Kim Dae-jung (6. janúar 1924 – 18. ágúst 2009) var forseti Suður-Kóreu frá 1998 til 2003. Hann vann friðarverðlaun Nóbels árið 2000 fyrir hina svokölluðu „Sólskinsstefnu“ sína í utanríkismálum gagnvart Norður-Kóreu sem vann að því að koma á sáttum milli ríkjanna tveggja. Sólskinsstefnan byggðist að nokkru leyti á „austurstefnu“ Willy Brandt, kanslara Vestur-Þýskalands, í samskiptum við Austur-Þýskaland. Kim er eini Kóreumaðurinn sem hefur unnið til Nóbelsverðlauna.
Kim hafði lengi verið forystumaður stjórnarandstöðunnar og talsmaður fyrir lýðræðisumbótum í Suður-Kóreu. Hann byrjaði stjórnmálaferil sinn á sjötta áratugnum og var kjörinn á þing árið 1961. Hann komst þó ekki á þing fyrr en tveimur árum síðar því að þremur dögum eftir kosningarnar rændi Park Chung-hee völdum í Suður-Kóreu og tók sér einræðisvald. Kim vakti fyrst verulega athygli tíu árum síðar þegar hann sigraði Park nærri því í forsetakosningum þrátt fyrir að einræðisstjórnin beitti stórtæku kosningasvindli.[1]
Eftir að Park kom á herlögum flúði Kim til útlegðar í Japan. Árið 1973 slapp Kim naumlega með líf sitt þegar leyniþjónusta Parks reyndi að koma honum fyrir kattarnef. Kim sneri aftur til Suður-Kóreu eftir dauða Parks en var handtekinn og yfirgaf Suður-Kóreu á ný eftir að hafa afplánað tveggja og hálfs árs fangavist. Hann sneri endanlega heim árið 1985 og var kjörinn forseti árið 1997.