales og íbúar þar urðu þekktastir fyrir. Í byrjun voru kolin notuð til að knýja iðnað innanlands, en þegar skipaskurðir og síðar járnbrautir tengdu markaði saman varð sprenging í eftirspurn. Cardiff, Swansea, Penarth og Barry fluttu út kol um allan heim. Kolavinnslan náði hápunkti árið 1913 þegar ársframleiðsla Wales var næstum 61 milljón tonn.[68]

Nútíminn

Kröfuganga á vegum Plaid Cymru í Machynlleth árið 1949, þar sem herferð fyrir þingi í Wales hófst.

Sagnfræðingurinn Kenneth O. Morgan lýsti Wales við upphaf fyrri heimsstyrjaldar sem friðsælli, sjálfsöruggri og velmegandi þjóð. Kolanámurnar gáfu af sér sífellt meiri afurðir. Framleiðslan í Rhondda-dal náði hápunkti með 9,6 milljón tonnum af kolum árið 1913.[69] Í fyrri heimsstyrjöld tóku 272.924 íbúar Wales þátt, eða 21,5% af öllum karlmönnum landsins. Af þeim létu um 35.000 lífið.[70] Mannfallið varð sérstaklega mikið í 38. velska fótgönguliðinu í orrustu við Mametz Wood við Somme og í orrustunni um Passchendaele.[71] Á fyrsta fjórðungi 20. aldar urðu líka breytingar í stjórnmálum í Wales. Frá 1865 hafði Frjálslyndi flokkurinn haft meirihluta í Wales, og í þingkosningunum 1906 náði aðeins einn frambjóðandi úr öðrum flokki kjöri í Wales, Keir Hardie. En árið 1906 var barátta iðnverkafólks farin að grafa undan yfirráðum Frjálslyndra í kolahéruðunum í suðri.[72] Árið 1916 varð David Lloyd George forsætisráðherra Bretlands, fyrstur Wales-búa.[73] Í desember 1918 var Lloyd George endurkjörinn sem leiðtogi samsteypustjórnar með Íhaldsmenn í meirihluta. Léleg viðbrögð hans við verkfalli kolanámufólks árið 1919 átti stóran þátt í fylgishruni Frjálslynda flokksins í Suður-Wales.[74] Velskt iðnverkafólk tók að styðja Verkamannaflokkinn. Þegar samband námaverkafólks í Bretlandi gerði bandalag við Verkamannaflokkinn 1908 voru þeir fjórir frambjóðendur flokksins sem námaverkafólk studdi allir kjörnir þingmenn. Árið 1922 var helmingurinn af sætum Wales í breska þinginu skipaður frambjóðendum Verkamannaflokksins. Flokkurinn varð eftir það ríkjandi í velskum stjórnmálum fram á 21. öld.[75]

Eftir mikinn hagvöxt á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar hófst niðursveifla í hefðbundnum atvinnugreinum Wales frá því snemma á 3. áratugnum fram á seinni hluta 4. áratugarins, sem leiddi til atvinnuleysis og fátæktar.[76] Í fyrsta sinn í margar aldir tók íbúum Wales að fækka. Atvinnuleysið dróst ekki saman fyrr en eftirspurn jókst vegna síðari heimsstyrjaldar.[77] Í stríðinu börðust Wales-búar á öllum helstu vígstöðvum og um 15.000 létu lífið. Luftwaffe varpaði sprengjum á hafnirnar í Swansea, Cardiff og Pembroke sem ollu miklu mannfalli. Eftir 1943 voru 10% af Wales-búum yfir 18 ára aldri sem kallaðir höfðu verið í herinn, sendir í kolanámurnar þar sem skortur var á vinnuafli. Þeir urðu þekktir sem Bevin-strákarnir.[78]

Veggmálverk til að mótmæla vatnsveitunni í Tryweryn.

Flokkurinn Plaid Cymru var stofnaður árið 1925 og hafði á stefnuskrá sinni aukið sjálfstæði frá Bretlandi.[79] Algengt var að nota hugtakið „England og Wales“ yfir þau lönd sem ensk lög náðu yfir og árið 1955 var Cardiff lýst höfuðborg Wales. Velskufélagið, Cymdeithas yr Iaith Gymraeg, var stofnað árið 1962 vegna ótta við að velskan myndi brátt deyja út.[80] Þjóðernishyggja fór vaxandi eftir að Tryweryn-dal var fórnað undir vatnsveitu fyrir ensku borgina Liverpool árið 1965.[81] Þingið samþykkti lög um vatnsveituna, þrátt fyrir að 35 af 36 þingmönnum Wales væru þeim andsnúnir (einn sat hjá). Þorpið Capel Celyn fór undir vatn. Atvikið vakti athygli á áhrifaleysi Wales í eigin málum gegn meirihluta enskra þingmanna á breska þinginu.[82] Hópar aðskilnaðarsinna, eins og Free Wales Army og Mudiad Amddiffyn Cymru, voru stofnaðir og skipulögðu aðgerðir frá 1963.[83] Í aðdraganda þess að Karl Bretaprins var skipaður prins af Wales árið 1969 frömdu þessir hópar nokkrar sprengjuárásir á innviði.[84] Í aukakosningum árið 1966 vann Plaid Cymru þingsæti í fyrsta sinn, þegar Gwynfor Evans var kosinn í Carmarthen.[85]

Undir lok 7. áratugarins hafði sú stefna að beina fjárfestingum að svæðum í Wales sem áttu undir högg að sækja reynst árangursrík til að auka fjölbreytni atvinnulífsins.[86] Þessi stefna, sem hófst árið 1934, byggðist á þróun iðnfyrirtækja og bættum samgönguinnviðum,[86] sérstaklega M4-þjóðveginum sem tengir Suður-Wales við London. Á þessum tíma var talið að atvinnulíf í Wales hvíldi á traustum grunni, en það reyndist bjartsýni þegar kreppa í byrjun 9. áratugarins leiddi til hruns framleiðslufyrirtækja sem stofnuð höfðu verið á 40 undangengnum árum.[87]

Valddreifing

Lög um velsku 1967 felldu úr gildi hluta af lögum um Wales og Berwick. Wales var þannig ekki lengur hluti af skilgreiningu Englands. Með því varð Wales að lagalega aðskildu landi (innan Bretlands) í fyrsta sinn síðan lög um lög í Wales 1535 og 1542 voru samþykkt. Lög um velsku bættu líka við þau svið þar sem notkun velskunnar var heimiluð, þar á meðal í réttarfarslegu samhengi.[88]

