Daniel Defoe hét upphaflega Daniel Foe (hann bætti síðar 'De' sem skrauti fyrir framan ættarnafnið um 1703) og fæddist í Stoke Newington í London. Foreldrar hans voru utankirkjufólk í öldungakirkjunni og hann hlaut menntun í utankirkjuskóla í Stoke Newington þar sem faðir hans vildi að hann gerðist prestur. Hann gaf það upp á bátinn og fór út í viðskipti. Hann giftist árið 1684 Mary Tuffley, dóttur ríks kaupmanns, og átti með henni sjö börn.
Hann hóf kaupmennsku sem gekk illa og hann varð gjaldþrota1692 en tókst að reisa sig við með stjórnmálaráðgjöf og skrifum og að síðustu 1696 með stöðu framkvæmdastjóra í þakflísaverksmiðju í Tilbury (sem fór á hausinn 1703). Í skrifum sínum mælti hann með stofnun seðlabanka (sem gerðist 1694), tryggingarfélaga, sparisjóða, eftirlauna og nýjum lögum um gjaldþrot.
Blaðamennska og njósnir
Frægur háðsbæklingur Defoes, The shortest way with the dissenters, þar sem hann apaði málflutning breskra íhaldsmanna gegn utankirkjufólki varð til þess að hann var handtekinn og settur í gapastokk31. júlí1703. Af því tilefni gaf hann út óð til gapastokksins Hymn to the Pillory. Eftir þrjá daga var hann settur í Newgatefangelsi en Robert Harley, jarl af Oxford og Mortimer samdi um lausn hans gegn því að hann gerðist njósnari. Hann stofnaði tímaritiðA Review of the Affairs of France1704 sem studdi stjórn Harleys og kom út á þriggja vikna fresti. Tímaritið kom út til 1713. Þegar Harley sagði af sér 1708 skrifaði Defoe til stuðnings Godolphin og síðan aftur til stuðnings Harley og íhaldsmönnum.
Þegar íhaldsmenn féllu frá völdum við lát Önnu Bretadrottningar hélt Defoe áfram njósnum fyrir viggana. Hann gerðist þannig uppljóstrari stjórnarinnar við vikublað jakobíta. Upp um hann komst 1722 og hann neyddist til að hætta blaðamennsku.
Ritstörf
1715 hafði hann gefið út heilræðakverið The Family Instructor, en frægasta skáldsaga hans, Róbinson Krúsó, kom út 1719 og segir frá manni sem verður skipreika á eyðieyju. Hugsanlega byggði hann söguna á reynslusögu sjóræningjansAlexanders Selkirk sem varð skipreika á eyjaklasanum Juan Fernández við Chile, og kom út 1712.
1722 kom skáldsagan Moll Flanders út, frásögn í fyrstu persónu um fall og endurlausn konu í Englandi 17. aldar. 1724 kom svo út Roxana, The Fortunate Mistress, önnur skáldsaga þar sem kona er söguhetjan.
Eftirmæli
Auk skáldsagna og blaðaskrifa skrifaði Defoe ævisögur frægra glæpamanna. Öll skrif hans beindust fyrst og fremst að nýlæsu alþýðufólki þess tíma. Blaðaskrif hans hafa aflað honum þess heiðurs að vera af sumum talinn faðir gulu pressunnar.
Það er þó einkum fyrir skáldsöguna Róbinson Krúsó sem Defoe er minnst, en hún var lengi vel talin fyrsta skáldsagan rituð á enska tungu. Síðan hafa ýmsir orðið til að benda á eldri skáldsagnahöfunda.