Willy Brandt

Willy Brandt
Kanslari Vestur-Þýskalands
Í embætti
22. október 1969 – 7. maí 1974
ForsetiGustav Heinemann
ForveriKurt Georg Kiesinger
EftirmaðurHelmut Schmidt
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. desember 1913
Lübeck, þýska keisaraveldinu
Látinn8. október 1992 (78 ára) Unkel, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiCarlotta Thorkildsen (1941–1948), Rut Hansen (1948–1980), Brigitte Seebacher (de) (1983–1992)
BörnNinja, Peter, Lars, Matthias
Undirskrift

Willy Brandt (18. desember 1913 í Lübeck8. október 1992 í Unkel) var þýskur stjórnmálamaður og jafnaðarmaður. Hann var borgarstjóri í Berlín 1957-1966, utanríkisráðherra 1966-1969 og kanslari Vestur-Þýskalands 1969-1974. Fyrir sáttatilraunir sínar milli þýsku ríkjanna hlaut hann friðarverðlaun Nóbels 1971.

Æviágrip

Ungur stjórnmálamaður

Willy Brandt fæddist í Lübeck 1913 og hét þá Herbert Ernst Karl Frahm. Móðir hans var einstæð og kynntist Brandt föður sínum aldrei. Hann hóf strax á unga aldri afskipti af stjórnmálum og var virkur í unglingastarfi sósíalista. 1930 gekk hann í SPD, flokk sósíaldemókrata. Ári seinna gekk hann þó úr honum aftur til að ganga til liðs við sósíalistíska vinnuflokkinn. Nasistar bönnuðu þann flokk hins vegar 1933 og því ákvað flokkurinn að hefja andspyrnu gegn nasistum. Sama ár fékk Brandt það hlutverk að koma formanninum Paul Fröhlich til Oslóar. Fröhlich var hins vegar handtekinn, þannig að Brandt fór sjálfur til Ósloar til að stofnsetja flokkinn þar.

Á næstu árum tók hann sér nafnið Gunnar Gaasland og sneri til Berlínar sem fréttamaður. Nasistar ráku hann þó úr landi og því sótti hann um norkst ríkisfang. En Þjóðverjar hertóku Noreg 1940 og var Brandt þá handtekinn af þýskum hermönnum. Þar sem Brandt var í norskum hermannabúningi og talaði norsku, var hann settur í varðhald ásamt fleiri Norðmönnum. Sem Þjóðverji hefði hann verið tekinn af lífi. Sama ár komst hann þó til Svíþjóðar og bjó í Stokkhólmi þar til stríðinu lauk.

1945 sneri Brandt aftur til Þýskalands sem blaðamaður og var viðstaddur Nürnberg-réttarhöldin. Brandt bauðst þá að snúa til heimaborgar sinnar Lübeck og gerast þar borgarstjóri. Honum bauðst einnig að vera í Berlín sem blaðamaður fyrir sænsku blaði og fylgjast með kalda stríðinu. Hann kaus hið síðarnefnda. 1948 fékk Brandt þýskt ríkisfang á ný. Ári seinna lét hann breyta fæðingarheiti sínu í Willy Brandt, en fram að þessum tíma hafði hann heitið Herbert Frahm.

Borgarstjóri Berlínar

Willy Brandt og John F. Kennedy á fundi í Hvíta húsinu 1961

Brandt var fulltrúi SPD í Berlín á fyrsta þingi Sambandsríkis Þýskalands 1949. Hann var þingmaður frá 1949-1957 og frá 1969-1992. 1955 varð Brandt forseti borgarstjórnar Berlínar og 1957 varð hann kosinn borgarstjóri. Hann naut mikilla vinsælda í Berlínardeilunni (sem endaði með því að Berlínarmúrinn var reistur 1961). Einnig tók hann á móti John F. Kennedy 1963 þegar hann sótti Vestur-Berlín heim. 1962 varð hann formaður sósíaldemókrata í Þýskalandi (SPD) og hélt þeirri stöðu til 1987.