Cofia (munið) 1282, mótmæli gegn skipan prinsins af Wales árið 1969.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1979 höfnuðu íbúar Wales stofnun þings með 80% meirihluta. Árið 1997 var haldin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem tillagan var samþykkt með naumum (50,3%) meirihluta.[89] Þing Wales (Cynulliad Cenedlaethol Cymru) var stofnað árið 1999 (með lögum um stjórn Wales 1998) og fékk völd til að ákveða fjárráð miðstjórnar Wales, þótt breska þingið héldi réttinum til að takmarka völd þess.[89] Ríkisstjórnir Bretlands og Wales skilgreina Wales nær undantekningarlaust sem land.[90] Samkvæmt vef velsku ríkisstjórnarinnar er Wales ekki furstadæmi, þótt það tengist Englandi, og telst hluti af Bretlandi sem sérstakt land.[91] Titillinn prinsinn af Wales er enn veittur krónprinsi bresku konungsfjölskyldunnar, en hefur enga þýðingu í stjórnskipan Wales.[92]

Lög um ríkisstjórn Wales 2006 eru lög frá breska þinginu sem breyttu hlutverki velska þingsins og auðvelda frekari valddreifingu til þess. Með lögunum varð til stjórnkerfi með sérstöku framkvæmdavaldi sem ber ábyrgð gagnvart löggjafarvaldinu.[93] Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2011 getur þingið nú sett lög um öll mál sem heyra undir valdsvið þess, án þess að þurfa samþykki breska þingsins.[93] Með lögum um kosningar til velska þingsins 2020 var það nefnt „Senedd Cymru“ (á velsku) og „Welsh Parliament“ (á ensku) sem átti að endurspegla aukin völd þingsins.[94]

Baráttufundur um sjálfstæði Wales í Cardiff 2019.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að ESB 2016 kusu íbúar Wales með útgöngu úr Evrópusambandinu, þótt þar væri líka greinilegur munur á afstöðu miðað við England. Samkvæmt Danny Dorling landfræðiprófessor við Oxford-háskóla vildu hin eiginlegu velsku landsvæði, sérstaklega þar sem velska er enn töluð, ekki ganga úr sambandinu.[95]

Árið 2016 var YesCymru, óháðri herferð fyrir sjálfstæði Wales, hleypt af stokkunum. Hreyfingin hélt sinn fyrsta fund í Cardiff árið 2019.[96] Skoðanakönnun í mars 2021 sýndi 39% stuðning við sjálfstæði þegar óvissir voru útilokaðir, sem var met.[97]

Landfræði

Wales er að mestu fjalllent land við vesturströnd miðhluta eyjunnar Stóra-Bretlands.[98] Landið er um það bil 270 km frá norðri til suðurs.[99] Stærð Wales er um það bil 20.779 km².[100] Wales á landamæri að Englandi í austri og strönd í allar aðrar áttir: að Írlandshafi í norðri og vestri, Georgssundi og Keltahafi í suðvestri, og Bristolsundi í suðri.[101][102] Strönd Wales er um það bil 2.700 km að lengd miðað við flóðamörk, að meðtöldu meginlandinu, Anglesey og Holyhead.[103] Meira en 50 eyjar liggja undan strönd Wales. Sú stærsta eru Anglesey í norðvestri.[104]

Mikið af fjölbreyttu landslagi Wales eru fjöll, sérstaklega í norðri og miðhéruðunum. Fjöllin mynduðust á síðustu ísöld. Hæstu fjöll Wales eru í Snowdoniu (Eryri), þar á meðal eru fimm yfir 1.000 metrar á hæð. Hæsta fjallið er Snowdon (Yr Wyddfa), 1.085 metrar á hæð.[105][106] Fjórtán velsk fjöll (eða 15 ef Garnedd Uchaf er talið með) sem eru yfir 3.000 fet (914 metrar) á hæð, eru þekkt sem Velsku 3000-fjöllin og eru öll staðsett á litlu svæði í norðvesturhlutanum.[107] Hæsti tindurinn fyrir utan þau er Aran Fawddwy, 905 metrar á hæð, í suðurhluta Snowdoniu.[108] Brecon Beacons (Bannau Brycheiniog) eru í suðurhlutanum (hæsti tindur er Pen y Fan, 886 metrar á hæð),[109] og tengjast Kambríufjöllum í Mið-Wales (hæsti tindur Purlumon, 752 metrar á hæð).[110]

Þjóðgarðar í Wales.

Í Wales eru þrír þjóðgarðar: Snowdonia-þjóðgarðurinn, Brecon Beacons-þjóðgarðurinn og Pembrokeshire Coast-þjóðgarðurinn. Þar eru auk þess fimm svæði með framúrskarandi náttúrufegurð: Anglesey, Clwyd-fjöll og Dee-dalur, Gower-skagi, Llŷn-skagi og Wye-dalur.[111] Gower-skagi var fyrsta svæðið með framúrskarandi náttúrufegurð í Bretlandi, árið 1956. Árið 2019 voru 40 bláfánastrendur í Wales, þrjár bláfánahafnir og ein bláfánaútgerð.[112] Suður- og vesturströnd Wales, ásamt ströndum Írlands og Cornwall, verða oft fyrir vestanvindum frá Atlantshafi sem í gegnum tíðina hafa hrakið mörg skip í strand. Árið 1859 fórust 110 skip undan strönd Wales í fellibyl sem kostaði 800 mannslíf um allt Bretland.[113] Mesti skipstapinn var þegar skipið Royal Charter sökk undan Anglesey og 459 farþegar fórust.[114] Á 19. öld fórust yfir 100 skip þar og að meðaltali 78 sjómenn drukknuðu á hverju ári.[115] Skip fórust vegna stríðsátaka við Holyhead, Milford Haven og Swansea.[115] Strendur Anglesey og Pembrokeshire eru illræmdar fyrir skipsskaða, vegna skerja og ólýstra eyja. Einn af frægustu skipstöpum þar á síðustu árum var þegar Sea Empress-olíuskipið strandaði þar árið 1996.[116]

Fyrstu landamærin milli Wales og Englands voru á landi, fyrir utan ána Wye, sem voru fyrstu viðurkenndu mörkin.[117] Díki Offa átti að vera markalína, en Llewellyn lagði undir sig stór landsvæði handan þess.[117] Með sambandslögunum 1536 var dregin lína frá mynni árinnar Dee í norðri að mynni Wye í suðri,[117] en lengi á eftir voru margar markalínur óljósar og á hreyfingu þar til lög um lokanir á sunnudögum í Wales voru samþykkt árið 1881. Þau neyddu fyrirtæki til að ákveða hvoru landinu þau vildu tilheyra.[117]

