Armenía er lýðræðisríki sem á sér fornar rætur. Það rekur uppruna sinn til járnaldarríkisins Urartu sem var stofnað á 9. öld f.Kr. Á 6. öld f.Kr. tók Satrapsdæmið Armenía við af því. Fornaldarkonungsríkið Armenía náði hátindi sínum undir stjórn Tígranesar mikla á 1. öld f.Kr. og varð fyrsta land heims sem tók Kristni upp sem ríkistrúarbrögð seint á 3. öld eða snemma á 4. öld. Opinbera ártalið er 301. Snemma á 5. öld var þessu ríki skipt milli Austrómverska ríkisins og Sassanída. Bagratuni-ætt endurreisti konungsríkið á 9. öld. Ríkinu hnignaði vegna átaka við Austrómverska ríkið. Það leið undir lok árið 1045 og skömmu síðar gerðu Seljúktyrkir innrás. Armenskt furstadæmi og síðar Kilikíska konungsríkið Armenía voru stofnuð á strönd Svartahafs milli 11. og 14. aldar.
Armenía er aðili að Evrasíska efnahagsbandalaginu, Evrópuráðinu og SSR. Frá 1991 til 2024 studdi Armenía sjálfstæði Artsak-lýðveldisins sem var de facto sjálfstætt ríki innan landamæra Aserbaísjan í héraðinu Nagornó-Karabak þar sem meirihluti íbúa voru Armenar. Eftir stríð milli Armeníu og Aserbaísjan árið 2020 náði Aserbaísjan að mestu stjórn í héraðinu á ný. Aserbaísjan leysti upp Artsak-lýðveldið í byrjun ársins 2024 og fjöldi armenskumælandi íbúa þess flúði til Armeníu í kjölfarið.
Landfræði
Armenía er vanalega talin til Asíu landfræðilega, en er oft talin til Evrópulanda af menningarsögulegum ástæðum.
Landslagið er að mestu fjöllótt og er þar mikið um ár en lítið skóglendi. Meginlandsloftslag einkennir veðurfarið, heit sumur og kaldir vetur. Landið rís 4.095 metra yfir sjávarmáli á fjallinu Aragats og lægsti punktur er tæpa 400 m yfir sjávarmáli. Fjallið Ararat sem Armeníumenn líta á sem tákn lands síns er hæsta fjallið á þessum slóðum og var hluti af Armeníu allt til ársins 1915, þegar það féll í hendur Tyrkjum.
Armenía er nú að kljást við umhverfisvandamál. Þeir hafa stofnað umhverfisvarnarráð og skattleggja loft- og vatnsmengun og losun úrgangs í föstu formi. Tekjurnar af þeim sköttum á að nota til varnar umhverfinu. Armenía hefur áhuga að vinna með aðilum Samveldis sjálfstæðra ríkja sem og öðrum þjóðum, að lausn umhverfisvandamála. Armenska stjórnin stefnir að því að loka kjarnorkuverinu í Madzamor nærri höfuðborginni, strax og aðrar leiðir til rafmagnsframleiðslu bjóðast.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Armenía skiptist í tíu héruð (marzer, eintala marz), en borgin (kaghak) Jerevan hefur sérstaka stöðu sem höfuðborg landsins. Stjórn héraðanna er í höndum héraðsstjóra (marzpet) sem er skipaður af ríkisstjórn landsins. Stjórn Jerevan er í höndum borgarstjóra sem forseti landsins skipar.
Í hverju héraði eru nokkur sveitarfélög (hamaynkner, eintala hamaynk). Hvert sveitarfélag hefur sveitarstjórn og getur skipst í byggðir (bnakavayrer, eintala hnakavayr). Byggðir eru ýmist skilgreindar sem bæir (kaghnakner, eintala kaghak) eða þorp (gyugher, eintala gyugh). Sveitarfélög í Armeníu voru 915 árið 2007, þar af 49 þéttbýlisfélög og 866 dreifbýlisfélög. Höfuðborgin Jerevan hefur líka stöðu sveitarfélags.[1] Hún skiptist í tólf umdæmi með sjálfstjórn að hluta.