Armenía

Lýðveldið Armenía
Հայաստանի Հանրապետություն
Hayastani Hanrapetut’yun
Fáni Armeníu Skjaldarmerki Armeníu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Մեկ Ազգ, Մեկ Մշակույթ
Mek Azg, Mek Mshakouyt
(„Ein þjóð, ein menning”)
Þjóðsöngur:
Mer Hayrenik
Staðsetning Armeníu
Höfuðborg Jerevan
Opinbert tungumál armenska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Vahagn Khatsjatúrjan (Վահագն Խաչատուրյան)
Forsætisráðherra Níkol Pasjínjan (Նիկոլ Փաշինյան)
Stofnun
 • Orontítar 6. öld f.Kr. 
 • Konungsríkið Armenía 190 f.Kr. 
 • Arsjakítar 52-428 
 • Bagratítar 885–1045 
 • Kilikíska Armenía 1198–1375 
 • Fyrsta armenska lýðveldið 28. maí 1918 
 • Sjálfstæði frá Sovétríkjunum 21. september 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
138. sæti
29.743 km²
4,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
134. sæti
2.951.745
101,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 32,893 millj. dala (127. sæti)
 • Á mann 10.995 dalir (104. sæti)
VÞL (2018) 0.760 (81. sæti)
Gjaldmiðill dramm (AMD)
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .am
Landsnúmer +374

Armenía (armenska: Հայաստան, umritað Hayastan) er landlukt land í sunnanverðum Kákasusfjöllum á milli Svartahafs og Kaspíahafs. Landið er í Evrasíu og er ýmist talið til Austur-Evrópu eða Vestur-Asíu. Það á landamæri að Tyrklandi í vestri, Georgíu í norðri, Aserbaísjan og Lýðveldinu Nagornó-Karabak í austri, og Íran og asersku útlendunni Naksjivan í suðri.

Armenía er lýðræðisríki sem á sér fornar rætur. Það rekur uppruna sinn til járnaldarríkisins Urartu sem var stofnað á 9. öld f.Kr. Á 6. öld f.Kr. tók Satrapsdæmið Armenía við af því. Fornaldarkonungsríkið Armenía náði hátindi sínum undir stjórn Tígranesar mikla á 1. öld f.Kr. og varð fyrsta land heims sem tók Kristni upp sem ríkistrúarbrögð seint á 3. öld eða snemma á 4. öld. Opinbera ártalið er 301. Snemma á 5. öld var þessu ríki skipt milli Austrómverska ríkisins og Sassanída. Bagratuni-ætt endurreisti konungsríkið á 9. öld. Ríkinu hnignaði vegna átaka við Austrómverska ríkið. Það leið undir lok árið 1045 og skömmu síðar gerðu Seljúktyrkir innrás. Armenskt furstadæmi og síðar Kilikíska konungsríkið Armenía voru stofnuð á strönd Svartahafs milli 11. og 14. aldar.

Heimaland Armena skiptist milli Tyrkjaveldis og Persaveldis næstu aldirnar. Á 19. öld lagði Rússneska keisaradæmið austurhluta þess undir sig en vesturhlutinn var enn undir stjórn Tyrkjaveldis. Í Fyrri heimsstyrjöld reyndu Tyrkir að útrýma Armenum í vesturhlutanum sem leiddi til þjóðarmorðsins á Armenum milli 1914 og 1923. Eftir Rússnesku byltinguna 1918 lýstu öll lönd Rússneska keisaradæmisins sem ekki voru rússnesk yfir sjálfstæði. Fyrsta armenska lýðveldið var þá stofnað. Árið 1920 varð það hluti af Sovétlýðveldinu Transkákasíu og varð stofnaðili að Sovétríkjunum 1922. Árið 1936 var sovétlýðveldið Transkákasía leyst upp og Sovétlýðveldið Armenía var stofnað. Sovétlýðveldið lýsti yfir sjálfstæði og stofnun lýðveldis þegar Sovétríkin leystust upp árið 1991.

Armenska postulakirkjan er þjóðkirkja Armeníu. Armenska kirkjan er elsta þjóðkirkja heims og helsta kirkjudeild landsins, þar sem 93% íbúa telja sig til hennar. Armenska stafrófið var búið til af Mesrop Mashtots árið 405.

