Bristol

Bristol
Myndir frá Bristol
Myndir frá Bristol
Staðsetning Bristol
Staðsetning Bristols í Englandi
LandEngland
SvæðiSuðvestur-England
SýslaBristol (eigin sýsla)
StofnunÍ upphafi 11. aldar
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriGeorge Ferguson
Flatarmál
 • Samtals110,0 km2
Mannfjöldi
 (2012)
 • Samtals432.451
 • Þéttleiki3.931,4/km2
Póstnúmer
BS
Svæðisnúmer0117
TímabeltiGMT
Vefsíðawww.bristol.gov.uk

Bristol er borg og sýsla í Suðvestur-Englandi. Borgin var um aldalangt skeið önnur eða þriðja stærsta borg Bretlands, þar til borgirnar Liverpool, Manchester og Birmingham tóku örum vexti í iðnbyltingunni á síðari hluta 18. aldar. Bristol þykir með fegurri stórborgum Englands. Íbúar eru um 432 þúsund (2012).

Lega og lýsing

Bristol liggur við ána Avon nær innst í Bristolflóa í suðvestur Englandi. Miðborgin sjálf er steinsnar undan suðurströnd flóans. Næstu stærri borgir eru Cardiff í Wales (40 km), Southampton til suðausturs (70 km) og Oxford til norðausturs (70 km). London er í um 100 km til austurs. Áin Avon skipti borginni í tvennt, en hún mundar í Bristolflóa við Avonmouth aðeins tíu km fyrir norðan miðborgina. Í vesturjaðri borgarinnar er Avon-gljúfrið (Avon Gorge) sem áin rennur um. Mikil brúarmannvirki ganga yfir gljúfrið. Í miðborginni er árhöfn og þurfa skip og bátar að sigla um stórar lokur til að komast um gljúfrið til sjávar.

Orðsifjar

Borgin hét upphaflega Brycgstow, sem merkir staðurinn við brúna. Á 15. öld var rithátturinn Bristow. Nú bregður svo við að íbúar héraðsins hneigjast til að bæta bókstafnum ell við ýmis orð. Þannig breyttist framburður heitisins (og rithátturinn) í Bristol. Íbúar borgarinnar eru kallaðir Bristolians á ensku.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Bristol synir hvítt borgarvirki, hálft skip og grænt engi á rauðum grunni. Táknin hafa verið í notkun á mynt og innsigli borgarinnar allt frá 14. öld og vísa til mikilvægi siglinga í sögu borgarinnar. Skjaldarberarnir eru tveir einhyrningar og var þeim bætt við 1569, ásamt hjálminum, höndunum með slöngunni og voginni. Slangan táknar visku, en vogin réttlæti. Neðst er borði með áletruninni VIRTUTE ET INDUSTRIA, sem merkir með dyggð og iðni.

Saga Bristol

Upphaf

Elsta mynd af Bristol er frá 1478. Mynd eftir Robert Ricart.

Á 8. öld var klaustur stofnað á svæðinu og kom það fyrst við skjöl 804. Bærinn sjálfur myndaðist ekki fyrr en í upphafi 11. aldar en það sést á mynt sem var slegin í bænum árið 1010. Í annálum segir að Haraldur Guðinason hafi lent skipi sínu við Bristol 1052. Árið 1062 lagði hann frá Bristol á skipum á leið til orrustu í Wales. Allt frá þessum tíma hefur Bristol verið mikilvæg hafnarborg en skip sigldu upp Bristolflóa og upp ána Avon til að komast til hafnar. Ein mesta verslunarvaran í borginni voru þrælar en þeir voru seldir til Dyflinnar. Kastalavirkið í Bristol var reist af Geoffrey de Montbray, einn af riddurum Vilhjálms sigursæla, skömmu eftir landtökuna 1066. Í kastalanum sátu ýmsir enskir konungar til skamms tíma, svo sem Hinrik II sem aldist upp og hlaut menntun sína þar. Á 13. öld var Bristol orðin mikilvæg hafnarborg. Ullarklæði og hveiti voru flutt út þaðan en flutt inn vín frá Frakklandi og Spáni. Heimildir eru um að skip frá Bristol hafi verslað fisk við Ísland. 1348-49 skall á svarti dauðinn en í honum létust allt að helmingur borgarbúa. Þeir voru á bilinu 15-20 þúsund þegar pestin skall á og er álitið að Bristol hafi verið þriðja stærsta borgin í Englandi á þessum tíma, á eftir London og York. Þeir voru hins vegar ekki nema 10-12 þús á 15. og 16. öld. Þrátt fyrir það leysti Játvarður III Bristol frá sýslunum Gloucester og Somerset árið 1373 og bjó til nýja sýslu, Bristol County.

