Rijeka (ítalska: Fiume) er aðalhafnarborgKróatíu og þriðja stærsta borg landsins. Hún stendur við Kvarnerflóa í Adríahafi. Íbúar voru 128.624 árið 2011 en á stórborgarsvæðinu búa um 250 þúsund manns. Borgin á sér langa sögu en Rómverjar endurbyggðu eldri borg og nefndu hana Flumen. Borgin var um aldir ein mikilvægasta hafnarborg Adríahafsins og var oft tekist á um yfirráð í henni. Þegar Austurrísk-ungverska keisaradæmið leystist upp í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar varð borgin bitbein Júgóslavíu og Ítalíu en tveir þriðju íbúa voru þá ítölskumælandi. Þegar Ítalski fasistaflokkurinn komst til valda á Ítalíu var Fiume/Rijeka innlimuð. Eftir ósigur Ítala og Þjóðverja í Síðari heimsstyrjöld fékk Júgóslavía yfirráð yfir borginni og ítölskumælandi íbúar voru markvisst hraktir burt eða teknir af lífi. Undir stjórn Júgóslavíu óx borgin mikið og var stærsta hafnarborg landsins.