Barein

Konungsríkið Barein
مملكة البحرين
Mamlakat al Bahrayn
Fáni Barein Skjaldarmerki Barein
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Baḥraynunā
Staðsetning Barein
Höfuðborg Manama
Opinbert tungumál arabíska og enska
Stjórnarfar Konungsríki

Konungur Hamad bin Isa Al Khalifa
Krónprins Salman bin Hamad bin Isa Al Khalifa
Forsætisráðherra Salman bin Hamad bin Isa Al Khalifa
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
172. sæti
780 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
149. sæti
1.569.446
1.831/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 78,760 millj. dala (94. sæti)
 • Á mann 52.129 dalir (19. sæti)
VÞL (2018) 0.838 (45. sæti)
Gjaldmiðill bareinskur dínar (BHD)
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .bh
Landsnúmer +973

Barein (arabíska: البحرين‎ al-Baḥrayn), formlega Konungsríkið Barein (arabíska: مملكة البحرين‎ Mamlakat al-Baḥrayn), er eyríki í Persaflóa úti fyrir strönd Sádi-Arabíu í vestri og Katar í suðri. Barein er lítill eyjaklasi með 51 náttúrulegri og 33 manngerðum eyjum, þar sem stærsta eyjan, Barein, nær yfir 83% af landi ríkisins. Landið tengist Sádi-Arabíu með vegbrú, Fahd-vegtengingunni, og í bígerð er að byggja brú til Katar einnig. Meira en helmingur af 1,5 milljón íbúum landsins eru ekki bareinskir að uppruna. Landið er aðeins 780 ferkílómetrar að stærð og er því þriðja minnsta land Asíu, á eftir Maldíveyjum og Singapúr. Manama er bæði höfuðborg landsins og stærsta borgin.

Talið er að Barein hafi verið miðstöð Dilmunmenningarinnar í fornöld.[1] Síðar varð það hluti af ríkjum Parþa og Sassanída. Barein var lengi frægt fyrir perluveiði. Landið var eitt það fyrsta sem snerist til Íslam árið 628, þegar Múhameð spámaður var enn á lífi. Eftir að hafa verið undir arabískum yfirráðum um langt skeið lögðu Portúgalar það undir sig árið 1521 en þeir voru reknir burt af Abbas mikla sem lagði landið undir veldi Safavída árið 1602. Árið 1783 lagði Bani Utbah-ættbálkurinn eyjuna undir sig og síðan þá hefur Al Khalifa-fjölskyldan ríkt þar. Seint á 19. öld varð landið breskt verndarsvæði. Í kjölfar þess að Bretar drógu sig út úr heimshlutanum seint á 7. áratug 20. aldar lýsti Barein yfir sjálfstæði árið 1971. Landið var formlega lýst konungsríki árið 2002 en var áður emírsdæmi (furstadæmi).

Frá 2011 til 2013 stóð þar uppreisn meirihluta sjíamúslima gegn stjórninni sem hófst eftir Arabíska vorið.[2] Al Khalifa-fjölskyldan hefur verið sökuð um mannréttindabrot og ofbeldi gegn stjórnarandstæðingum. [3]

Barein var fyrsta landið Arabíumegin við Persaflóa þar sem olíulindir uppgötvuðust árið 1932.[4] Frá síðari hluta 20. aldar hefur efnahagur landsins byggst á fleiri þáttum, einkum banka- og ferðaþjónustu,[5] en eldsneytisútflutningur er enn helsti útflutningsvegur landsins og stendur undir 11% af vergri landsframleiðslu. Helstu vandamál landsins stafa af minnkandi olíu- og vatnsbirgðum og atvinnuleysi ungs fólks. Alþjóðabankinn skilgreinir Barein sem hátekjuland og það situr hátt á vísitölu um þróun lífsgæða. Barein er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Samtökum hlutlausra ríkja, Arababandalaginu, Samtökum um íslamska samvinnu og Persaflóasamstarfsráðinu.

Landfræði

Gervihnattamynd af Barein og austurströnd Sádi-Arabíu árið 2016.

Barein er flatlendur og þurr eyjaklasi í Persaflóa. Lág eyðimerkurslétta hækkar örlítið að lágum bakka í miðjunni þar sem hæsti punktur landsins er Reykfjall (Jabal ad Dukan) 134 metrar á hæð.[6] Barein var áður 665 ferkílómetrar að stærð, en vegna endurheimtar lands er það nú 780 ferkílómetrar.[7]

Barein er oft sagt vera eyjaklasi 33 eyja,[8] en vegna endurheimtar lands taldi það 84 eyjar árið 2008.[9] Barein á engin landamæri að öðru landi, en er með 161 km langa strandlengju og gerir tilkall til bæði 12 mílna landhelgi og 24 mílna aðliggjandi lögsögu. Stærstu eyjar eyjaklasans eru Bareineyja, Hawar-eyjar, Muharraq-eyja, Umm an Nasan og Sitra. Loftslag í Barein einkennist af mildum vetrum og heitum, rökum sumrum. Helstu náttúruauðlindir eru miklar olíulindir, jarðgaslindir og fiskimið undan ströndum landsins. Ræktarland er aðeins 2,82% af þurrlendinu.[10]