Stjórnmál

Þinghúsið í Wales, Senedd, var opnað árið 2006
Vaug­h­an Get­hing, fyrsti ráðherra velska þingsins; Maí 2021

Wales er hluti af Bretlandi sem hefur þing og ríkisstjórn í Westminster. Wales á 40 þingmenn í fulltrúadeild breska þingsins. Breski verkamannaflokkurinn ræður flestum þeirra eða 22 þingsætum, sjálfstjórnarflokkurinn Plaid Cymru fjögur og Breski íhaldsflokkurinn fjórtán. Ráðherra Wales situr í ríkisstjórn Bretlands og ber þar ábyrgð á málum sem varða Wales og ráðuneyti Wales heyrir undir hann.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðslur í Wales og Skotlandi árið 1997 var ákveðið að þessi lönd fengju takmarkaða heimastjórn. Lög um ríkisstjórn Wales 1998 voru sett árið 1998. Þar með var þing Wales stofnað. Þann 1. júlí 1999 voru völd ráðherra Wales að hluta flutt til nýskipaðrar ríkisstjórnar Wales. Þing Wales fékk þar með heimild til að fara með fjárveitingarvald í þeim málum sem það fær til umfjöllunar í samræmi við fjárlög breska ríkisins. Ný lög um ríkisstjórn Wales 2006 gáfu velska þinginu löggjafarvald sem er sambærilegt við það sem skoska og norður-írska þingið hafa. Á velska þinginu sitja 60 þingmenn kosnir til fjögurra ára í senn. Þingið kýs æðsta ráðherra sem skipar ríkisstjórn.

Ríkisstjórn Wales ber einkum ábyrgð á tuttugu sviðum sem henni eru falin, þar á meðal landbúnaði, efnahagsþróun, menntamálum, heilsugæslu, húsnæðismálum, sveitarstjórnum, félagsþjónustu, ferðaþjónustu og velskri tungu. Þingið hefur jafnframt vald til að setja lög í þessum málaflokkum. Frá 2006 hafa fleiri málaflokkar bæst við.

Wales var sérstakt Evrópukjördæmi sem átti fjóra fulltrúa á Evrópuþinginu.

Sveitastjórnir

Wales er skipt í 22 sveitarfélög (sýsluumdæmi eða borgir) frá 1996. Þau bera ábyrgð á allri opinberri þjónustu í héraði eins og skólum, félagsþjónustu, umhverfismálum og vegagerð.[118]. Í Wales eru sex borgir: Cardiff, Newport, Swansea, Bangor, St Asaph og St Davids.

Í töflunni eru borgir merktar með * og sýslur með †. Velsk nöfn eru gefin upp í sviga ef þau eru ólík.

Kort af aðalsvæðum
noframe

Efnahagslíf

Yfirlit yfir efnahagslíf Wales árið 2012.

Síðustu 250 ár hefur Wales breyst úr því að vera fyrst og fremst landbúnaðarland, í iðnaðarhagkerfi og síðan eftiriðnaðarhagkerfi.[119] Á 6. áratug 20. aldar var verg landsframleiðsla í Wales tvisvar sinnum stærri en í Írska lýðveldinu, en á 3. áratug 21. aldar var verg landsframleiðsla á Írlandi fjórum sinnum stærri en í Wales. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur þjónustugeirinn staðið undir meirihluta starfa, sem er einkenni á þróuðum hagkerfum.[120] Samkvæmt gögnum OECD og Eurostat var verg landsframleiðsla í Wales árið 2018 75 milljarðar punda, sem var aukning um 3,3% frá árinu áður. Verg landsframleiðsla á mann var 23.866 pund, sem var aukning um 2,9% milli ára, samanborið við um 25.000 á Ítalíu, 22.000 á Spáni, 20.000 í Slóveníu og 30.000 á Nýja-Sjálandi.[121][122] Á þremur mánuðum fyrir desember 2017 voru 72.7% af fólki á vinnualdri með vinnu, miðað við 75,2% í Bretlandi öllu.[123] Skattaárið 2018-19 var fjárlagahalli Wales 19,4% af áætlaðri landsframleiðslu.[124]

Árið 2019 var Wales 5. stærsti útflytjandi rafmagns í heiminum (22,7 teravattstundir).[125][122] Árið 2021 sagði ríkisstjórn Wales að yfir helmingur af orkuþörf landsins kæmi frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 2% frá 363 vatnsaflsvirkjunum í einkaeigu.[126]

Samkvæmt breskum lögum leggur Wales framlög til hluta sem ekki nýtast landinu beint, eins og til dæmis 5 milljarða til háhraðalestarinnar High Speed 2 sem ráðgjafi bresku og velsku ríkisstjórnarinnar í flutningum, Mark Barry, telur að muni skaða efnahag Wales um 200 milljónir punda. Wales greiðir líka meira fyrir varnarmál en mörg lönd af svipaðri stærð. Wales greiðir þannig tvisvar sinnum meira en Írland.[127] Breska ríkisstjórnin eyðir 1,75 milljörðum á ári í herinn í Wales, sem er næstum jafn mikið og Wales ver til menntamála á ári (1,8 milljón pund 2018/19) og fimm sinnum meira en varið er til lögreglunnar (365 milljón pund).[128]

Frá miðri 19. öld til eftirstríðsáranna var kolavinnsla helsti iðnaður landsins. Framleiðslan náði hámarki árið 1913 þegar um 233.000 menn og konur störfuðu í kolanámum í Suður-Wales og unnu þar 56 milljón tonn af kolum.[129] Cardiff var einu sinni stærsta kolahöfn heims og um nokkurra ára skeið fyrir fyrri heimsstyrjöld fóru þar um fleiri tonn af kolum en í London eða Liverpool.[130] Á 3. áratugnum störfuðu yfir 40% karla í Wales í þungaiðnaði.[131] Samkvæmt stjórnmálamanninum Phil Williams lagði kreppan mikla efnahag Wales í rúst vegna þess hve háður hann var kolum og stáli.[131] Frá miðjum 8. áratugnum fóru fram miklar breytingar á efnahagslífi Wales þar sem fjöldi starfa í þungaiðnaði hvarf og í staðinn komu störf í léttum iðnaði og þjónustu. Seint á 8. áratugnum og snemma á þeim 9. tókst Wales að laða að erlenda fjárfestingu yfir meðaltali Bretlands.[132] Mikið af þessum nýju iðnfyrirtækjum voru undirverksmiðjur þar sem hæst launuðu störfin innan fyrirtækjanna voru annars staðar.[133][134]

