Elísabet I. (7. september 1533 – 24. mars 1603) var drottning Englands og Írlands frá 17. nóvember 1558 til dauðadags. Hún var kölluð meydrottningin. Elísabet var fimmti og síðasti einvaldur Túdorættarinnar, eftir að hafa tekið við af hálfsystur sinni Maríu I, sem dó úr inflúensu 17. nóvember árið 1558. Ríkisár Elísabetar einkenndust af einu mesta trúarbragðaumróti í sögu Englands.
Valdatími hennar er kallaður Elísabetartímabilið eða „gullöldin“ í sögu Englands þar sem hann einkenndist af auknum styrk og áhrifum Englendinga um allan heim.
Saga
Æska
Elísabet I var skírð í höfuðið á báðum ömmum sínum, þeim Elísabet af York og Elísabet Howard. Hún var annað barn föður síns Hinrik VIII.[1] Faðir hennar varð afar vonsvikinn þegar Elísabet fæddist þar sem hann langaði í karlkyns erfingja og hafði ekki fyrir því að vera viðstaddur skírn hennar.[1] Hinrik hafði áður slitið tengsl við páfann í Róm og gert sjálfan sig að æðsta stjórnanda ensku biskupakirkjunnar svo að hann gæti skilið við konu sína, Katrínu af Aragóníu, sem hafði aðeins borið honum dætur. Hann vildi gifta sig aftur til þess að geta eignast son með annari konu. Þessi slit við kirkjuna í Róm færðu ensku krúnunni einnig allar eignir kirkjunnar þar í landi.
Elísabet var aðeins tveggja og hálfs árs þegar móðir hennar, Anna Boleyn, önnur eiginkona Hinriks var líflátin að skipun hans. Önnu var gefið að sök að hafa haldið framhjá Hinriki VIII. Eftir að hjónaband þeirra Hinriks var ógilt var Elísabet lýst óskilgetin en Hinrik átti síðar eftir að taka dóttur sína í sátt á ný.[1] Hinrik tókst síðar að eignast son, Játvarð, en Játvarður lést aðeins sex árum á eftir Hinrik og ríkti því ekki lengi sem konungur.
Systir Elísabetar, María, tók við völdum eftir dauða Játvarðar. Á þessum tíma þurfti Elísabet að fara leynt með mótmælendatrú sína þar sem María vildi endurreisa kaþólska trú sem ríkistrú á Englandi. Á valdatíð Maríu var Elísabet um skeið fangelsuð í Lundúnaturni og grunuð um samsæri gegn systur sinni.[1]
Bæði systkini Elísabetar dóu ung og því var enginn annar sem gat tekið við krúnunni. Því varð Elísabet gerð að einvaldi 25 ára gömul, eftir að María lést árið 1558.
Gullöld Elísabetar
Strax frá fyrsta degi valdaferilsins setti hún ráðgjöfum sínum skýr markmið til að tryggja að hún og konungsríkið myndi halda velli. Þetta varð til þess að tortryggni, varúð og vægðarleysi einkenndi valdatíð Elísabetar. Hún hélt fast í þann sið að konungsembættið stjórnaði kirkjunni, hún reyndi þó að forðast flóknar guðfræðilegar deilur. Elísabet þurfti hinsvegar að blanda sér í þau trúarstríð sem geisuðu í Evrópu á þeim tíma. Hún neyddist til þess að styðja Hollenska mótmælendur á móti Spænskum kaþólikkum.
Uppreisnir og launráð írskra og enskra kaþólikka angraði Elísabet stöðugt og hún lét setja kaþólska frænku sína, Maríu skotadrottningu í fangelsi. Loks lét hún lífláta hana því hún var talin hættulegur kaþólikki sem gæti gert tilkall til krúnunnar.
Einn frægasti atburður í stjórnartíð Elísabetar var þegar enski flotinn sigraði þann spænska undan ströndum Englands árið 1588. Spænski flotinn var fram að því oft kallaður flotinn ósigrandi.
Meydrottningin
Elísabet I var stundum kölluð meydrottningin. Ráðgjafar og fleiri sem voru í kringum Elísabet vildu að hún gifti sig til að mynda bandalög, styrkja krúnuna og tryggja öryggi ríkisins. Elísabet velti nokkrum bónorðanna fyrir sér en hafnaði þó öllum þeirra á endanum. Hún vildi ekki þurfa að deila eða jafnvel missa öll völd sín til maka síns, svo Elísabet réði ógift. Hún er eina drottningin í sögu Englands sem hefur ekki gift sig.
Andlát
Elísabet I dó árið þann 24. mars árið 1603, þá 69 ára að aldri. Hún lést í Richmond-höll í Surrey. Elísabet var lengi vel langlífasti einvaldur Englands. Hún lést án erfingja og eftir hennar dag tók Jakob I skotakonungur við ensku krúnunni en hann var hennar nánasti ættingi.