Uppruni heitis landsins er óviss en talið er að það sé komið úr norðvesturslavnesku sem heiti á slavneskum þjóðflokki. Heitið kemur fyrst fyrir í miðaldalatínu sem Croātia og í áletrun frá 9. öld þar sem Branímír af Króatíu er kallaður DUX CRUATORVM.
Landlýsing
Króatía er alls 56.594 ferkílómetrar. Landamæri Króatíu eru 2.237 km löng og strandlengjan er 5.835 km. Dinara-tindur er hæsti punktur landsins í 1.831 metra hæð í Dínarísku-ölpunum. Þar er karstlandslag með djúpum hellum.
Eyjar Króatíu eru yfir þúsund talsins og 3300 ferkílómetrar og eru Cres og Krk stærstar. Helstu fljót í landinu eru Dóná (sem rennur í gegnum borgina Vukovar), Drava, Kupa og Sava. Um 44% landsins er vaxið skógi og 9% landsins er verndað svæði, þar af eru 8 þjóðgarðar.
Stjórnsýslueiningar
Stjórnskipan Króatíu er tvískipt: Frá 1992 hefur Króatíu verið skipt í 20 sýslur líkt og á miðöldum þótt þessar sýslur séu gjörólíkar þeim fyrri. Zagreb nýtur þeirrar sérstöðu að vera bæði sýsla og borg. Sýslurnar skiptast svo í 429 sveitarfélög og 127 borgir.