Evrópuráðið er alþjóðasamtök 47 ríkja í Evrópu, með samanlagt um 800 milljónir borgara, stofnuð 5. maí1949. Aðild er opin öllum Evrópuríkjum sem teljast réttarríki byggð á lögum og virða grundvallar mannréttindi og frelsi borgara sinna.
Evrópuráðið hefur höfuðstöðvar í Strassborg nálægt landamærum Frakklands og Þýskalands, höfuðstöðvarnar eru í byggingu sem nefnist Evrópuhöllin og er á jaðri miðborgarinnar.
Evrópuráðið tengist ekki Evrópusambandinu, öll aðildarríki ESB eru einnig í Evrópuráðinu en ekki eru öll aðildarríki ráðsins í Evrópusambandinu. Til að flækja málin þá eru tvær stofnanir innan ESB með keimlík nöfn, þ.e. Evrópska ráðið og Ráð Evrópusambandsins.
Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar var vilji leiðtoga Evrópu sá að koma í veg fyrir frekari stríðsátök í Evrópu í framtíðinni, bráðnauðsynlegt skref í þá átt væri að tryggja að í öllum Evrópulöndum væru mannréttindi allra einstaklinga virt og að stuðla ætti að gagnkvæmum skilningi og samvinnu meðal Evrópuþjóða.
Markmiðin:
Að verja og efla mannréttindi, lýðræði og réttarríkið
Samræma stefnu og aðgerðir ríkjanna í lögum og félagsmálum
Efla vitund um sam-evrópsk menningargildi og fjölbreytni