Kailash Satyarthi (f. 11. janúar 1954) er indverskur aðgerðasinni sem er þekktur fyrir baráttu sína gegn barnaþrælkun. Ásamt Malölu Yousafzai hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 2014 fyrir „baráttu [sína] gegn undirokun gagnvart börnum og ungu fólki“.[1]
Æviágrip
Kailash Satyarthi er menntaður í rafmagnsverkfræði. Hann fékk áhuga á að taka á barnavinnu þegar hann var sex ára og kom auga á barn sem vann við að hreinsa skó vegfarenda á götum Delí. Þegar hann komst að því að milljónir barna í Indlandi neyddust til að vinna fyrir sér fremur en að ganga í skóla fann hann hjá sér köllun til að vinna bug á vandanum.[2]
Árið 1980 hóf Satyarthi baráttu sínu gegn barnaþrælkun og barnamansali með því að stofna hreyfinguna Bachpan Bachao Andolan (ísl. „Björgum bernskunni“), sem fæst við að bjarga börnum sem eru látin vinna fyrir ómannsæmandi laun við slæmar aðstæður í indverskum verksmiðjum. Árið 1998 skipulagði hann Heimsgöngu gegn barnavinnu í samstarfi um 2.000 hreyfinga og verkalýðsfélaga í 140 löndum til þess að berjast gegn barnaþrælkun.[2]
Talið er að samtök Satyarthi hafi bjargað um 80.000 indverskum börnum úr þrælkunarvinnu.[3]