Armenía er aðili að Evrasíska efnahagsbandalaginu, Evrópuráðinu og SSR. Frá 1991 til 2024 studdi Armenía sjálfstæði Artsak-lýðveldisins sem var de facto sjálfstætt ríki innan landamæra Aserbaísjan í héraðinu Nagornó-Karabak þar sem meirihluti íbúa voru Armenar. Eftir stríð milli Armeníu og Aserbaísjan árið 2020 náði Aserbaísjan að mestu stjórn í héraðinu á ný. Aserbaísjan leysti upp Artsak-lýðveldið í byrjun ársins 2024 og fjöldi armenskumælandi íbúa þess flúði til Armeníu í kjölfarið.

Landfræði

Armenía er vanalega talin til Asíu landfræðilega, en er oft talin til Evrópulanda af menningarsögulegum ástæðum.

Landslagið er að mestu fjöllótt og er þar mikið um ár en lítið skóglendi. Meginlandsloftslag einkennir veðurfarið, heit sumur og kaldir vetur. Landið rís 4.095 metra yfir sjávarmáli á fjallinu Aragats og lægsti punktur er tæpa 400 m yfir sjávarmáli. Fjallið Ararat sem Armeníumenn líta á sem tákn lands síns er hæsta fjallið á þessum slóðum og var hluti af Armeníu allt til ársins 1915, þegar það féll í hendur Tyrkjum.

Armenía er nú að kljást við umhverfisvandamál. Þeir hafa stofnað umhverfisvarnarráð og skattleggja loft- og vatnsmengun og losun úrgangs í föstu formi. Tekjurnar af þeim sköttum á að nota til varnar umhverfinu. Armenía hefur áhuga að vinna með aðilum Samveldis sjálfstæðra ríkja sem og öðrum þjóðum, að lausn umhverfisvandamála. Armenska stjórnin stefnir að því að loka kjarnorkuverinu í Madzamor nærri höfuðborginni, strax og aðrar leiðir til rafmagnsframleiðslu bjóðast.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Héruð Armeníu

Armenía skiptist í tíu héruð (marzer, eintala marz), en borgin (kaghak) Jerevan hefur sérstaka stöðu sem höfuðborg landsins. Stjórn héraðanna er í höndum héraðsstjóra (marzpet) sem er skipaður af ríkisstjórn landsins. Stjórn Jerevan er í höndum borgarstjóra sem forseti landsins skipar.

Í hverju héraði eru nokkur sveitarfélög (hamaynkner, eintala hamaynk). Hvert sveitarfélag hefur sveitarstjórn og getur skipst í byggðir (bnakavayrer, eintala hnakavayr). Byggðir eru ýmist skilgreindar sem bæir (kaghnakner, eintala kaghak) eða þorp (gyugher, eintala gyugh). Sveitarfélög í Armeníu voru 915 árið 2007, þar af 49 þéttbýlisfélög og 866 dreifbýlisfélög. Höfuðborgin Jerevan hefur líka stöðu sveitarfélags.[1] Hún skiptist í tólf umdæmi með sjálfstjórn að hluta.

Nr. Hérað Höfuðstaður Stærð (km²) Íbúar †
1 Aragatsotn Արագածոտն Ashtarak Աշտարակ 2.756 132.925
2 Ararat Արարատ Artashat Արտաշատ 2.090 260.367
3 Armavir Արմավիր Armavir Արմավիր 1.242 265.770
4 Gegharkunik   Գեղարքունիք   Gavar Գավառ 5.349 235.075
5 Kotayk Կոտայք Hrazdan Հրազդան 2.086 254.397
6 Lori Լոռի Vanadzor Վանաձոր 3.799 235.537
7 Shirak Շիրակ Gyumri Գյումրի 2.680 251.941
8 Syunik Սյունիք Kapan Կապան 4.506 141.771
9 Tavush Տավուշ Ijevan Իջևան 2.704 128.609
10 Vayots Dzor Վայոց Ձոր Yeghegnadzor Եղեգնաձոր   2.308 52.324
11 Jerevan Երևան 223 1.060.138

† Manntal 2011
Heimild: [2]

Tilvísanir

  1. „Regional Administration Bodies“. The Government of the Republic of Armenia. Afrit af uppruna á 11. febrúar 2012. Sótt 11. september 2008.
  2. „Armstat:Provinces, area and population“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10. október 2017.

Tenglar

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.