Flestir íbúar landsins eru Tadsíkar, sem er almennt heiti yfir ýmis persneskumælandi þjóðarbrot í Mið-Asíu. Tadsíska er afbrigði nútímapersnesku. Múslimar eru 98% íbúa og súnní íslam af hanafi-grein er opinber trú, en stjórnarskrá landsins kveður á um trúfrelsi og ríkisvaldið er veraldlegt. Í landinu búa einnig Úsbekar, Kirgisar og Rússar. Í austurhluta landsins búa Pamírar sem eru sjítar. Í fjallahéruðum í norðri búa Jagnóbar sem tala jagnóbísku sem er eina tungumálið sem komið er af sogdísku sem eitt sinn var töluð um alla Mið-Asíu.
Tadsíkistan var fátækasta sovétlýðveldið innan Sovétríkjanna og það er nú fátækasta land Mið-Asíu. Borgarastyrjöldin hafði mjög neikvæð áhrif á efnahagslíf landsins en eftir vopnahléð hefur það aftur tekið við sér. Helstu útflutningsvörur Tadsíkistans eru ál og baðmull. Tadsíska ríkisfyrirtækið TALKO rekur stærsta álver Mið-Asíu og eitt það stærsta í heimi. Nurekstíflan í ánni Vaksj er önnur hæsta manngerða stífla heims.
Landfræði
Tadsíkistan er landlukt land og minnsta land Mið-Asíu að flatarmáli. Það er að mestu milli 36. og 41. breiddargráðu norður og 67. og 75. lengdargráðu austur. Tadsíkistan er í Pamírfjöllum og stærstur hluti landsins er í yfir 3.000 metra hæð. Helstu láglendissvæðin eru í Ferganadal í norðri og í árdölum Kofarnihon-ár og Vakhsh-ár sem renna saman í Amu Darya í suðri. Dúsjanbe er í suðurhlíðum Kofarnihon-dals.
Árnar Amu Darya og Panj mynda landamæri Tadsíkistans við Afganistan, og jöklar í fjöllum Tadsíkistans eru mikilvæg upptök vatns sem rennur í Aralvatn. Yfir 900 ár í Tadsíkistan eru yfir 10 km að lengd.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Tadsíkistan skiptist í 4 stjórnsýslueiningar. Þetta eru héruðin (viloyat) Sughd og Khatlon, sjálfstjórnarhéraðið Gorno-Badakhshan (skammstafað GBAO) og Lýðveldisstjórnarhéraðið (NTJ – Ноҳияҳои тобеи ҷумҳурӣ á tadsikísku; áður þekkt sem Karotegin-hérað). Hvert hérað skiptist í nokkur umdæmi (Ноҳия nohija), sem aftur skiptast í jamoöt (þorpseiningar) og síðan þorp (qyshloq). Árið 2006 voru 58 umdæmi og 367 jamoöt í Tadsíkistan.[1]
Íbúar Tadsíkistan eru tæplega 10 milljónir. 70% þeirra eru undir þrítugu og 35% eru milli 14 og 30 ára.[3]Tadsíkar sem tala tadsikísku (skyld persnesku) eru stærsta þjóðarbrotið. Í landinu búa einnig stórir hópar Rússa og Úsbeka, en þeim fer fækkandi vegna brottflutnings.[4]Pamírar í Badaksjan, lítill hópur Jagnóba, og nokkuð stór minnihlutahópur Ísmaíla, eru allir taldir með Tadsíkum.[5]
Árið 1989 voru Rússar 7,6% íbúa landsins, en 1998 hafði hlutfall þeirra minnkað niður í 0,5%, eftir borgarastyrjöldina í Tadsíkistan sem olli miklum búsifjum meðal Rússa. Eftir stríðið hélt brottflutningur Rússa áfram.[6] Fjöldi Þjóðverja hefur líka minnkað í Tadsíkistan vegna brottflutnings. Þjóðverjar voru flestir 38.853 árið 1979, en eru nú nær horfnir.[7]
Tilvísanir
↑ 1,01,1Population of the Republic of Tajikistan as of 1 January 2008, State Statistical Committee, Dushanbe, 2008