Asía

Heimskort sem sýnir staðsetningu Asíu

Asía er stærsta og fjölmennasta heimsálfa jarðar og er að mestu staðsett á norðurhveli og austurhveli. Hún er austari hluti landflæmis sem er kallað Evrasía þar sem Evrópa er vestari hlutinn. Asía er um 44,6 milljón ferkílómetrar að stærð sem eru um 30% af þurrlendi jarðarinnar og 8,7% af yfirborði hennar. Asía hefur lengi verið heimkynni meirihluta íbúa jarðar[1] og þar risu fyrstu siðmenningarsamfélög mannkynssögunnar. Árið 2021 voru íbúar Asíu 4,7 milljarðar sem eru um 60% alls mannkyns.[2]

Erfitt er að skilgreina mörk Asíu nákvæmlega, en gróflega eru þau oft sögð liggja suður Úralfjöll og Úralfljót, gegnum Kaspíahaf og Kákasusfjöll, þaðan í gegn um Svartahafið, Bosporussund, Marmarahaf og Dardanellasund.[3] Þaðan liggi mörkin um Miðjarðarhaf og í gegnum Súesskurð. Asía á strönd að Norður-Íshafi í norðri, Indlandshafi í suðri og Kyrrahafi í austri.

Kína og Indland skiptust á að vera stærstu hagkerfi heims frá upphafi okkar tímatals til um 1800. Auðlegð Kína skapaði aðdráttarafl fyrir evrópska og arabíska kaupmenn, landkönnuði og landvinningamenn[4][5][6] og í mörgum ritum var Indland eins konar táknmynd fyrir álfuna og auðæfi hennar.[7] Fundur Ameríku orsakaðist af leit Evrópubúa að nýrri siglingaleið til Indlands. Silkivegurinn var helsta verslunarleið Asíu í austur-vestur og Malakkasund var ein helsta siglingaleiðin. Á 20. öld þróuðust hagkerfi margra Asíulanda hratt auk þess sem íbúafjöldi óx, en fjölgun íbúa hefur dregist saman síðustu áratugi.[8] Í Asíu urðu helstu trúarbrögð heimsins til: hindúatrú, sóróismi, gyðingdómur, jainismi, búddatrú, konfúsíusismi, daóismi, kristni og íslam.

Asía býr yfir mikilli fjölbreytni þjóða, menningarsvæða, tungumála, umhverfis, efnahags og stjórnarfars. Loftslagið er líka fjölbreytt, allt frá eyðimerkurloftslagi í Mið-Austurlöndumsífrera á Norðurslóðum. Asíu er oft skipt niður í sex svæði: Norður-, Suður-, Mið-, Austur-, Suðaustur- og Vestur-Asíu eftir landfræði og menningarsvæðum.

Heiti

Nafnið Asía kemur upprunalega úr grísku, Ἀσία, þar sem það vísar til Litlu-Asíu. Orðið kemur fyrir í ritum Heródótosar. Pliníus var einna fyrstur til að nota heitið yfir stærra svæði. Með tímanum náði það yfir alla heimsálfuna. Hugsanlega er það dregið af akkadíska orðinu ἀσυ asu „að rísa“ sem vísar til rísandi sólar.

Asía var stundum kölluð Austurálfa eða Austurheimur í eldri íslenskum ritum.

Landfræði

Í Himalajafjöllum eru hæstu fjallstindar heims.

Asía er stærsta heimsálfan. Hún þekur um 9% af yfirborði jarðar (um 30% af þurrlendi) og strandlengjan er 62.800 km löng. Heimsálfan er oftast skilgreind þannig að hún nái yfir austari 4/5 hluta Evrasíu. Hún liggur austan við Súesskurð og Úralfjöll, og sunnan við Kákasusfjöll (eða Kuma–Manych-dældina), Kaspíahaf og Svartahaf.[3][9] Asía á strönd að Kyrrahafi í austri, Indlandshafi í suðri og Norður-Íshafi í norðri. Lönd Asíu eru 49 talsins, en fimm þeirra (Rússland, Georgía, Kasakstan, Tyrkland og Aserbaísjan) eru talin vera að hluta í Asíu og að hluta í Evrópu.

Góbíeyðimörkin er í Mongólíu og Arabíueyðimörkin nær yfir stóran hluta Suðvestur-Asíu. Lengsta fljót Asíu er Jangtse í Kína. Himalajafjöll milli Nepals og Kína eru hæstu fjöll heims. Hitabeltisregnskógar vaxa í Suður-Asíu en norðar eru barr- og laufskógabelti.