Skipið Matthew (endursmíðað) við höfn í Bristol

Nær alla 15. öldina sigldu fiskiskip frá Bristol til veiða við Íslandsstrendur. Þeir stunduðu einnig verslun við Ísland og er álitið að allt að 3% af verslunarvarningi Bristol hafi verið Íslandsverslun. Jafnfram fluttu nokkrir Íslendingar til Bristol. Árið 1483 voru 48 Íslendingar skráðir þar í borg.[1] Einhverjir Íslendingar hafa einnig verið á skipum sem sigldu frá Bristol til erlendra hafna.[2] Þegar Englendingar voru hraktir í æ meira mæli burt frá Íslandi síðla á 15. öld, leituðu þeir á önnur mið. 1497 lagði John Cabot af stað frá Bristol á skipinu Matthew í leit að dularfullri nýrri eyju í Vesturheimi sem Englendingar hafi fundið skömmu áður en þar voru gjöful fiskimið. Nokkuð víst er að Cabot hafi verið fyrsti Evrópubúinn sem kom til Norður-Ameríku eftir daga víkinganna. Leiðangur Cabots sneri síðan heim aftur til Bristol 6. ágúst. Ári síðar lagði John Cabot aftur upp í Ameríkuferð frá Bristol. Engar heimildur eru til um þá ferð. Talið er að skipin hafi farist. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að leiðangurinn hafi komist til Vesturheims og stofnað fyrsta kristna bæinn á Nýfundnalandi. Rannsóknir þess eðlis eru í gangi í háskólanum í Bristol.[3]

Borgarréttindi og borgarastríðið

1542 veitti Hinrik VIII Bristol almenn borgarréttindi. Samtímis var Ágústínusarklaustrinu lokað og kirkja þess gerð að dómkirkju anglísku kirkjunnar. Allar aðrar innréttingar kaþólsku kirkjunnar í borginni var sömuleiðis lokað. 1557 kom sæfarinn Martin Frobisher til hafnar í Bristol á tveimur skipum. Hann hafði verið í könnunarleiðangri í Vesturheimi og kom með þrjá villimenn, indíána sem trúlega tilheyrðu Exquimaux-ættbálknum. Þeir klæddust eingöngu mittisskýlum og dóu allir innan þriggja mánaða. Elísabet drottning sótti borgina heim 1574 á ferðalagi sínu um vesturhluta Englands. 1642 hófst enska borgarastyrjöldin. Bristol tók stöðu með þinginu í London og lagfærði margar af vörnum borgarinnar. Karl II konungur sendi því her til Bristol en hann var undir stjórn Róberts Rínarfursta (frændi Karls V keisara). 26. júlí 1642 réðist hann á borgina og tók hana eftir mikil átök. Íbúar og þingliðar fengu að fara óáreittir. Hins vegar komst konungsherinn yfir mikið magn af vopnum. Þeir náðu sömuleiðis átta kaupskipum í höfninni, en þau urðu grundvöllurinn að herskipaflota konungs. 1645 sigraði þingherinn nokkrar orrustur við konungsherinn í suðvesturhluta Englands og sneri sér því næst að Bristol. Róbert prins sneri þangað aftur til að skipuleggja varnir. Þingherinn gerði umsátur um borgina í þrjár vikur og gerðu síðan stórárás 10. september. Róbert fékk ekkert við ráðið og gafst upp. Bristol var hertekin af þinghernum, sem hélt borginni það sem eftir lifði stríðs. 1656 gaf Oliver Cromwell fyrirskipun um að rífa niður kastalavirkið í Bristol.

Þrælaskip og óeirðir

Á ofanverðri 17. öld hófst þrælaverslunin og stóð hún allt fram á 19. öld (þrælaverslunin var bönnuð 1807. Á þessum tíma sigldu skip frá Bristol 2000 skipti til Ameríku með hálfa milljón þræla frá Afríku. 1764-68 var ný brú reist yfir Avon-gljúfrið, enda var sú gamla löngu úr sér gengin. Þetta var eina leiðin yfir fljótið, utan ferju, og var ákveðið að setja vegtoll á brúna til 1793. Þegar vegtollurinn var endurnýjaður á því ári, ásamt því að borgarráðið ætlaði að rífa nálæg hús til að bæta aðgengið að brúnni, sauð upp úr. 30. september brutust út mótmæli og óeirðir sem enduðu í átökum við lögreglu. 11 manns biðu bana og 45 aðrir slösuðust. Þetta reyndust verstu óeirðir í Englandi á 18. öld.

