Eftir að hafa lokið herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni sneri hann sér að stjórnmálum. Fyrir tilstilli og stuðning föður síns, Josephs P. Kennedy eldri sem var mjög valdamikill og er talinn hafa beitt sér óeðlilega fyrir son sinn[1], náði hann kjöri fyrir demókrata til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1947. Hann sat þar til ársins 1953 þegar hann var kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts. Hann gengdi þeirri stöðu uns hann var kjörinn forseti árið 1960 þegar hann sigraði frambjóðanda repúblíkana, Richard M. Nixon með litlum mun.
Forsetatíð
Kennedy var næstyngstur til að gegna embætti forseta, á eftir Theodore Roosevelt og yngstur til að vera kjörinn, 43 ára. Af málum sem settu mark sitt á valdatíð hans má nefna Svínaflóainnrásina, Kúbudeiluna[2] svokölluðu, þegar Sovétmenn hófu flutning kjarnorkuflauga til Kúbu, byggingu Berlínarmúrsins, geimkapphlaupið við Sovétríkin, mannréttindabaráttu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna og upphaf Víetnamstríðsins. Kennedy þótti hófsamur í skoðunum og viljugur til friðsamlegra lausna á vandamálum sem meðal annars sýndi sig í Kúbudeilunni. Einnig hafa ýmsir haldið því fram átökin í Víetnam hefðu ekki þróast út í það mikla stríð sem varð ef Kennedy hefði náð að sitja út kjörtímabil sitt til ársins 1964[3].
Fræg eru orð sem hann mælti í innsetningarræðu sinni: „Spurðu ekki hvað land þitt getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir land þitt“[4].
Kennedy var ráðinn af dögum þann 22. nóvember 1963 í Dallas í Texasríki í Bandaríkjunum. Lee Harvey Oswald sem ákærður var fyrir morðið var myrtur tveimur dögum síðar af Jack Ruby, áður en réttað var yfir honum. Í kjölfarið fór fram mikil rannsókn á vegum FBI og Warren-nefndarinnar og úrskurðaði hún að Oswald hefði verið einn að verki. Miklar getgátur hafa þó ávalt verið um að svo hafi ekki verið og árið 1976 var sett á fót sérstök rannsóknarnefnd (e. HSCA) á vegum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem rannsaka átti meðal annars morðið á Kennedy. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði verið að verki en líklega sem hluti af samsæri, án þess að getið væri sérstaklega um hverjir hefðu átt þar hlut að máli.[5]