Lélegur jarðvegur í stórum hluta Wales hentar illa fyrir jarðrækt, svo kvikfjárrækt hefur verið ríkjandi í landbúnaði. Um 78% landsins eru nýtt í landbúnaði.[135] Landslag Wales með þrjá þjóðgarða og bláfánastrendur dregur að ferðamenn sem styrkir efnahaginn í dreifbýlinu.[136] Líkt og Norður-Írland eru tiltölulega fá mjög virðisaukandi störf í Wales, eins og í fjármálageiranum og rannsóknum og þróun, sem má að hluta rekja til skorts á mannfjölda og stóru borgarsvæði.[134] Þetta endurspeglast í því að framleiðni á mann er lægri en í öðrum héruðum Bretlands að meðaltali. Árið 2002 var framleiðni í Wales 90% af meðaltali Evrópusambandsins og 80% af meðaltali Bretlands.[134] Í júní 2008 varð Wales fyrsta landið sem fékk Fairtrade-vottun.[137]

Gjaldmiðill Wales er sterlingspund. Margir velskir bankar gáfu út seðla á 19. öld. Síðasti bankinn sem gerði það lokaði árið 1908. Síðan þá hefur Englandsbanki haft einkaleyfi á útgáfu seðla í Wales.[138] Viðskiptabanki Wales var stofnaður af Julian Hodge árið 1971. Hann var keyptur af Skotlandsbanka árið 1988 og sameinaður móðurfélagi hans árið 2002.[139] Breska myntsláttan sem gefur út mynt Bretlands hefur verið staðsett í Llantrisant frá 1980.[140] Síðan tugakerfi var tekið upp árið 1971 hefur minnst ein mynt í dreifingu lagt áherslu á Wales, eins og einspundamyntin 1995 og 2000.[141]

Árið 2020 og inn í 2021 höfðu lokanir og takmarkanir vegna Kórónaveirufaraldursins áhrif á öll svið efnahagslífsins, sérstaklega ferðaþjónustu og hótelgeirann, um allt Bretland.[142]

Íbúar

Íbúafjöldi Wales tvöfaldaðist milli 1801 og 1851; var 587.000 og varð 1.163.000, og hafði náð 2.421.000 árið 1911. Mest fjölgun varð í kolanámuhéruðunum eins og Glamorganshire þar sem íbúafjöldin var kominn yfir milljón árið 1911 en var aðeins rúm 70.000 árið 1801.[143] Þessa aukningu má að miklu leyti skýra með lýðfræðilegu umbreytingunni sem flest iðnaðarríki gengu í gegnum við að dánarhlutfall féll meðan fæðingarhlutfall hélst stöðugt. Aðflutningur fólks til Wales var líka mikill á sama tíma vegna iðnvæðingarinnar, sérstaklega frá Englandi, en líka frá Írlandi og í minna mæli frá öðrum stöðum,[144][145] eins og Ítalíu.[146] Á 20. öld komu margir innflytjendur frá öðrum löndum Breska samveldisins í Karíbahafinu og Suður-Asíu og settust að í borgunum. Margt af því fólki lítur á sig sem Walesbúa.[147]

Árið 1972 var íbúafjöldinn í Wales 2,74 milljónir og hélst nokkurn veginn stöðugur í um áratug. Snemma á 9. áratugnum fækkaði fólki vegna brottflutninga en síðan þá hefur aðflutningur verið aðeins meiri en brottflutningur og á stærri þátt í vexti íbúafjöldans en fæðingartíðni.[148] Vöxturinn var 5% milli 2001 og 2011 þegar íbúar voru rétt rúmlega þrjár milljónir. Íbúar Wales voru þá 4,8% af heildaríbúafjölda Bretlands.[149] Í Wales eru sex borgir: Auk Cardiff, Newport og Swansea, eru Bangor, St Asaph og St Davids líka skilgreindar sem borgir.

Tungumál

Velska er keltneskt mál[150] og er skyldust bretónsku og kornbresku. Málfræðingar telja að keltnesku málin hafi borist til Bretlandseyja um 600 f.o.t.[151] Enska tók yfir í stað bresku málanna í Bretlandi og barst til Wales eftir að konungdæmið Powys féll á 8. öld.[152] Biblíuþýðingar á velsku og siðaskiptin sem hvöttu til notkunar alþýðumáls í messum, áttu þátt í að málið lifði af meðal alþýðufólks, en yfirstéttin hafði þá tekið upp ensku frá 15. öld. Fyrstu lögin um velsku voru samþykkt 1942 og síðan þá hafa nokkur lög styrkt opinbera stöðu málsins.[153] Á 7. áratug 20. aldar var tekið að setja upp tvítyngd götuskilti á velsku og ensku. Opinberir aðilar og einkaaðilar hafa líka tekið að nota bæði málin og frá 2011 er velska eitt af opinberum málum Bretlands.[154] Nær allir Walesbúar tala ensku og hún er aðalsamskiptamálið á flestum stöðum. Málskipti eru algeng alls staðar í Wales og ganga undir ýmsum nöfnum.[155]

Venska (velsk enska) er ensk mállýska sem töluð er í Wales. Hún er undir áhrifum frá velskri málfræði og notar mikið af tökuorðum úr velsku. Samkvæmt sagnfræðingnum John Davies hefur venskan orðið fyrir meiri fordómum en nokkuð annað frá Walesbúum.[156][157] Í norður- og vesturhluta Wales eru enn svæði þar sem aðallega er töluð velska og fólk lærir ensku sem annað mál. Manntalið árið 2011 sýndi að 562.016 manns, 19% íbúa, gátu talað velsku, sem var örlítil fækkun frá 2001 þegar 20,8% sögðust geta talað málið.[158][159]

Menning

Stúlkur í velskum þjóðbúningi á Davíðsdegi (1. mars) í velska þinghúsinu.

Menning Wales byggist á sérstöku tungumáli, hefðum, sögu, trú og hátíðum sem eiga sér langa sögu í Wales. Þjóðartákn Wales eru rauði drekinn í Wales, púrrulaukur og (nýlega) páskaliljan. Verndardýrlingur Wales er heilagur Davíð, sem var biskup í Wales á 6. öld. Wales deilir líka menningu með Englandi og margir þekktustu rithöfundar og skáld Wales, eins og Dylan Thomas, hafa skrifað á ensku fremur en velsku.