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Fyrsta sveitarfélagið í Barein var Manama sem var stofnað í júlí 1919.[11] Sveitarstjórnarmenn voru kosnir árlega. Sveitarfélagið var sagt vera það fyrsta í Arabaheiminum.[11] Sveitarfélagið bar ábyrgð á hreinsun gatna og leigu húsnæðis. Árið 1929 hóf það vegagerð auk þess að opna markaði og sláturhús.[11] Árið 1958 hóf sveitarfélagið hreinsun vatns.[11] Árið 1960 voru fjögur sveitarfélög í Barein: Manama, Hidd, Al Muharraq og Riffa.[12] Á næstu 30 árum var þessum 4 sveitarfélögum skipt í 12 sveitarfélög eftir því sem bæir eins og Hamad-bær og Isa-bær uxu.[12] Þessum sveitarfélögum var stýrt af sveitarstjórnarráði í Manama og fulltrúar þess voru skipaðir af konungi.[13]

Fyrstu sveitarstjórnarkosningarnar í Barein eftir að landið fékk sjálfstæði 1971, voru haldnar 2002.[14] Þær síðustu voru haldnar 2010. Sveitarfélögin voru:

Kort Fyrrum sveitarfélög
1. Al Hidd
2. Manama
3. Vesturhérað (Barein)
4. Miðhérað (Barein)
5. Norðurhérað (Barein)
6. Muharraq
7. Rifa og Suðurhérað
8. Jidd Haffs
9. Hamad-bær (ekki sýndur)
10. Isa-bær
11. Hawar-eyjar
12. Sitra

Eftir 3. júlí 2002 var Barein skipt í fimm landstjóraumdæmi sem hvert heyrði undir landstjóra.[15] Landstjóraumdæmin voru:

Kort Fyrrum landstjóraumdæmi
1. Höfuðborgarumdæmi (Barein)
2. Miðumdæmi (Barein)
3. Muharraq-umdæmi
4. Norðurumdæmi (Barein)
5. Suðurumdæmi (Barein)

Miðumdæmið var lagt niður í september 2014 og landsvæðinu skipt milli Norðurumdæmis, Suðurumdæmis og Höfuðborgarumdæmis.[16]

Kort Núverandi landstjóraumdæmi
1Höfuðborgarumdæmi (Barein)
2Muharraq-umdæmi
3Norðurumdæmi (Barein)
4Suðurumdæmi (Barein)

Tilvísanir

  1. Oman: The Lost Land Geymt 6 október 2014 í Wayback Machine. Saudi Aramco World. Sótt 7. nóvember 2016.
  2. „Bahrain says ban on protests in response to rising violence“. CNN. 1. nóvember 2012. Sótt 16. nóvember 2012.
  3. „How Bahrain uses sport to whitewash a legacy of torture and human rights abuses | David Conn | Sport“. The Guardian. Sótt 19. júlí 2018.
  4. „Bahrain: Reform-Promise and Reality“ (PDF). J.E. Peterson. bls. 157.
  5. „Bahrain's economy praised for diversity and sustainability“. Bahrain Economic Development Board. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2010. Sótt 24. júní 2012.
  6. „Bahrain Geography and Population“. countrystudies.us. Afrit af uppruna á 23. september 2006. Sótt 29. júní 2012.
  7. „Bahrain“. Britannica Online Encyclopedia. Sótt 29. júní 2012.
  8. Kingdom of Bahrain National Report (PDF) (Report). International Hydrographic Organization. 2013. bls. 1. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10. október 2017. Sótt 11. júní 2013.
  9. Abdulla, Mohammed Ahmed; Zain al-'Abdeen, Bashir (2009). تاريخ البحرين الحديث (1500–2002) [Modern History of Bahrain (1500–2002)]. Bahrain: Historical Studies Centre, Bareinháskóli. bls. 26, 29, 59. ISBN 978-99901-06-75-6.
  10. „CIA World Factbook, "Bahrain". Cia.gov. Afrit af uppruna á 29. desember 2010. Sótt 25. janúar 2011.
  11. 11,0 11,1 11,2 11,3 „History of Municipalities“. Ministry of Municipalities Affairs and Urban Planning – Kingdom of Bahrain. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. desember 2012. Sótt 5. júlí 2012.
  12. 12,0 12,1 „Governorates of Bahrain“. Statoids. Sótt 5. júlí 2012.
  13. „Bahrain Government“. Permanent Mission of the Kingdom of Bahrain to the United Nations. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júní 2012. Sótt 5. júlí 2012.
  14. „Three Polls, Three Different Approaches“. The Estimate. 17. maí 2002. Afrit af uppruna á 17. janúar 2013. Sótt 5. júlí 2012.
  15. „Decree No.17 for 2002“ (PDF). Capital Governorate. Afrit (PDF) af uppruna á 8. janúar 2013. Sótt 24. júní 2012.
  16. „Central Governorate dissolved“. Gulf Daily News. Afrit af upprunalegu geymt þann 10 október 2017. Sótt 27. desember 2020.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.