Gulvestungar (franska: Gilets jaunes) eru frönsk mótmælahreyfing sem hafa reglulega mótmælt stjórnarstefnum Emmanuels Macron Frakklandsforseta frá því í október árið 2018. Mótmælin eru kennd við gul endurskinsvesti sem mótmælendurnir klæðast, en samkvæmt frönskum lögum verða slík vesti að vera í öllum bílum. Mótmælaalda gulu vestanna hefur breiðst út til nokkurra nágrannaríkja Frakklands, meðal annars til Belgíu.[1]
Í upphafi voru mótmælin gegn nýjum eldsneytisskatti sem stjórn Macrons hugðist setja en fljótlega tóku mótmælin á sig mun breiðari mynd og hafa almennt beinst gegn háum kostnaði lifnaðar, hárri skattbyrði verkastétta og lágum launum í Frakklandi.[2] Mótmælahreyfingin er ómiðstýrð og rekur uppruna sinn til samfélagsmiðla eins og Facebook. Þar sem hreyfingin lýtur engri ákveðinni forystu er stefna hennar óljós og kröfur hennar mjög á reiki.[3] Í sumum tilfellum hafa mótmælendurnir reynst ósammála innbyrðis um markmið hreyfingarinnar.[4] Andstæðingar Macrons bæði lengst til hægri, þar á meðal Marine Le Pen, og lengst til vinstri, þar á meðal Jean-Luc Mélenchon, hafa lýst yfir stuðningi við hreyfinguna.
Mótmælin hafa leitt til þess að hætt var við eldsneytisskattinn sem var kveikjan að hreyfingunni.[5] Í ávarpi til þjóðarinnar lofaði Macron forseti jafnframt 100 evra hækkun á lágmarkslaunum og að fallið yrði frá áætlunum um aukna skattlagningu á lægstu tekjuhópa landsins.[6] Mótmælin hafa þó haldið áfram.[7]