Velskur þjóðbúningur var mótaður á 19. öld úr hefðbundnum klæðnaði kvenna og velskur hattur varð þekktur sem einkenni á honum frá fyrri hluta 19. aldar. Wales er líka þekkt fyrir hörpuleik og hirðskáld miðalda sem ortu upp úr goðafræði og sögnum Bretlands. Sagnir um Artúr konung eru áberandi hluti af þessari hefð. Geoffrey frá Monmouth sem fæddist í Velsku Mörkinni á 12. öld átti þátt í að breiða þessar sagnir út um allan heim með riti sínu um konunga Bretlands á latínu. Öldungakirkjan í Wales þróaðist sem grein af meþódistakirkjunni á 18. öld og var lengi með öflugan söfnuð í Wales.[160] Nú telur rétt rúmlega helmingur Wales-búa sig kristinn og kirkjusókn er með því minnsta sem gerist í Bretlandi.[161]

Wales er þekkt sem „söngvalandið“ út af eisteddfod-hátíðunum sem ganga út á keppni í ljóðlist, skáldskap, söng og tónlist. Eisteddfod á sér fyrirmynd frá miðöldum, en var endurvakin á 18. öld. Þekktir velskir söngvarar eru meðal annars Tom Jones, Shirley Bassey og Mary Hopkin, en þekktasta rokkhljómsveit frá Wales er líklega Manic Street Preachers sem sló í gegn á 10. áratug 20. aldar. Heimsþekktir velskir leikarar eru Richard Burton, Anthony Hopkins og Catherine Zeta-Jones.

Sjónvarpsstöðin BBC Cymru Wales var sett í loftið árið 1966 og sendir nú út á tveimur sjónvarps- og tveimur útvarpsstöðvum, bæði á velsku og ensku. Sjónvarpsstöðin S4C var stofnuð árið 1982 og sendir eingöngu út á velsku. Þegar sjónvarpsþættirnir Doctor Who voru endurvaktir hjá BBC árið 2005 var ákveðið að framleiða þá í Wales.

