San Marínó

Repubblica di San Marino
Fáni San Marínó Skjaldarmerki San Marínó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Libertas (latína)
Frelsi
Þjóðsöngur:
Inno Nazionale
Staðsetning San Marínó
Höfuðborg San Marínó
Opinbert tungumál ítalska
Stjórnarfar Lýðveldi

Höfuðsmenn Alessandro Rossi
Milena Gasperoni
Utanríkisráðherra Luca Beccari
Sjálfstæði
 • Stofnun 3. september 301 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
191. sæti
61,2 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
219. sæti
33.607
541,3/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 2,45 millj. dala (194. sæti)
 • Á mann 72.070 dalir (10. sæti)
VÞL (2021) 0.834 (44. sæti)
Gjaldmiðill evra
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .sm
Landsnúmer +378 (0549 frá Ítalíu)

San Marínó (ítalska: Repubblica di San Marino) er örríki í Evrópu, landlukt innan Ítalíu. Ríkið er í Appennínafjöllunum, á mörkum héraðanna Emilía-Rómanja og Marke og umlykur eitt fjall, sem heitir Monte Titano.[1] Öll byggðin er í hlíðum og á toppi þessa fjalls. San Marínó er aðeins um 60 ferkílómetrar að stærð og er fimmta minnsta ríki heims. Íbúar eru um 33 þúsund og landið er í efnahagslegu tilliti algerlega háð Ítalíu.

San Marínó er landlukt land, en það er aðeins um 10 km frá strandbænum Rímíní við Adríahaf. Næsti alþjóðaflugvöllur er Federico Fellini-flugvöllur í Miramare. Höfuðborg San Marínó er San Marínó, efst á Monte Titano, en stærsti bærinn er Dogana í sveitarfélaginu Serravalle. Ítalska er opinbert mál San Marínó.

Lýðveldið dregur nafn sitt af steinsmiðnum heilögum Marínusi sem fæddist í Rab í Króatíu um 275 og tók þátt í að endurreisa borgarmúra Rímíni. Marínus stofnaði klaustur á Monte Titano árið 301, sem er talið stofnár lýðveldisins. San Marínó telur sig því vera elsta samfellda sjálfstæða ríki heims og elsta stjórnarskrárbundna lýðveldi heims. Stjórnarskrá San Marínó kveður á um skipun tveggja þjóðhöfðingja sem eru titlaðir höfuðsmenn. Þeir gegna embættum sínum aðeins í hálft ár.

San Marínó er fámennasta ríkið innan Evrópuráðsins sem það gerðist aðili að árið 1988. Landið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1992. Það er ekki í Evrópusambandinu og er ekki hluti af evrusvæðinu þótt það noti evru sem gjaldmiðil. Helstu atvinnuvegir eru bankaþjónusta, rafeindatækni, keramikframleiðsla og ferðaþjónusta. San Marínó er eitt af auðugustu löndum heims með lítið atvinnuleysi og engar ríkisskuldir.

Saga

Samkvæmt dýrlingasögu um heilagan Marínus, var hann upphaflega steinsmiður frá bænum Rab í Króatíu, sem hélt af stað þaðan ásamt æskuvini sínum, Leo, og kom til borgarinnar Rímíní. Hann hraktist þaðan þegar Díókletíanus hóf að ofsækja kristna menn, stofnaði klaustur og reisti litla kirkju á Monte Titano. Samkvæmt sögnum er stofndagur San Marínó 3. september 301.[2]

Árið 1320 ákvað bærinn Chiesanova að verða hluti af San Marínó[3] og árið 1463 bættust Faetano, Fiorentino, Montegiardino og Serravalle við. Landamæri landsins hafa verið stöðug síðan þá.[4]