Iðnbyltingin

Árásarvélar smíðaðar í Bristol

Verslun í Bristol átti mjög undir högg að sækja í upphafi 19. aldar, ekki síst vegna harðnandi samkeppni frá öðrum hafnarborgum í Englandi, svo sem Liverpool. Afnám þrælaverslunarinnar og hafnbannið á Napoleontímanum greiddi borginni þung högg. Auk þess varð skipalægið í Avon erfitt fyrir sífellt stækkandi skip. Atvinnuvegir breyttust. Nokkur minniháttar kolasvæði eru í grennd við borgina, en kolavinnsla var ekki sérlega ábatasöm og var henni á endanum hætt. Verslun jókst hins vegar aftur talsvert er framleiðsla á tóbaksvörum, pappír og vélaiðnaði var komið á í borginni. Snemma á 19. öldinni voru lokur settar á ánni Avon, þannig að vatnsmagnið í höfninni hélst stöðugt, enda gætti mikilla sjávarfalla frá Bristolflóa alla leið inn höfnina. Með tilkomu járnbrautarinnar var hægt að flytja iðnaðarvörur fljótar og víðar en með skipum. Hafnaraðstaðan færðist neðar í Avon og ný höfn reis í Avonmouth, sem er hluti af Bristol. Þar myndaðist einnig mikill iðnaður. Samfara bættum samgöngum og iðnaði fimmfaldaðist íbúatalan á 19. öldinni. Hún var 68 þúsund árið 1801 en var komin í yfir 300 þúsund áður en öldin var liðin. 1911 voru íbúar orðnir rúm 350 þúsund. Árið 1910 var flugvélaverksmiðjan British Aircraft Company stofnuð í Bristol en hún var ein allra mikilvægasta flugvélaverksmiðja Bretlands. Þaðan komu margar tegundir flugvéla, ekki síst á stríðstímum. Margar vélanna sem tóku þátt í heimsstyrjöldunum báðum komu frá Bristol.

Bristol Blitz

Borgin varð fyrir gífurlegum loftárásum Þjóðverja í heimstyrjöldinni síðari en markmiðið var að eyðileggja höfnina og flugvélaverksmiðjuna. Þær verstu urðu í nóvember 1940 og í apríl 1941. Nánast öll borgin var sprengd niður. Hitler sjálfur lýsti því yfir að borgin hafi verið þurrkuð út af yfirborði jarðar.[4] Síðustu árásirnar voru gerðar í maí 1944. Alls urðu árásirnar 77 talsins. Í þeim létust 1299 manns og 80 þúsund hús eyðilögðust. Bristol var í fimmta sæti yfir borgir í Englandi sem hvað verst komu út úr stríðinu. Englendingar kalla atburði þessa Bristol Blitz.

Eftirstríðsárin

Þyrla smíðuð í Bristol

1963 áttu sér stað atburðir í borginni sem kallast Bristol Bus Boycott. Strætisvagnafyrirtækið setti sér rasistareglur og neitaði að ráða blökkumenn og Indverja til starfa. Borgarbúar voru hneikslaðir og hunsuðu strætisvagnana í fjóra heila mánuði þar til fyrirtækið afnam reglur sínar. Atburðirnir vöktu gífurlega athygli í landinu öllu og áttu stóran þátt í andrasistalögum breska þingsins 1965 (Race Relations Act). Flugvélaframleiðslan (fyrirtækið heitir Filton í dag) náði nýjum hæðum með farþegavélum. Hin hljóðfráa Concorde var að hluta smíðuð í Bristol, sem og hlutar Airbus-vélanna. Í Bristol er einnig talsverð framleiðsla á tæki og tólum fyrir geimferðir. Höfnin hafði hægt og rólega færst til Avonmouth og þangað eru fluttir inn fleiri bílar en í nokkurri annarri höfn í Englandi. Mikil ferðamennska er einkennandi fyrir Bristol en borgin er sjöunda í röðinni í Englandi hvað fjöldi ferðamanna varðar.