Tilvísanir

  1. „Hvaða lönd tilheyra Bretlandi?“. Vísindavefurinn. Sótt 11. nóvember 2009.
  2. David Jones (1994). A History of Wales. Penguin. bls. 54. ISBN 0-14-01-4581-8.
  3. „Coal Exchange to 'stock exchange'. BBC. Sótt 11. nóvember 2009.
  4. „Cardiff - Coal and Shipping Metropolis of the World“. National Museum of Wales. Sótt 11. nóvember 2009.
  5. The Welsh Academy Encyclopaedia of Wales. Cardiff: University of Wales Press. 2008.
  6. „Why the Welsh voice is so musical“. BBC. Sótt 11 nóvember.
  7. „Tongue tied“. BBC. Sótt 11. nóvember 2009.
  8. „Welsh skeleton re-dated: even older!“. archaeology.co.uk website. Current Archaeology. 6. nóvember 2007. Sótt 28. september 2010.
  9. Pollard, Joshua (2001). „Wales' Hidden History, Hunter-Gatherer Communities in Wales: The Neolithic“. Í Morgan, Prys; Aldhouse-Green, Stephen (ritstjórar). History of Wales, 25,000 BC AD 2000. Stroud, Gloucestershire: Tempus Publishing. bls. 13–25. ISBN 978-0-7524-1983-1.; Davies (2008) pp. 647–648
  10. Evans, Edith; Lewis, Richard (2003). „The Prehistoric Funerary and Ritual Monument Survey of Glamorgan and Gwent: Overviews. A Report for Cadw by Edith Evans BA PhD MIFA and Richard Lewis BA“ (PDF). Proceedings of the Prehistoric Society. 64: 4. Sótt 30. september 2009. ; Davies (1994) p. 17; „Overview: From Neolithic to Bronze Age, 8000–800 BC (Page 1 of 6)“. BBC History website. BBC. 5. september 2006. Sótt 5. ágúst 2008.
  11. 11,0 11,1 11,2 Davies (1994) pp. 4–6
  12. „GGAT 72 Overviews“ (PDF). A Report for Cadw by Edith Evans BA PhD MIFA and Richard Lewis BA. Glamorgan-Gwent Archaeological Trust. 2003. bls. 47. Sótt 30. desember 2008.
  13. „Parc le Breos Burial Chamber; Parc CWM Long Cairn“. The Royal Commission on the Ancient and Historical Monuments of Wales website. Royal Commission on the Ancient and Historical Monuments of Wales. 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. apríl 2016. Sótt 24. október 2008.; „Themes Prehistoric Wales: The Stone Age“. BBC Cymru Wales website. BBC Cymru Wales. 2008. Sótt 24. október 2008.
  14. Koch, John (2009). „Tartessian: Celtic from the Southwest at the Dawn of History in Acta Palaeohispanica X Palaeohispanica 9 (2009)“ (PDF). Palaeohispánica: Revista Sobre Lenguas y Culturas de la Hispania Antigua. Palaeohispanica: 339–351. ISSN 1578-5386. Sótt 17. maí 2010.; Cunliffe, Karl, Guerra, McEvoy, Bradley; Oppenheimer, Røyrvik, Isaac, Parsons, Koch, Freeman and Wodtko (2010). Celtic from the West: Alternative Perspectives from Archaeology, Genetics, Language and Literature. Oxbow Books and Celtic Studies Publications. bls. 384. ISBN 978-1-84217-410-4.; Cunliffe, Barry (2008). A Race Apart: Insularity and Connectivity in Proceedings of the Prehistoric Society 75, 2009, pp. 55–64. The Prehistoric Society. bls. 61.
  15. Koch, John T. (2009). „A CASE FOR TARTESSIAN AS A CELTIC LANGUAGE“ (PDF). Acta Palaeohispanica X Palaeohispanica. 9.
  16. „Who were the Celts?“. Museum Wales (enska). Sótt 26. september 2022.
  17. Tacitus (1942). Church, Alfred John; Brodribb, William Jackson (ritstjórar). Annals. Random House. bls. 12:33–38.
  18. Tacitus, The Annals, translated by A. J. Woodman, 2004; see also Church & Brodribb's translation
  19. Jones, Barri; Mattingly, David (1990). „The Development of the Provinces“. An Atlas of Roman Britain. Cambridge: Blackwell Publishers (gefið út 2007). bls. 151. ISBN 978-1-84217-067-0.
  20. „RCAHMW Coflein: Caerwent Roman City; Venta Silurum“. Sótt 23. febrúar 2019.
  21. Jones, Barri; Mattingly, David (1990). „The Development of the Provinces“. An Atlas of Roman Britain. Cambridge: Blackwell Publishers (gefið út 2007). bls. 154. ISBN 978-1-84217-067-0.
  22. 22,0 22,1 Jones, Barri; Mattingly, David (1990). „The Economy“. An Atlas of Roman Britain. Cambridge: Blackwell Publishers (gefið út 2007). bls. 179–196. ISBN 978-1-84217-067-0.
  23. 23,0 23,1 23,2 23,3 23,4 Davies (2008) p. 915
  24. 24,0 24,1 Davies (2008) p. 531
  25. Frere, Sheppard Sunderland (1987). „The End of Roman Britain“. Britannia: A History of Roman Britain (3rd, revised. útgáfa). London: Routledge & Kegan Paul. bls. 354. ISBN 978-0-7102-1215-3.; Giles, John Allen, ritstjóri (1841). „The Works of Gildas, The History, Ch. 14“. The Works of Gildas and Nennius. London: James Bohn. bls. 13.
  26. Phillimore, Egerton, ritstjóri (1887). „Pedigrees from Jesus College MS. 20“. Y Cymmrodor. VIII. árgangur. Honourable Society of Cymmrodorion. bls. 83–92.; Phillimore, Egerton (1888). „The Annales Cambriae and Old Welsh Genealogies, from Harleian MS. 3859“. Í Phillimore, Egerton (ritstjóri). Y Cymmrodor. IX. árgangur. Honourable Society of Cymmrodorion. bls. 141–183.
  27. Rachel Bromwich, editor and translator. Trioedd Ynys Prydein: The Welsh Triads. Cardiff: University of Wales Press, 3rd Edition, (2006) p. 441–444
  28. Ravilious, Kate (21. júlí 2006). „Ancient Britain Had Apartheid-Like Society, Study Suggests“. National Geographic News. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2011. Sótt 9. september 2010.
  29. 29,0 29,1 Davies (1994) pp. 56
  30. Davies (1994) pp. 65–66
  31. Davies (2008) p. 926
  32. David Hill and Margaret Worthington, Offa's Dyke: history and guide, Tempus, 2003, ISBN 978-0-7524-1958-9
  33. Davies (2008) p. 911
  34. Charles-Edwards, T M (2001). „Wales and Mercia, 613–918“. Í Brown, Michelle P; Farr, Carol Ann (ritstjórar). Mercia: an Anglo-Saxon kingdom in Europe. Leicester University Press. bls. 104. ISBN 978-0-7185-0231-7. Sótt 27. nóvember 2010.
  35. Hill, David (2001). „Wales and Mercia, 613–918“. Í Brown, Michelle P; Farr, Carol Ann (ritstjórar). Mercia: an Anglo-Saxon kingdom in Europe. Leicester University Press. bls. 176. ISBN 978-0-7185-0231-7. Sótt 27. nóvember 2010.
  36. Davies (1994) p. 71
  37. Davies (2008) p. 714
  38. Davies (2008) p. 186
  39. Davies (2008) p. 388
  40. „GRUFFUDD ap LLYWELYN (died 1063), king of Gwynedd and Powys, and after 1055 king of all Wales | Dictionary of Welsh Biography“. biography.wales. Sótt 31. janúar 2022.
  41. K. L. Maund (1991). Ireland, Wales, and England in the Eleventh Century. Boydell & Brewer Ltd. bls. 216–. ISBN 978-0-85115-533-3.
  42. Maund, Kari The Welsh kings p.87-97
  43. 43,0 43,1 Davies (1994) p. 100
  44. Davies (1994) p. 128
  45. Maund, KL. Ireland, Wales, and England in the eleventh century.
  46. Davies (1994) p. 101
  47. Lieberman, Max (2010). The Medieval March of Wales: The Creation and Perception of a Frontier, 1066–1283. Cambridge: Cambridge University Press. bls. 6. ISBN 978-0-521-76978-5. Sótt 4. október 2010.
  48. „Chapter 6: The Coming of the Normans“. BBC Cymru Wales website. BBC Cymru Wales. 2008. Sótt 4. október 2010.
  49. Davies (1994) pp. 133–134
  50. Davies (1994) pp. 143–144
  51. 51,0 51,1 Davies (1994) pp. 151–152
  52. „Tribute to lost Welsh princess“. BBC News. 12. júní 2000. Sótt 5. mars 2007.