Árið 1503 hernam Cesare Borgia San Marínó í hálft ár, en eftirmaður föður hans á páfastóli, Júlíus 2. páfi, endurreisti sjálfstæði lýðveldisins.[5] Árið 1543 reyndi Fabiano di Monte San Savino, frændi Júlíusar 3. að leggja San Marínó undir sig, en her hans týndist í þykkri þoku, sem íbúar San Marínó eignuðu heilögum Kvirínusi af því þetta var á messudegi hans.[6]

Eftir að hertogadæmið Úrbínó varð hluti af Páfaveldinu 1625 varð San Marínó hólmlenda innan þess. Ríkið leitaði því eftir vernd þess árið 1630, en páfi tók aldrei völdin þar í reynd.[7]

Framsókn herja Napóleons árið 1797 ógnaði sjálfstæði San Marínó um tíma. Einn af stjórnendum landsins, Antonio Onofri, vingaðist við Napóleon sem hét því að virða sjálfstæði ríkisins og bauðst jafnvel til þess að stækka landamæri þess. Stjórnendur lýðveldisins höfnuðu tilboðinu af ótta við síðari hefndaraðgerðir annarra ríkja.[8][9]

Anita og Giuseppe Garibaldi í San Marínó, 1849.

Á seinni stigum sameiningar Ítalíu leituðu margir hælis í San Marínó undan ofsóknum gegn stuðningsmönnum sameiningarinnar. Þeirra á meðal voru herforinginn Giuseppe Garibaldi og eiginkona hans Anita Garibaldi. Garibaldi lét því San Marínó halda sjálfstæði sínu. Konungsríkið Ítalía og San Marínó undirrituðu vináttusáttmála árið 1862.[10]

Landfræði

Virkið Guaita á Monte Titano.
Hluti af varnarmúr Guaita.

San Marínó er hólmlenda í Suður-Evrópu innan landamæra Ítalíu, á mörkum hérðanna Emilía-Rómanja og Marke. Landið er um 10 km frá strönd Adríahafsins við Rímíní. Ríkið er á fjalli sem er hluti af Appennínafjöllum og þar er ekkert flatlendi að ráði. Hæsti punkturinn er tindur Monte Titano í 749 metra hæð yfir sjávarmáli. Lægsti punkturinn er áin Ausa sem er þverá Marecchia[11], 55 metra yfir sjávarmáli. Í San Marínó er ekkert stöðuvatn, en helstu árnar eru Ausa, Marano og Rio San Marino. Aðeins 17% landsins eru ræktarland, en aðrar náttúruauðlindir eru grjótnámur.

Landið er eitt af þremur löndum heims sem er alveg umlukið öðru landi (hin löndin eru Vatíkanið og Lesótó). Það er þriðja minnsta land Evrópu, á eftir Vatíkaninu og Mónakó, og fimmta minnsta ríki heims.[12]

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

San Marínó skiptist milli níu sveitarfélaga sem eru kölluð castelli („kastalar“). Hvert sveitarfélag hefur sinn höfuðstað og minni byggðir sem eru kallaðar frazioni („brot“).

Sveitarfélög San Marínó
Sveitarfélög San Marínó

Stærsti bærinn er Dogana sem er hluti af sveitarfélaginu Serravalle.

Sóknir

Í lýðveldinu eru 43 kirkjusóknir (curazie):
Cà Berlone, Cà Chiavello, Cà Giannino, Cà Melone, Cà Ragni, Cà Rigo, Cailungo, Caladino, Calligaria, Canepa, Capanne, Casole, Castellaro, Cerbaiola, Cinque Vie, Confine, Corianino, Crociale, Dogana, Falciano, Fiorina, Galavotto, Gualdicciolo, La Serra, Lesignano, Molarini, Montalbo, Monte Pulito, Murata, Pianacci, Piandivello, Poggio Casalino, Poggio Chiesanuova, Ponte Mellini, Rovereta, San Giovanni sotto le Penne, Santa Mustiola, Spaccio Giannoni, Teglio, Torraccia, Valdragone, Valgiurata og Ventoso.