Utanríkisráðherra

1966 varð Kurt Georg Kiesinger kanslari Vestur-Þýskalands. Hann myndaði stjórn með sósíaldemókrötum. Brandt varð þá utanríkisráðherra í þeirri stjórn. Hann var einnig varakanslari í fjarveru Kiesingers. Brandt var á þessum tima orðinn einn umdeildasti stjórnmálamaður Þýskalands.

Kanslari

Willy Brandt á leiðtogafundi með Willi Stoph í Erfurt 1970

1961 bauð Brandt sig fyrst fram sem kanslaraefni, en tapaði í kosningum fyrir Konrad Adenauer, sem þá var sitjandi kanslari. 1965 bauð hann sig fram á ný, en tapaði þá fyrir Ludwig Erhard. Eftir kosningar 1969 tókst Brandt að mynda ríkisstjórn með Frjálsum demókrötum (FDP) og varð sjálfur kanslari í þeirri ríkisstjórn. Innanríkisráðherra varð Hans-Dietrich Genscher (FDP). Brandt reyndi að nálgast löndin handan járntjaldsins, sérstaklega þó Austur-Þýskaland. Hann fundaði með Willi Stoph, leiðtoga Austur-Þýskalands árið 1970 í Erfurt og Kassel, en þetta var fyrsti leiðtogafundur ríkjanna eftir stofnun landanna 1949. Fyrir viðleitni sína til að stuðla að friði í kalda stríðinu hlaut hann friðarverðlaun Nóbels 1971. Hann er fjórði Þjóðverjinn (og að sama skapi síðasti Þjóðverjinn) til að hljóta þennan heiður. Í kosningum 1972 hélt stjórnin meirihluta. Brandt var áfram kanslari, Genscher var áfram innanríkisráðherra, en nýr fjármálaráðherra varð Helmut Schmidt (SPD). Ári síðar heimsótti Brandt Ísrael og var hann fyrstur þýskra kanslara til að sækja landið heim, en stjórnmálasambandi var komið á milli þessara landa 1965.

Fall Brandts

1974 gaf Willy Brandt út yfirlýsingu þess efnis að hann segði af sér sem kanslari Vestur-Þýskalands. Afsögnin kom mönnum í opna skjöldu, þó að ýmis teikn væru uppi um ákveðna örðugleika. Helsta ástæða afsagnarinnar var mál Günters Guillaume. Hann var einn nánasti samstarfsmaður Brandts, en var sakaður um njósnir árið á undan. Þrátt fyrir það aðhafðist Brandt ekkert og störfuðu þeir tveir áfram saman. 1974 var hann loks handtekinn fyrir njósnir og var það mikið pólitískt áfall fyrir Brandt. En auk þess sótti Brandt fast vínið og einnig var hann þekktur fyrir framhjáhöld. Ólíuskortur 8. áratugarins olli nokkurri stöðnun í þýsku efnahagslífi, en allt þetta var Brandt gagnrýdur fyrir. Eftirmaður Brandts á kanslarastólnum var samflokksmaður hans Helmut Schmidt, þáverandi fjármálaráðherra. Eftir afsögn sína var Brandt enn virkur í stjórnmálum. Hann var formaður SPD til 1987, sat á þingi til 1992 og var meðlimur Evrópuþingsins til 1983. Eftir fall Berlínarmúrsins 1989 var Brandt einn helsti stuðningsmaður þess að flytja þingið og höfuðborgina frá Bonn til Berlínar. Willy Brandt lést úr krabbameini 17. október 1992. Hann hvílir í kirkjugarðinum Waldfriedhof í Zehlendorf í Berlín.

Fjölskylda

Willy Brandt var tvíkvæntur.

  • (1941-1948) Charlotta Thorkildsen. Þau eignuðust eina dóttur (Ninja). Hjónabandið endaði með skilnaði.
  • (1950) Rut Bergaust. Þau eignuðust þrjá syni (Peter, Lars og Matthias).

Kvikmynd

2003 var gerð kvikmynd um Willy Brandt sem ber heitið: Im Schatten der Nacht (Í skugga nætur). Myndin er í tveimur hlutum og fjallar um síðustu 14 daga Brandts sem kanslara.

Heimildir


Fyrirrennari:
Kurt Georg Kiesinger
Kanslari Vestur-Þýskalands
(1969 – 1974)
Eftirmaður:
Helmut Schmidt