  53. 53,0 53,1 Illustrated Encyclopedia of Britain. London: Reader's Digest. 1999. bls. 459. ISBN 978-0-276-42412-0. „A country and principality within the mainland of Britain ... about half a million“
  54. Davies, Age of Conquest, pp. 357, 364.
  55. Davies (1994) p. 162
  56. Davies (2008) p. 711
  57. Davies (1994) p. 194
  58. Davies (1994) p. 203
  59. „RCAHMW: In the steps of Owain Glyndwr“.
  60. „Wales under the Tudors“. BBC. 5. nóvember 2009. Sótt 21. september 2010.
  61. Lieberman, Max (2010). The Medieval March of Wales: The Creation and Perception of a Frontier, 1066–1283. Cambridge: Cambridge University Press. bls. 4. ISBN 978-0-521-76978-5. Sótt 4. október 2010.
  62. Davies (1994) p. 232
  63. 63,0 63,1 „BBC Wales - History - Themes - Chapter 13: Society and politics in early modern Wales“. www.bbc.co.uk. Sótt 13. september 2022.
  64. 64,0 64,1 64,2 64,3 Davies (2008) p. 392
  65. 65,0 65,1 65,2 Davies (2008) p. 393
  66. Davies (2008) p. 818
  67. Eignað sagnfræðingnum A. H. Dodd: Davies (2008) p. 819
  68. „Wales – the first industrial nation of the World“. Amgueddfa Cymru – National Museum Wales. 5. október 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. október 2011. Sótt 9. september 2010.
  69. John, Arthur H. (1980). Glamorgan County History, Volume V, Industrial Glamorgan from 1700 to 1970. Cardiff: University of Wales Press. bls. 183.
  70. Davies (2008) p. 284
  71. Davies (2008) p. 285
  72. Davies (2008) p. 461
  73. „David Lloyd George (1863–1945)“. BBC Cymru Wales website. BBC Cymru Wales. Sótt 26. september 2010.
  74. Davies (2008) p. 515
  75. Davies (2008) p. 439
  76. Morgan, Kenneth O. (1982). Rebirth of a Nation: Wales 1880–1980. Oxford: Oxford University Press. bls. 208–210. ISBN 978-0-19-821760-2.
  77. Davies (2008) p. 918
  78. Davies (2008) p. 807
  79. „Disestablishment, Cymru Fydd and Plaid Cymru“. National Library of Wales. llgc.org.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. desember 2010. Sótt 25. nóvember 2010.
  80. „Cymdeithas yr Iaith Gymraeg's first protest, 1963“. Gathering the Jewels. gtj.org.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2012. Sótt 25. nóvember 2010.
  81. „Wales on Air: The drowning of Tryweryn and Capel Celyn“. BBc.co.uk. BBC. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. desember 2009. Sótt 25. nóvember 2010.
  82. „Flooding Apology“. BBC website. BBC. 19. október 2005. Sótt 18. október 2008.
  83. Clews, Roy (1980). To Dream of Freedom – The story of MAC and the Free Wales Army. Y Lolfa Cyf., Talybont. bls. 15, 21 & 26–31. ISBN 978-0-86243-586-8.
  84. „Our history – Clywedog Dam, Wales −1967“. Halcrow website. Halcrow Group Ltd. 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. desember 2011. Sótt 8. janúar 2012.; Clews, Roy (1980). To Dream of Freedom – The story of MAC and the Free Wales Army. Y Lolfa Cyf., Talybont. bls. 22, 59, 60 & 216. ISBN 978-0-86243-586-8.
  85. Gwynfor, Evans (2000). The Fight for Welsh Freedom. Y Lolfa Cyf., Talybont. bls. 152. ISBN 978-0-86243-515-8.
  86. 86,0 86,1 Davies (2008) p. 236
  87. Davies (2008) p. 237
  88. „The Constitution Series: 1 – Wales in the United Kingdom“ (PDF). National Assembly for Wales. júlí 2011. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 20. apríl 2016. Sótt 6. apríl 2016.; „History of devolution“. senedd.wales. Sótt 31. janúar 2022.; „The Welsh language Act of 1967“. BBC. 26. júlí 2012. Sótt 31. janúar 2022.
  89. 89,0 89,1 Powys, Betsan (12. janúar 2010). „The long Welsh walk to devolution“. BBC News website. BBC. Sótt 26. september 2010.
  90. „Countries within a country“. 10 Downing Street website. 10 Downing Street. 10. janúar 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2008. Sótt 5. nóvember 2010. „The United Kingdom is made up of four countries: England, Scotland, Wales and Northern Ireland.“; „UN report causes stir with Wales dubbed 'Principality'. WalesOnline website. Media Wales Ltd. 3. júlí 2010. Sótt 25. júlí 2010. „... the Assembly's Counsel General, John Griffiths, [said]: "I agree that, in relation to Wales, Principality is a misnomer and that Wales should properly be referred to as a country.“
  91. „Wales.com FAQs“. Wales.com website. Welsh Government. 2008. Sótt 24. ágúst 2015.
  92. Bogdanor, Vernon (1995). The Monarchy and the Constitution. London: Oxford University Press. bls. 52. ISBN 978-0-19-827769-9. Sótt 5. nóvember 2010.
  93. 93,0 93,1 „StackPath“. www.instituteforgovernment.org.uk. 11. apríl 2018. Sótt 31. janúar 2022.
  94. „History of devolution“. senedd.wales (bresk enska). Sótt 31. janúar 2022.
  95. „English people living in Wales tilted it towards Brexit, research finds“. The Guardian. 22. september 2019. Sótt 31. janúar 2022.
  96. Harries, Robert (8. nóvember 2020). „The rise of Yes Cymru and why people are joining in their thousands“. WalesOnline. Sótt 31. janúar 2022.
  97. „Westminster warned as poll shows record backing for Welsh independence“. The Guardian. 4. mars 2021. Sótt 31. janúar 2022.
  98. UK 2005 – The Official Yearbook of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland (PDF). Office for National Statistics. 2004. bls. 2 & 30. ISBN 978-0-11-621738-7. Sótt 10. febrúar 2012.
  99. „Geography: About Wales“. Visit Wales website. Welsh Government. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. október 2010. Sótt 3. október 2010.
  100. „England and Wales“. European Land Information Service. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júlí 2011. Sótt 2. október 2010.
  101. „Celtic Sea“. 16. desember 1974. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 ágúst 2021. Sótt 24 október 2021.
  102. „Limits of Oceans and Seas, 3rd edition + corrections“ (PDF). International Hydrographic Organization. 1971. bls. 42 [corrections to page 13]. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 8. október 2011. Sótt 28. desember 2020.
  103. Darkes, Giles (janúar 2008). „How long is the UK coastline?“. The British Cartographic Society. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. maí 2012. Sótt 6. október 2015.
  104. „Discover Welsh islands with unique scenery, wildlife and heritage“. VisitWales (enska). Sótt 15. maí 2020.
  105. Glancey, Jonathan (2. ágúst 2009). „High tea: Mount Snowdon's magical mountaintop cafe“. guardian.co.uk. London. Sótt 28. september 2010.
  106. „Mountain upgraded to 'super' status“. WalesOnline website. Media Wales Ltd. 22. september 2010. Sótt 30. september 2010.
  107. „The Welsh 3000s Challenge“. welsh3000s.co.uk. Sótt 28. september 2010.
  108. „Aran Fawddwy“. snowdoniaguide.com. Sótt 2. október 2010.
  109. Nuttall, John & Anne (1999). The Mountains of England & Wales – Volume 1: Wales (2nd edition ed.). Milnthorpe, Cumbria: Cicerone. ISBN 978-1-85284-304-5.
  110. „Ordnance Survey“. Sótt 6. júní 2020.
  111. „Areas of Outstanding Natural Beauty“. Welsh Government website. Welsh Government. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. júní 2012. Sótt 6. október 2010.