Menning

Íþróttir

Knattspyrna er vinsælasta íþróttagreinin í San Marínó. Fimmtán félög taka þátt í deildarkeppni landsins og fá sigurvegararnir þátttökurétt í keppnum UEFA. Jafnframt var til ársins 2019 starfrækt í landinu félagið San Marino Calcio sem keppti í neðri deildunum á Ítalíu. Árið 1988 fékk San Marínó aðild að UEFA og FIFA og lék sinn fyrsta opinbera landsleik tveimur árum seinna. Landsliðið vann sinn fyrsta og eina sigur í vináttuleik gegn Liechtenstein árið 2004. Þrívegis hefur liðið náð jafntefli í leikjum í forkeppni EM eða HM, þar á meðal gegn Tyrkjum árið 1993.

Nafn San Marínó er órofa tengt sögu Formúlu 1 keppninnar, en San Marínó-kappaksturinn var hluti af keppninni frá 1981 til 2006. Sjálf keppnisbrautin var þó utan landamæra San Marínó.

San Marino Baseball Club er eitt öflugasta hafnaboltalið Ítalíu og hefur unnið ítalska meistaratitilinn nokkrum sinnum og orðið Evrópumeistari í greininni.

San Marínó tók fyrst þátt á Ólympíuleikunum árið 1960 í Rómarborg og vetrarleikunum 1976 í Insbruck. Besti árangur íþróttamanns frá San Marínó á Ólympíuleikum eru bronsverðlaun sem Alessandra Perilli vann í riffilskotfimi í Tókýó 2020.

Íbúar

Íbúar San Marínó eru um 33.000. Þar af eru um 4.800 erlendir ríkisborgarar, flestir ítalskir. Aðrir 12.000 San Marínóbúar búa erlendis (5.700 á Ítalíu, 3.000 í Bandaríkjunum, 1.900 í Frakklandi og 1.600 í Argentínu).

Fyrsta manntalið frá árinu 1976 var gert árið 2010 og undir lok 2011 átti að birta niðurstöður, en 13% af fjölskyldum skiluðu aldrei inn upplýsingum.

Ítalska er aðaltungumálið sem er talað í San Marínó, en romagnolo (ítölsk mállýska) er líka talað víða. Nær allir íbúar San Marínó telja sig rómversk-kaþólska, líkt og íbúar Ítalíu.

Tilvísanir

  1. „Hvað getið þið sagt mér um San Marínó?“. Vísindavefurinn.
  2. M. A., Geography; B. A., Geography. „Have You Ever Wondered What the Oldest Country in the World Is?“. ThoughtCo (enska). Sótt 11. september 2021.
  3. „SanMarinoSite. Chiesanuova“. 10. október 2014.
  4. San Marino. Countries and their Cultures.
  5. Paul Joseph The Sage Encyclopedia of War: Social Science Perspectives: Volume IV, 2017, p. 1511.
  6. Nevio and Annio Maria Matteimi The Republic of San Marino: Historical and Artistic Guide to the City and the Castles, 2011, p. 20.
  7. Nevio and Annio Maria Matteimi The Republic of San Marino: Historical and Artistic Guide to the City and the Castles, 2011, p. 23.
  8. „From 1500 to beginning 1800, Napoleon in San Marino“. Sanmarinosite.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. maí 2009. Sótt 24. október 2009.
  9. Histoire abrégée des traités de paix entre les puissances de l'Europe depuis la Paix de Westphalie, Christophe-Guillaume Koch, ed., Paris, 1817, vol. V, p. 19.
  10. „Convention of Good Neighbourship between Italy and San Marino, signed at Turin, 22 March 1862“. Oxford Public International Law. Sótt 12. september 2022.
  11. „Parco Ausa“. Ecomuseo Rimini. Sótt 14. mars 2022.
  12. „San Marino“. Lonely Planet. Sótt 18. nóvember 2016.

Ítarefni