Viðburðir og menning

Loftbelgir hefja sig til flugs í Bristol
Flugdreki í líki hundraðfætlu

Bristol International Balloon Fiesta er heiti á árlegri loftbelgjahátíð í borginni. Þangað streyma menn úr öllum heimshornum með loftbelgi, sem eru um hundrað talsins. Margir þeirra er með óvenjuleg og skemmtileg form. Hátíð þessi hófst árið 1979 og er í dag ein sú stærsta í Evrópu. Hún er haldin í ágústbyrjun.

Bristol International Kite Festival er árleg flugdrekahátíð í borginni, haldin í september. Hún hefur verið haldin síðan 1986 og dregur að sér um 30 þús áhorfendur. 1991 var heimsmeistarakeppni í flugdrekakeppni haldin í borginni.

Hafnarhátíðin mikla í Bristol fer fram fram í júlí og hefur verið haldin síðan 1971. Hana sækja 250 þúsund manns árlega en þar má finna útitónlist, götulistarmenn, ýmsar aðrar skemmtanir og vitanlega sölubása. Einnig sigla skip og bátar um höfnina og ána Avon.

St Pauls Carnival er skrúð- og danshátíð í afró-karibískum stíl og er haldin í júlí.

Kvikmyndir

Í Bristol er kvikmyndafyrirtækið Aardman Animation, sem gert hefur leirbrúðumyndir á borð við Chicken Run. Náttúrufræðideild BBC, sem gerði náttúrulífsmyndirnar með David Attenborough er með aðsetur í borginni. Ýmsar kvikmyndir hafa verið teknar upp í borginni, sérstaklega utanhúss. Bristol er fæðingarstaður kvikmyndaleikarans Cary Grant.

Íþróttir

Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru tvö: Bristol City og Bristol Rovers. Hvorugt liðið hefur unnið til stærri bikars, en Bristol City komst í úrslit bikarkeppninnar 1909. Bæði liðin leika í neðri deildum.

Í borginni er haldið árlegt hálfmaraþon. 2001 var heimsmeistarakeppnin í hálfmaraþon haldið í Bristol. Sigurvegarinn var Eþíópíumaðurinn Haile Gebrselassie.

Aðrar hópíþróttir sem stundaðar eru í Bristol eru rúgbý, krikket og íshokkí.

Vinabæir

Bristol viðheldur vinabæjasamskiptum við eftirfarandi borgir:

Stytta af leikaranum Cary Grant í miðborginni

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

Clifton-brúin er helsta kennileitið í Bristol
  • Clifton-brúin er helsta kennileiti borgarinnar og er 412 metra löng. Hún var tekin í notkun 1864 og spannar Avon-gljúfrið.
  • Dómkirkjan í Bristol var reist að mestu leyti í lok 13. aldar og í upphafi 14. aldar en nokkrir hlutar hennar eru miklu eldri. Kirkjan varð að dómkirkju 1542. Turnarnir tveir á framhliðinni risu í lok 19. aldar. Ýmis listaverki eru í kirkjunni. Orgelið sjálft er frá 1685. Í kirkjunni hvíla ýmsir menn, aðallega þó gamlir biskupar sem þjónuðu í Bristol.
  • Maríukirkjan Redcliffe er anglísk kirkja í Bristol. Byrjað var að reisa hana 1292, en framkvæmdir stóðu yfir allt fram á 15. öld. Turninn er 89 m hár og er þar með hæsta mannvirkið í Bristol.
  • Llandoger Trow er ein elsta húsaröð í Bristol. Hún var reist í kringum 1664 í King Street í miðborginni og var þá krá og gistihús. Rithöfundarnir Daniel Defoe og Robert Louis Stevenson voru gestir í kránni og sagan segir að þeir hlutu innblástur fyrir verk sín þar (Robinson Krúsó og Gulleyjan). Röðin var lengri áður fyrr en hluti hennar eyðilagðist í loftárásum seinna stríðs. Húsin eru enn veitingahús í dag.
  • Wills-turninn er hluti af háskólanum í Bristol. Hann var reistur 1915-25 og var ein síðasta stórbyggingin í Englandi sem byggð var í gotneskum stíl. Turninn var reistur sem minnisvarðir fyrir Henry Overton Wills III, fyrsta rektor háskólans. Í dag eru lagadeild og jarðvísindadeild með afnot af húsinu.

Tilvísanir

  1. Samskipti Englendinga og Íslendinga á 15. öld
  2. Úr Birstofu til Íslands og Suðurlanda
  3. „The Cabot Project“, University of Bristol, 2010.
  4. „Bristol Blitz victims live on in the memory of the living“. Bristol Evening Post. 30. september 2008. Sótt 6. júní 2009.[óvirkur tengill]

Heimildir