Líta má á Evrópuþingið sem neðri deild löggjafa Evrópusambandsins þar sem Ráðherraráðið er efri deildin, saman fara þessar stofnanir með löggjafarvaldið innan ESB. Þingið getur þannig samþykkt, gert breytingartillögur eða hafnað flestum reglugerðum, tilskipunum, tilmælum og álitum. Innbyrðis valdahlutföll þingsins og Ráðherraráðsins eru þó misjöfn eftir því á hvaða sviði löggjöfin er en þróunin hefur verið í þá átt að veita þinginu meiri völd. Þingið getur líka samþykkt eða hafnað fjárlögum ESB.
Evrópuþinginu er einnig ætlað að veita framkvæmdastjórninnilýðræðislegt aðhald. Þingið þarf að leggja blessun sína yfir skipun nýrrar framkvæmdastjórnar og það getur með ⅔ hluta atkvæða lýst vantrausti á hana þannig að hún þurfi að segja af sér.
Drög að Stjórnarskrá Evrópusambandsins gerðu ráð fyrir því að auka enn völd þingsins þannig að það löggjafarvald í nánast öllum málaflokkum og veita því algjöra stjórn yfir fjárlögum ESB. Stjórnarskráin tók aldrei gildi en sum ákvæði hennar um aukin völd Evrópuþingsins tóku gildi með Lissabon-sáttmálanum árið 2009.
Staðsetning
Þó að þær stofnanir ESB sem fara með framkvæmdavaldið (framkvæmdastjórnin og Evrópska ráðið) séu staðsettar í Brussel þá var það gert að skilyrði í Amsterdamsamningnum að þingið hittist mánaðarlega í Strasbourg. Af praktískum ástæðum fer þó öll undirbúningsvinna og nefndarstarf fram í Brussel í nálægð við hinar stofnanir ESB. Ofan á þetta þá er aðalskrifstofa þingsins í Lúxemborg og þar er megnið af starfsfólki þess. Þingið kemur aðeins saman 4 daga í mánuði í Strasbourg þar sem það afgreiðir málin og greiðir atkvæði en aðrir fundir eru haldnir í Brussel. Þingið hefur sjálft óskað eftir því nokkrum sinnum að það fái sjálft að ráða því hvar það skuli vera staðsett enda er mikið óhagræði í þessu kerfi, en það er undir aðildarlöndunum komið að gera þeir breytingar sem þarf til að leyfa þinginu það og Frakkar vilja endilega halda því í Strasbourg.
Kosningar
Ríkisborgarar aðildarríkjanna kjósa til þingsins á fimm ára fresti. Þær fyrstu fóru fram árið 1979 og verða þær næstu haldnar í maí 2019. Hvert ríki fyrir sig ákveður hvernig kosningunum er háttað nákvæmlega en oft er kosið um sömu flokka og í landskosningum. Stærri stjórnmálaflokkar hafa myndað evrópuflokka með systurflokkum sínum í Evrópu. Þessir flokkar starfa svo einir eða fleiri sem hópar á þinginu.