Sir David Frederick Attenborough (fæddur 8. maí 1926) er enskur náttúrufræðingur og fjölmiðlamaður. Hann er best þekktur fyrir að semja og kynna Life sjónvarpsþættina þar sem hann fjallar um dýra- og plöntulíf jarðar. Hann hefur gefið út út fjöldann allan af fræðsluefni, aðallega fyrir sjónvarp en líka bækur.
Attenborough fæddist í Isleworth í vestur-London, en ólst upp í Leicester þar sem faðir hans var skólastjóri. Hann er miðjubarn og á tvo bræður. Foreldrar hans ættleiddu einnig tvær gyðingastúlkur í síðari heimsstyrjöld. Í æsku safnaði Attenborough steingervingum, steinum og öðrum náttúrufyrirbrigðum. Árið 1945 lærði hann jarðfræði og dýrafræði við Cambridge og hlaut gráðu í náttúruvísindum. Árið 1950 giftist Attenborough Jane Elizabeth Ebsworth Oriel ( hún lést árið 1997). Þau eignuðust tvö börn: Robert og Susan. Sama ár sótti hann um starf sem þáttastjóri í útvarpi BBC en var hafnað fyrst en ferilskráin vakti athygli og fékk hann stöðu þar árið 1952. Attenborough varð stjórnandi hjá BBC Two árið 1965 og fór ferðir til meðal annars Tansaníu og Indónesíu til að taka upp myndefni og kynna.
Attenborough hefur síðan gert ótal fræðsluþátta. Þáttaröðin Wildlife on One, á BBC One, gekk frá 1977 til 2005 og taldi 253 þætti. Þáttaröðin Life on Earth (1979) var sú viðamesta sem BBC hafði gert og olli straumhvörfum í fræðsluþáttagerð. Nýjasta kvikmyndatökutækni var beitt hverju sinni og nutu þættirnir gífurlegra vinsælda, ekki síst vegna þess smitandi áhuga sem Attenborough sýndi viðfangsefni sínu. Af nýlegum þáttum hefur Planet Earth (2006) notið vinsælda.
Attenborough hefur látið ýmisleg málefni til sín taka: Loftlagsmál [1], sólarorku [2] og mannfjöldaþróun má helst nefna. Attenborough hefur verið í liði með m.a. Richard Dawkins um að banna kennslu sköpunarhyggju í breskum skólum. Björk Guðmundsdóttir vann með Attenborough árið 2012 við gerð heimildarmyndarinnar The nature of music. [3] Ýmsar dýrategundir lifandi og útdauðar hafa verið nefndar eftir honum.[4]
Heimild
Fyrirmynd greinarinnar var David Attenborough á ensku Wikipedia. Skoðuð 18. mars, 2016.