Sem sjálfstætt lýðveldi er Úsbekistan veraldlegt, miðstýrt forsetaræði. Landið skiptist í 12 héruð (viloyatlar), borgina Taskent og sjálfstjórnarlýðveldið Karakalpakstan. Taskent er bæði stærsta borg landsins og höfuðborgin. Shavkat Mirziyoyev, sem tók við forsetaembætti eftir lát Karimovs, breytti um stefnu sem var lýst sem „byltingu að ofan“. Hann lýsti því yfir að hann hygðist binda endi á nauðungarvinnu í bómullarframleiðslunni, kerfislæga barnaþrælkun og útgönguáritanir. Hann hugðist endurhæfa skattkerfið og koma á frísvæðum. Hann náðaði nokkra samviskufanga. Samskipti landsins við nágranna sína, Kirgistan, Tadsíkistan og Afganistan, stórbötnuðu.[2][3][4][5] Í skýrslu Amnesty International fyrir 2017/2018 var sagt frá því að þrátt fyrir töluverðar umbætur væru enn til staðar þvingandi reglur og skortur á réttarreglum, hluti verkafólks á bómullarökrum væri enn í nauðungarvinnu, auk þess sem samviskufangar sem hefðu verið látnir lausir byggju við takmarkað frelsi.[6] Skýrsla Human Rights Watch frá 2020 fagnaði umbótunum, en gagnrýndi mikil völd öryggissveita, áframhaldandi útbreidda nauðungarvinnu í bómullariðnaðinum, og ógnanir við stofnanir réttarríkisins.[7]
Efnahagslíf Úsbekistan byggist aðallega á framleiðslu hrávöru eins og bómullar, gulls, úrans og jarðgass. Í Úsbekistan eru fjórðu mestu gullnámur heims. Vöxtur hefur verið hraður en þróun frá áætlunarbúskap í markaðsbúskap hefur verið mjög hæg. Gjaldmiðill landsins hefur verið skiptanlegur á markaðsvirði frá því í september 2017. Úsbekistan er stór bómullarframleiðandi á heimsvísu. Í landinu eru risavaxin orkuver frá Sovéttímanum sem, auk stórra jarðgaslinda, gera Úsbekistan að stærsta orkuframleiðanda Mið-Asíu.[8] Árið 2018 fékk landið lánshæfismatið BB-. Meðal styrkleika landsins eru aðgengi að veltufjármagni, mikill vöxtur og lágar skuldir; en meðal veikleika eru lág verg landsframleiðsla miðað við höfðatölu.
Viðskeytið -stan kemur úr írönskum málum og merkir „staður“ eða „land“. Þrjár tilgátur eru til um uppruna fyrri hlutans:
„frjáls“, „sjálfstæður“ eða „eigin herra“, úr uz („eigin“) og bek („leiðtogi“),[10]
dregið af heiti Oghuz kan sem er líka þekktur sem Oghuz beg,[10]
samsetning úr Uğuz, áður Oğuz, það er Oghuz-tyrkir, og bek „leiðtogi Oghuz-tyrkja“.[11]
Allar þrjár tilgáturnar ganga út frá því að miðhlutinn sé dreginn af tyrkíska titlinum beg.
Landfræði
Úsbekistan er 447.400 ferkílómetrar að stærð. Það er 56. stærsta land heims og það 42. fjölmennasta.[12] Innan SSR er það það 4. stærsta og 2. fjölmennasta.
Úsbekistan liggur milli 37. og 46. breiddargráðu norður, og 56. og 74. lengdargráðu austur. Landið er 1.425 km á lengd frá vestri til austurs, og 930 km á breidd frá norðri til suðurs. Úsbekistan á landamæri að Kasakstan og Aralkumeyðimörkinni í norðri og norðvestri, Túrkmenistan og Afganistan í suðvestri, Tadsíkistan í suðaustri, og Kirgistan í norðaustri. Landið er stærsta Mið-Asíuríkið og það eina sem á landamæri að öllum hinum fjórum. Landamærin að Afganistan eru aðeins 150 km að lengd.
Úsbekistan er þurrt landlukt land. Það er annað tveggja landa heims sem er tvílandlukt, eða umkringt landluktum löndum (hitt er Liechtenstein). Landið liggur innan klasa af dældum og engin af ám þess rennur til sjávar. Innan við 10% af landsvæðinu er ræktarland með áveitum, við ár og í vinjum og áður við Aralvatn, sem var þurrkað upp. Þurrkun Aralvatns hefur verið kölluð eitt af stærstu umhverfisslysum sögunnar.[13] Afgangurinn af landinu liggur í Kysylkumeyðimörkinni og í fjalllendi.
Þurrt meginlandsloftslag er ríkjandi í Úsbekistan og meðalúrkoma er aðeins 100-200 mm árlega. Meðalháhiti á sumrin er nálægt 40°C og meðallághiti á veturnar er í kringum -25°C.
↑Kenzheakhmet Nurlan (2013). The Qazaq Khanate as Documented in Ming Dynasty Sources. bls. 140.
↑ 10,010,1A. H. Keane, A. Hingston Quiggin, A. C. Haddon, Man: Past and Present, p.312, Cambridge University Press, 2011, Google Books, tilvitnun: „Who take their name from a mythical Uz-beg, Prince Uz (beg in Turki=a chief, or hereditary ruler)“.
↑MacLeod, Calum; Bradley Mayhew. Uzbekistan: Golden Road to Samarkand. bls. 31.