  112. Knapman, Joshua (14. maí 2019). „All of Wales' Blue Flag beaches in 2019“. walesonline. Sótt 15. maí 2020.
  113. Davies (2008) p.778
  114. „Stormy Weather“. BBC North West Wales website. BBC. 28. apríl 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. janúar 2011. Sótt 26. september 2010.
  115. 115,0 115,1 Davies (2008) p.814
  116. „In detail: The Sea Empress disaster“. BBC News website. BBC. 2000. Sótt 26. september 2010.
  117. 117,0 117,1 117,2 117,3 Davies (2008) p. 75
  118. „Local Authorities“. Ríkisstjórn Wales. Sótt 24. apríl 2015.
  119. Davies (2008), pp. 233, 697; Day, Graham (2002). Making sense of Wales. Cardiff: University of Wales Press. bls. 87. ISBN 978-0-7083-1771-6.
  120. Davies (2008), p. 233–234
  121. Barry, Mark (4. janúar 2021). „The Environment, Tax and Wales“. swalesmetroprof.blog. Sótt 13. janúar 2021.
  122. 122,0 122,1 Lloyd, Dai (14. nóvember 2020). „Wales is not a global anomaly – it can be independent just like every other nation“. Nation Cymru. Sótt 13. janúar 2021.
  123. „Llywodraeth Cymru | Welsh Government“. gov.wales. Sótt 24. febrúar 2018.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
  124. „Shortfall in public finances in Wales due to lower revenues, report finds“. Cardiff University. 2. júlí 2019. Sótt 23. apríl 2020.
  125. Donovan, Owen (16. mars 2020). „Wales' Fiscal Future – Public Finances within the UK & Independence“. The State of Wales. The State of Wales. Sótt 20. janúar 2021.
  126. Duggan, Craig (2. mars 2021). „Climate change: Private hydropower schemes 'on cliff edge'. BBC News. Sótt 2. mars 2021.
  127. Barry, Mark (7. janúar 2020). „Wales and HS2…“. Mark Barry. Sótt 13. janúar 2021.
  128. „IISS Military Balance 2020“. International Institute for Strategic Studies. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. ágúst 2020. Sótt 6. janúar 2023.
  129. „South Wales coalfield timeline“. University of Wales Swansea. 2002. Sótt 11. september 2010.
  130. „Coal Exchange to 'stock exchange'. BBC News website. BBC. 26. apríl 2007. Sótt 11. október 2008.; „Coal and Shipping Metropolis of the World“. Amgueddfa Cymru – National Museum Wales website. Amgueddfa Cymru – National Museum Wales. 18. apríl 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. janúar 2009. Sótt 11. október 2008.
  131. 131,0 131,1 Williams, Phil (september 2003). The psychology of distance: Wales: one nation. Papurau Gregynog. 3. árgangur. Cardiff: Institute of Welsh Affairs (gefið út 2003). bls. 31. ISBN 978-1-86057-066-7.
  132. Massey, Glenn (ágúst 2009). „Review of International Business Wales“ (PDF). Welsh Government. bls. 10. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4. desember 2009. Sótt 11. september 2010.
  133. „A Review of Local Economic and Employment Development Policy Approaches in OECD Countries“ (PDF). OECD Local Economic and Employment Development (LEED) Programme. OECD. bls. 8. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 22. febrúar 2011. Sótt 11. september 2010.
  134. 134,0 134,1 134,2 „Wales A Vibrant Economy“ (PDF). Welsh Government. 2005. bls. 12, 22, 40, 42. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. febrúar 2010. Sótt 2. október 2010.
  135. „Area of agricultural land, by type of crop and grass (Thousand Hectares)“. StatsWales. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2012. Sótt 2. október 2010.
  136. „Tourism hope over record 45 beach flags in Wales“. BBC News website. BBC. 11. maí 2010. Sótt 7. september 2010.; „Tourism – Sector Overview Wales“. GO Wales website. GO Wales. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. apríl 2010. Sótt 7. september 2010.
  137. „Welsh Government | Written – Wales – the world's first 'Fair Trade Nation'. Welsh Government website. Ríkisstjórn Wales. 6. júní 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. janúar 2010. Sótt 19. júní 2010.
  138. Carradice, Phil. „The collapse of the Welsh banks“. BBC Cymru Wales website. BBC. Sótt 30. september 2010.; „The Bank of England's Role in Regulating the Issue of Scottish and Northern Ireland Banknotes“. Bank of England website. Bank of England. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. febrúar 2012. Sótt 30. september 2010.
  139. „Commercial Bank of Wales, Carmarthen Branch, Papers“. Archives Wales. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. júlí 2011. Sótt 8. september 2010.
  140. „www.royalmint.gov.uk“. Royal Mint website. Royal Mint. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2010. Sótt 26. september 2010.
  141. „The New Designs Revealed“. Royal Mint website. Royal Mint. 10. febrúar 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2008. Sótt 11. október 2008.
  142. „Covid-19 impact on the Tourism and Hospitality Sector, an insight from the latest Economic Commentary“. University of Strathclyde. 18. mars 2021. „... health and economic crisis ... In particular, tourism and hospitality suffered notable losses from the pandemic.“
  143. Brian R. Mitchell and Phyllis Deane, Abstract of British Historical Statistics (Cambridge, 1962) pp 20, 22
  144. „Industrial Revolution“. BBC. Sótt 17. október 2009.
  145. LSJ Services [Wales] Ltd. „Population therhondda.co.uk. Retrieved 9 May 2006“. Therhondda.co.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. maí 2008. Sótt 17. október 2009.
  146. „BBC Wales – History – Themes – Italian immigration“. BBC. Sótt 17. október 2009.
  147. „Socialist Unity | Debate & analysis for activists & trade unionists“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. október 2011. Sótt 10. október 2016.
  148. „Wales's Population: A Demographic Overview 1971–2005“ (PDF). New.wales.gov.uk. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 19. júlí 2008. Sótt 29. ágúst 2017.
  149. „2011 Census: Population Estimates for the United Kingdom, 27 March 2011“ (PDF). Office for National Statistics. 2012. Sótt 19. desember 2012.
  150. Davies, Janet (2014). The Welsh Language: A History (2. útgáfa). Cardiff: University of Wales Press. bls. 1, 4. ISBN 978-1-78316-019-8.
  151. Davies 2014, bls. 6.
  152. Davies 2014, bls. 19.
  153. Davies 2014, bls. 117, 120, 122–123.
  154. Davies 2014, bls. 122–123.
  155. Davies (2008) p. 262
  156. Davies (1994) p. 623
  157. Hill, Claire (2. október 2006). „Why butty rarely leaves Wales“. WalesOnline website. Media Wales Ltd. Sótt 15. nóvember 2010.
  158. „2011 Census, Key Statistics for Unitary Authorities in Wales“. Office for National Statistics. 11. desember 2012. Sótt 11. desember 2012.
  159. „Census 2001: Main statistics about Welsh“. Welsh Language Board. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. maí 2011. Sótt 30. september 2010.
  160. „Our History“. The Presbyterian Church of Wales. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. apríl 2016. Sótt 7. apríl 2016.
  161. Williamson, David (24. apríl 2014). „Wales is no longer a nation of churchgoers but faith is alive“. Wales Online. Sótt 7. apríl 2016.

Tenglar