Landsvæði

Asíu hefur verið skipt í minni svæði á ýmsan hátt í gegnum tíðina. Tölfræðideild Sameinuðu þjóðanna notast við eftirfarandi skiptingu til hægðarauka, án þess að hún hafi neitt með innbyrðis skyldleika landanna að gera.[10]

Lönd í Asíu

Norður-Asía
Rússland (að hluta) Moskva
Mið-Asía
Kasakstan (að hluta) Astana
Kirgistan Bishkek
Tadsíkistan Dúsjanbe
Túrkmenistan Asgabat
Úsbekistan Taskent
Vestur-Asía
Armenía Jerevan
Aserbaísjan (að hluta) Bakú
Barein Manama
Georgía (að hluta) Tbilisi
Írak Bagdad
Íran Teheran
Ísrael Jerúsalem (umdeilt)
Jemen Sana'a
Jórdanía Amman
Katar Dóha
Kúveit Kúveitborg
Kýpur Nikósía
Líbanon Beirút
Óman Múskat
Palestínuríki (enn undir yfirráðum Ísraels) Ramallah (umdeilt)
Sádi-Arabía Ríad
Sameinuðu arabísku furstadæmin Abú Dabí
Sýrland Damaskus
Tyrkland (að hluta) Ankara
Suður-Asía
Afganistan Kabúl
Bangladess Dakka
Bútan Timfú
Indland Nýja-Delí
Maldíveyjar Malé
Nepal Katmandú
Pakistan Íslamabad
Srí Lanka Sri Jayawardenepura Kotte
Austur-Asía
Hong Kong (Kína)
Japan Tókýó
Kína Beijing
Maká (Kína)
Mongólía Úlan Bator
Norður-Kórea Pjongjang
Suður-Kórea Seúl
Taívan (umdeilt) Taípei
Suðaustur-Asía
Austur-Tímor Dili
Brúnei Bandar Seri Begawan
Mjanmar Naypyidaw
Filippseyjar Manila
Indónesía Djakarta
Kambódía Phnom Penh
Laos Vientiane
Malasía Kúala Lúmpúr
Singapúr Singapúr
Taíland Bangkok
Víetnam Hanoí
Auk þessara ríkja eru þrjú lönd sem njóta takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar:
Abkasía Súkúmí
Norður-Kýpur Norður-Nikósía
Suður-Ossetía Tskinval

Tilvísanir

  1. „The World at Six Billion“. UN Population Division. Afrit af uppruna á 5. mars 2016., Table 2
  2. „Population of Asia. 2019 demographics: density, ratios, growth rate, clock, rate of men to women“. www.populationof.net. Sótt 2. júní 2019.
  3. 3,0 3,1 National Geographic Atlas of the World (7th. útgáfa). Washington, D.C.: National Geographic. 1999. ISBN 978-0-7922-7528-2. "Europe" (pp. 68–69); "Asia" (pp. 90–91): "A commonly accepted division between Asia and Europe is formed by the Ural Mountains, Ural River, Caspian Sea, Caucasus Mountains, and the Black Sea with its outlets, the Bosporus and Dardanelles."
  4. Nalapat, M. D. „Ensuring China's 'Peaceful Rise'. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. janúar 2010. Sótt 22. janúar 2016.
  5. Dahlman, Carl J; Aubert, Jean-Eric. China and the Knowledge Economy: Seizing the 21st Century. WBI Development Studies. World Bank Publications. Sótt 22. janúar, 2016. 2000. ISBN 978-0-8213-5005-8. Afrit af uppruna á 4. mars 2008. Sótt 9. nóvember 2017.
  6. „The Real Great Leap Forward“. The Economist. 30. september 2004. Afrit af uppruna á 27. desember 2016.
  7. [1] Geymt 20 nóvember 2008 í Wayback Machine
  8. „Like herrings in a barrel“. The Economist. Millennium issue: Population. tölublað. 23. desember 1999. Afrit af uppruna á 4. janúar 2010..
  9. Asia. 2006. Afrit af uppruna á 18. nóvember 2008.
  10. „Standard Country or Area Codes for Statistical Use (M49 Standard)“. UN Statistica Division. "Geographic Regions" anklicken Zitat: "The assignment of countries or areas to specific groupings is for statistical convenience and does not imply any assumption regarding political or other affiliation of countries or territories by the United Nations."