Doctor Who er vísindaskáldsögusjónvarpsþáttur sem er framleiddur af BBC. Þættirnir fjalla um „doktorinn“ sem er tímalávarður utan úr geimnum. Hlutverk hans er að vernda jörðina og aðrar plánetur og íbúa þeira í nútíð, framtíð og fortíð. Doktorinn getur bjargað sér frá dauða en við það breytist útilit hans og persónuleiki. Doktorinn fær oftast jarðarbúa í lið með sér sem ferðafélaga. Tímavél og farartæki doktorsins kallast Tardis og lítur út eins og breskur lögregluklefi. Tardis stendur fyrir „Time And Relative Dimension in Space“.
Þættirnir eru með langlífustu sjónvarpsþáttum heims sem ganga út á vísindaskáldskap. Þeir hófu göngu sína þremur árum áður en framleiðsla Star Trek-þáttanna hófst. Alls hafa verið sýndir í breska sjónvarpinu 883 þættir í 40 þáttaröðum; en það er samanlagður fjöldi gömlu þáttanna, sem fyrst voru sýndir á árunum 1963–1989, og nýju þáttanna sem sýndir hafa verið frá árinu 2005. Í gömlu þáttunum skiptist hver saga niður á tvo til sex þætti sem hver var 25 mínútur að lengd. Í nýju þáttaröðunum er hver þáttur 45 mínútur. Flestir þeirra eru heil saga, en nokkrir framhaldssaga í tveimur þáttum. Alls eru 97 af elstu þáttunum (aðallega úr þáttaröðum 3, 4 og 5) taldir glataðir, þar sem BBC eyddi reglulega gömlu sjónvarpsefni úr safni sínu. Tekist hefur að finna nokkra eldri þætti hjá erlendum sjónvarpsstöðvum.
Þættirnir um Doctor Who hafa lengi notið mikilla vinsælda í Bretlandi og víðar og eru mikilvægur hluti af breskri afþreyingarmenningu. Vinsældir elstu þáttanna voru slíkar að talað var um „Dalekaæðið“ á 7. áratugnum. Þeir hafa haft áhrif á nokkrar kynslóðir breskra sjónvarpsáhorfenda, og getið af sér myndasögur, skáldsögur og útvarpsþætti. Aðrar sjónvarpsþáttaraðir sem Doctor Who gat af sér eru Torchwood (2006–2011), The Sarah Jane Adventures (2007–2011), K9 (2009–2010) og Class (2016).
Doktorar
Fjórtán leikarar hafa tekið að sér hlutverk doktorsins í sjónvarpsþáttunum. Þegar skipt er um leikara er það skrifað inn í þættina sem endurholdgun doktorsins í kjölfar alvarlegra meiðsla. Nokkrir aðrir leikarar hafa spreytt sig á hlutverkinu í aukaþáttum, kvikmyndum og útvarpsþáttum, meðal annars Peter Cushing, John Hurt, Derek Jacobi og Richard E. Grant.